31. maí 2022 Mundu að velja þér raforkusala 27.06.2022: ATH: Aðeins þeir sem ekki hafa verið í viðskiptum við rafmagnssölufyrirtæki síðustu 90 daga þurfa að bregðast við og velja sér raforkusala sem fyrst. Hjá öðrum, sem hafa verið í samfelldum viðskiptum, fylgir raforkusamningur þegar flutt er. Ef þú ert að kaupa eign númer tvö (eða fleiri) þá þarf að velja sér raforkusala fyrir nýju eignina. Að velja sér raforkusala er mikilvægt. Rétt eins og neytendur þurfa að velja á milli tryggingafélaga og fjarskiptafyrirtækja til að kaupa þjónustu af, þá þarf að velja af hvaða sölufyrirtæki þú vilt kaupa rafmagn. Það er ábyrgð okkar, bæði einstaklinga og fyrirtækja, að gera það strax og tekið er við nýrri fasteign. Að velja sér raforkusala er bæði einfalt og fljótlegt. Neytendur hafa val um af hvaða fyrirtæki þeir kaupa rafmagn, óháð búsetu. Hægt er að fara inn á heimasíður raforkusölufyrirtækis og ganga frá viðskiptasamningi. Söluaðilar rafmagns eru (í stafrófsröð): Fallorka HS Orka N1 Rafmagn Orka heimilanna Orka náttúrunnar Orkubú Vestfjarða Orkusalan Straumlind Ef ekki er gengið frá samningi við raforkusala verður lokað fyrir rafmagnið því dreifiveitum er óheimilt samkvæmt lögum að dreifa rafmagni inn á heimili og fyrirtæki ef slíkur samningur er ekki er til staðar. Ekki er opnað fyrir rafmagnið á ný fyrr en raforkusali hefur verið valinn. Að láta opna á ný eftir lokun felur einnig í sér kostnað fyrir neytandann. Hægt er að gera samanburð á raforkuverði á heimasíðu Orkuseturs og hjá Aurbjörgu. Samanburðurinn lítur ekki til þátta eins og mismunandi þjónustustigs. Hvernig veit ég hvort ég þurfi að velja? Og fyrir hvaða tíma?Ef þú hefur verið í viðskiptasambandi við raforkusala að undanförnu, færð reikninga og greiðir þá, þarftu ekki að velja þér raforkusala, ekki heldur ef þú flytur. En ef þú hefur ekki verið í viðskiptum við sölufyrirtæki raforku síðastliðna 90 daga, t.d. ert að kaupa þína fyrstu íbúð eða þú ert í millibilsástandi á meðan þú skiptir um húsnæði, eða af einhverjum öðrum ástæðum þú ert að tengjast rafveitu í fyrsta skipti, þá er mikilvægt að hafa samband við það raforkusölufyrirtæki sem þú kýst að vera í viðskiptum við og ganga til samninga um kaup á rafmagni. Einnig þarf að velja sér raforkusala ef þú ert að kaupa viðbótareignir við aðra sem þú átt fyrir. Ef þessu er ekki sinnt innan 30 daga frá notendaskiptum er dreifiveitum skylt samkvæmt lögum að stöðva raforkuafhendingu til viðkomandi notanda, að undangenginni skriflegri viðvörun.