Mikil fjárfesting í nýsköpun í orkutengdum iðnaði

Áhugaverðar upplýsingar koma fram á vefnum The Nordic Web, sem sérhæfir sig í umfjöllun um nýsköpunarfyrirtæki á Norðurlöndum. Þar kemur fram að mikil aukning var í fjárfestingu í þessum flokki hérlendis árið 2015 og nam hún alls um 194 milljónum Bandaríkjadala, eða ríflega 25 milljörðum króna. Ísland er þar á svipuðum slóðum og Finnland (sem er með 198 milljónir dala) en talsvert langt á undan Noregi sem var með 85 milljónir USD. Svíþjóð trónir á toppnum með 1,1 milljarð dala og Danmörk fylgir á eftir með 275 milljónir.

Orkutengdur iðnaður í lykilhlutverki
Þrjár fjárfestingar skipta sköpum varðandi þessa miklu fjárfestingu í nýsköpun hér á landi og þar af eru þær tvær stærstu i orkutengdum iðnaði. Þetta eru Verne Global með 98 milljón dala fjárfestingu og Carbon Recycling International með 46 milljón dali, auk síðan CCP með 30 milljón dali. Mikil tækifæri virðast því liggja í nýsköpun í orkutengdum iðnaði hérlendis.