Hátíð í Hafnarfirði

Það er ekki á hverjum degi sem ný vatnsaflsvirkjun er tekin í notkun.
Föstudaginn 17. janúar s.l. var Reykdalsvirkjun, hin nýja, formlega gangsett.
Það er forsaga þessa atburðar að þegar Samorka minntist 100 ára rafvæðingar á Íslandi, þá var ákveðið að færa Hafnfirðingum að gjöf túrbínu og rafala af sömu stærð og vélar Jóhannesar Reykdals voru í upphafi.

Gjöfin var afhent á hátíðarsamkomu í Hafnarborg 12. desember 2004. Það er Reykdalsfélagið sem síðan borið hefur hita og þunga af verkinu.

Á myndinni sem hér fylgir sést þegar Jóhannes Einarsson skólastjóri Iðnskólans í Hafnarfirði ræsir virkjunina, að viðstöddu fjölmenni. Jóhannes er barnabarn frumkvöðulsins Jóhannesar Reykdals. Iðnskólinn í Hafnarfirði mun nýta virkjunina sem kennslutæki í rafiðnfræðum og við fræðslu um endurnýtanlega orku. Þess er að vænta að útilýsingin á svæðinu meðfram Hamrakotslæknum verði með rafmagni frá virkjuninni og síðan stendur til að á lóninu verði bátar sem knúnir verði með reykdalsrafmagni, eða með vetni sem framleitt verði með því rafmagni.

Samorka óskar Hafnfirðingum til hamingju með þetta framtak og hvetur alla sem áhuga hafa á raforkumálum að ganga við og skoða virkjunina, en hún er til húsa í undirgöngunum undir Lækjargötuna og stöðvarhúsið er með glerveggjum þannig að tæki og búnaður blasa við vegfarendum.

Samorka óskar Hafnfirðingum einnig til hamingju með 100 ára kaupstaðarafmælið, sem haldið er upp á árinu öllu, en gangsetning virkjunarinnar var einn liður í þeim hátíðarhöldum.

Nánari fróðleikur um 100 ára afmæli rafvæðingar

Heimasíða Hafnarfjarðarbæjar