Meiri hagsmunum fórnað fyrir minni?

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu:

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar hefur vakið mikla athygli og undirbúningi virkjunarinnar hefur verið hætt. Skipulagsstofnun telur meðal annars að framkvæmdin myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um sókn ferðamanna og útivistarfólks í þetta svæði, en framkvæmdaraðilinn hafði gert afar viðamiklar breytingar á fyrri verkáætlunum til þess að koma til móts við sjónarmið um verndun svæðisins og lágmörkun á öllu raski þar. Rætt var um nýja kynslóð jarðvarmavirkjana í því samhengi. Þessi niðurstaða Skipulagsstofnunar kemur því verulega á óvart. Þess má geta að bara nú í aprílmánuði heimsóttu um 3.600 manns Hellisheiðarvirkjun og vænta má mun fleiri gesta þangað yfir sumarmánuðina. Iðnaðarráðherra, sem meðal annars fer með orkumál og ferðaþjónustu, hefur enda sagt að græna orkan eigi eftir að reynast aðal tromp íslenska ferðamannaiðnaðarins.

Samtök ferðaþjónustunnar gagnrýna nú harðlega að hefja skuli veiðar á hrefnu og halda því fram að með því sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Á nokkurra ára tímabili hefur gestum í hvalaskoðun fjölgað um nær 70%, mikið til samhliða hvalveiðum. Hér skal ekki gert lítið úr hugsanlegum hagsmunum ferðaþjónustunnar af lítt röskuðu svæði við Ölkelduháls líkt og nú er, en ljóst er að þessi niðurstaða kann að setja í uppnám áform um verulega uppbyggingu í atvinnulífi í Þorlákshöfn og víðar og má nefna netþjónabú og kísilhreinsun í því sambandi. Stærðargráðan er yfir hundrað milljarðar króna í erlendri fjárfestingu, nokkur hundruð ný og vel launuð störf og fleiri milljarðar ef ekki milljarðatugir í skatttekjur ríkis og sveitarfélaga. Hér má því eðlilega spyrja hvort einmitt sé ekki verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.

Vekur áleitnar spurningar
Eftir standa hins vegar býsna áleitnar spurningar. Morgunblaðið hefur einmitt af þessu tilefni rifjað upp ýmis athyglisverð ummæli þeirra sem talað hafa í nafni náttúruverndar, þar sem fjallað er á jákvæðan hátt um hvoru tveggja jarðvarma- og rennslisvirkjanir. Þegar á reynir virðast hins vegar í vaxandi mæli rísa gagnrýni á þær tegundir virkjana. Auðvitað eru ýmis svæði sem samstaða er um að verði ekki raskað í þessu skyni, en það gildir fjarri því um öll nýtanleg svæði. Halda ber því til haga að hér er um að ræða endurnýjanlegar orkulindir sem hægt er að virkja á efnahagslega hagkvæman hátt og mynda með þeim grundvöll mikillar verðmætasköpunar.

Um allan heim leita nú ríki að mengunarlausum orkugjöfum, í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Mörg ríki hafa sett sér háleit markmið í þeim efnum. Fæst geta þó uppfyllt þau markmið með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, líkt og við erum svo rík af hér á landi og öfunduð af um heim allan. Víða er þess vegna horft til kjarnorku. Er það okkar framtiðarsýn að brátt verði hér einfaldlega látið staðar numið við nýtingu þessarar auðlindar sem við Íslendingar erum svo rík af, endurnýjanlegri orku í formi vatnsafls og jarðvarma, og það á tímum alþjóðlegrar baráttu gegn losun gróðurhúsalofttegunda og síhækkandi olíuverðs?