Hrein orka og hlýnun loftslags

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Morgunblaðinu:

Eftirspurn eftir orku fer hratt vaxandi og ef fram heldur sem horfir mun orkuþörf mannkyns aukast um 50% næsta aldarfjórðunginn. Jafnframt stefnir í að brennsla á jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og gasi – verði æ stærri hluti af þessari vaxandi orkuköku, með þeirri auknu losun gróðurhúsalofttegunda sem slíkri brennslu fylgir. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Þorkels Helgasonar orkumálastjóra á dögunum, á hádegisverðarfundi Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja.

Hrein orka á Íslandi
Sama dag var haldinn aðalfundur Samorku þar sem samþykkt var ályktun um loftslagsmálin, Ísland og endurnýjanlega orkugjafa. Þar er baráttunni gegn vaxandi losun gróðurhúsalofttegunda lýst sem einni mikilvægustu áskorun veraldar nú um stundir. Jafnframt er í ályktun fundarins lýst sérstökum fögnuði yfir því að íslenskir fjárfestar séu nú að hefja aukna útrás í krafti íslenskrar þekkingar á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Þar eiga Íslendingar langa sögu og hafa til dæmis lengi verið í fararbroddi þekkingar á nýtingu jarðhita, auk þess sem hér er nú unnið mikið starf við rannsóknir og þróun á nýjum vistvænum orkugjöfum.

Loftslagsvandinn sem við er að etja er fyrst og fremst til kominn vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti. Um allan heim er því lögð áhersla á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa og stuðla að orkusparnaði. Evrópusambandið hefur til dæmis sett sér það metnaðarfulla markmið að árið 2020 verði 20% heildarorkunotkunar innan þess fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum, en þar er þetta hlutfall nú um 7%. Á Íslandi er þetta hlutfall hins vegar um 72%, og nær 100% ef horft er til raforkuframleiðslu og húshitunar.

Ísland er þess vegna í einstakri stöðu í þessu samhengi og útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna nýtingar okkar endurnýjanlegu orkulinda er hverfandi samanborið við brennslu jarðefnaeldsneytis. Þetta hefur alþjóðasamfélagið viðurkennt og með sérstakri samþykkt við svonefnda Kyoto-bókun við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna var Íslandi heimilað að auka útstreymi vegna einstakra iðjuvera, enda yrðu loftslagsáhrif af starfsemi þessara iðjuvera annars staðar mun meiri en hér á landi. Loftslagsmálin eru jú í eðli sínu hnattrænt viðfangsefni. Nýlega var nefnt dæmi um sjöfalda losun gróðurhúsalofttegunda vegna álvers sem byggir á orku frá kolum, miðað við álver sem nú er verið að reisa hér á landi.
 
Okkar framlag
Einstakar virkjunarframkvæmdir verða ávallt tilefni skoðanaskipta út frá sjónarmiðum náttúruverndar. Hlýnun lofthjúps jarðar kallar hins vegar á aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa, sem er allt önnur umræða. Því er ljóst að auk nýtingar á endurnýjanlegum orkulindum hérlendis, og með frumkvöðlastarfsemi við þróun nýrra vistvænna orkugjafa, munu Íslendingar með útrás þekkingar hins íslenska orkugeira leggja sitt af mörkum í einu mikilvægasta verkefni samtímans – baráttunni gegn hlýnun lofthjúps jarðar.