Hlutfall kvenna hækkar í orkugeiranum

Hlutfall kvenkyns stjórnarformanna hefur farið úr 25% í 58% á aðeins fjórum árum í orkugeiranum á Íslandi. Þá hefur hlutfall kvenkyns framkvæmdastjóra hækkað um 10% á tveimur árum og er nú 46%. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Kvenna í orkumálum sem var gefin út í dag.

Félagið Konur í orkumálum gefur út skýrslu um stöðu kvenna í orkugeiranum á Íslandi á tveggja ára fresti. Skýrslan, sem unnin er af EY, varpar ljósi á stöðu kvenna í orkugeiranum á Íslandi, sem löngum hefur verið karllægur. Það er þó að breytast.

Ný skýrsla kom út í þriðja sinn í gær og var kynnt í Grósku við það tilefni. Í henni kemur meðal annars fram að á tveimur árum hefur kvenkyns framkvæmdastjórum í orkugeiranum fjölgað um 10% og að 58% stjórnarformanna orkufyrirtækja eru nú konur. Hlutfall kvenna í stöðum forstjóra, deildarstjóra og meðstjórnenda lækkar, en á sama tíma fjölgar konum í almennum stöðugildum í orkugeiranum á Íslandi og er nú 27%. Ákvörðunarvald liggur hjá konum í 36% tilfella í orkugeiranum hér á landi, samanborið við 30% í fyrstu skýrslunni sem kom út.

Harpa Þórunn Pétursdóttir formaður KíO: „Það er mjög ánægjulegt að sjá svona miklar breytingar á skömmum tíma í orkugeiranum hvað varðar ákvörðunarvald kvenna. En það er enn verk fyrir höndum. Það er áhyggjuefni að sjá skref tekin afturábak á sumum sviðum og sem fyrr er það stórt verkefni að jafna hlut kvenna í almennum stöðugildum í íslenska orkugeiranum.“


Harpa Pétursdóttir, formaður Kvenna í orkumálum.

Hún segir skýrslu KíO veita aðhald í þessum málaflokki. „Við vonum að niðurstöður skýrslunnar hafi jákvæð áhrif á þróunina frá ári til árs og að þær séu hvatning til fyrirtækja í geiranum til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að leiðrétta kynjahlutfall á öllum sviðum. Aukin fjölbreytni leiðir til betri stjórnunar og ákvörðunartöku.“

Athygli vekur að konur eru aðeins 8% forstjóra í orkugeiranum á Íslandi, eða ein kona hjá þeim tólf fyrirtækjum sem liggja til grundvallar skýrslunni. Harpa segir að þetta hlutfall verði að bæta. „Á næstu árum er mikilla breytinga að vænta í forstjórastöðum í orkugeiranum og þá verður einfaldlega að laga hlutfall kvenna.“

Skýrsluna má sjá hér: https://issuu.com/konuriorkumalum/docs/kio_skyrsla_2021_final_b


Skýrslan var styrkt af: Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun, HS Orku, Norðurorku, RARIK og Samorku.