11. janúar 2006 Hitaveitufréttir úr Skagafirði Akrahreppur Hofsós – Hólar Skagafjarðarveitur eru nú að leggja hitaveitu í Akrahrepp og stefnt er að því að verkinu verði lokið í ágúst á þessu ári. Þegar því er lokið hefur notendum fjölgað um 200 manns. Heildarlengd lagna er um 40 km. Heita vatnið kemur frá Reykjarhóli við Varmahlíð. Aðalstofnlögnin úr Varmahlíð yfir Héraðsvötnin er fjögurra tommu stálrör. Þar greinist lögning til tveggja átta, í suður að Uppsölum og norður að Ytri-Brekkum. Þaðan sem lögnin greinist verður lagt í PEX plaströr, sem keypt hafa verið frá Lögstör. Þau eru með súrefnissperru og vel einangruð í flokki 2. Heimæðar eru líka úr einangruðum pexrörum. Búið er að tengja yfir 40 hús og hleypt var á fyrsta húsið í Akrahrepp Mið-Grund rétt fyrir jólin. Heildarkostnaður verksins er 120 Mkr. Kostnaðurinn er greiddur með heimæðargjöldum, átta ára niðurgreiðslustyrk til húshitunar frá ríkinu og með framlagi úr hreppssjóði Akrahrepps. Skagafjarðarveitur greiða um 20 Mkr og þá upphæð reikna þeir með að fá endurgreidda á 15 20 árum ásamt vöxtum með tekjum að sölu vatns. Verið er að bora fyrir Skagafjarðarveitur í Kýrholti. Það er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sem vinnur verkið. Borað er með 12 gráður halla til að hitta á æðina. Áður hefur verið borað á svipuðum slóðum og þá fékkst mikið vatn en volgt. Þannig að þetta er tilraunverkefni sem Skagafjarðarveitur, ÍSOR, Jarðhitaleitarátakið og orkusjóður fjármagna. Ef heitara vatns fæst þá verður hún notuð fyrir nærliggjandi byggð. Nú nýverið hefur verið borað á Hrolleifsdal fyrir Hofsós og þar er talið að holan gefi 30-35 l/s af 74°C heitu vatni en eftir er að sannreyna það með dæluprófun. Vonast hafði verið eftir heitara vatni til að dreifa lengra en til Hofsós en það verður erfitt með þetta hitastig. Nýverið yfirtóku Skagafjarðarveitur Hólaveituna sem var í eigu ríkisins, sem er bæði hitaveita og vatnsveita. Í Hólaskóla, Háskólanum á Hólum, er mikil starfsemi og var farið að bera á heitavatnsskorti. Strax var farið í að bora nýja holu á Reykjum þar sem jarðhitavinnslan er. Holan er 1080 metra djúp og gefur rúmlega 60°C heitt vatn, 28 l/s með 25-28 bara lokunarþrýstingi. Holan var strax tengd. Fágætt er að svo mikill þrýstingur sé á lághitaholum en talið er að heitavatnsforðinn sé ofar í fjallinu. Fyrir liggur að gera endurbætur á vatnsveitunni. Vatnið er þar tekið úr lind svonefndri Biskupslind upp í fjalli ofan við Hóla og hefur hún verið nýtt svo lengi sem elstu menn muna og er væntanlega blessuð af Guðmundi góða þannig að heilnæmi vatnsins er tryggt. Skagafjarðarveitur hafa góða heimasíðu þar sem segir fá því sem er á döfinni og vert er að skoða www.skv.is.