Góður árangur af jarðhitaleit

Helstu verkefni ÍSOR hafa verið vegna nýtingar háhita til rafmagnsframleiðslu og jarðhitaleitar á lághitasvæðum.  Á Hjalteyri var boruð ný vinnsluhola fyrir Norðurorku sem gaf afburðagóður árangur og er með afkastamestu lághitaholum landsins. Við Urriðavatn náðist góður árangur fyrir Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Sama er að segja um borun við Kaldárholt fyrir Hitaveitu Rangæinga og á Hólum í Hjaltadal.  Einnig fannst vatn við Hrollleifsdal í Skagafirði sem gefur möguleika á hitaveitu á Hofsósi.  Á Heimaey var boruð djúp rannsóknarhola en lítið fannst af heitu vatni. Niðurstöður varpa þó ljósi á jarðfræði og myndunarsögu eyjanna. Einnig voru landgrunnsmálin fyrirferðamikil í starfi ÍSOR.  ISOR hefur unnið mikið að landgrunnsmálum og einnig mannvirkjajarðfræði m.a. vegna jarðgangnagerðar. Vinna  við jarðhitarannsóknir erlendis var í Úganda, Nikaragúa og á Diskóeyju við Grænland.

 

Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR fór yfir áætlanir um stærð orkuauðlindanna á Íslandi. Vatnsaflið hefur verið áætlað um 30 TWh og af því er búið að virkja 40%. Það sem eftir stendur er aðeins fyrir um 1-2 álver í viðbót.  Jarðhitinn var áætlaður 20 TWh árið 1985 og er það örugglega vanáætlað.  Hann benti á að umhverfisáhrif jarðhitanýtingar væru minni en vatnsafls og ef vel væri gengið um væri hægt að færa til sama horfs og áður þegar nýtingu væri hætt. Þannig væri jarðhitinn sjálfbær.  Ef hægt verður að nýta jarðhitann dýpra og ná í mjög heitan vökva eða dæla niður þá er jarðhitaauðlindin mikið stærri en nú er gert ráð fyrir. En mikilvægt er að ljúka við gerð rammaáætlunar til að móta stefnu í orkunýtingu til framtíðar.

 

Síðan voru erindi um jarðfræði og jarðhita á Austurlandi.  Guðni Axelsson sagði frá jarðhitaleit fyrir Hitaveitu Egilsstaða og Fella og Guðmundur Davíðsson sagði frá rekstri og framtíðarsýn veitunnar.  Þeir sögðu frá góðum árangri jarðhitaleitar og borana við Urriðavatn.  Hola 10 var boruð á síðasta ári og er hún efnileg hola. Hún var fyrst þurr en þá var breytt um stefnu og hún skáboruð í vestur undir vatnið. Í 1330 metrum kom mikið 79°C heitt vatn þar sem hitt var á norður/suður sprungu sem var nær lóðrétt. Þessi hola mun standa undir vinnslu í næstu framtíð.  Haukur Jóhannesson sagði frá jarðfræði og jarðhita Austurlands og setti í samhengi við jarðfræði Íslands.  Elstu jarðlög á Íslandi eru á Vestfjörðum og á Austurlandi. Á Austurlandi er lítill jarðhiti á yfirborði. Hæstur hiti er í Laugarvalladal um 70°C. Árni Hjartarson sagði frá vatnsauðlindinni og neysluvatnsöflun á Austurlandi. Þorsteinn Egilsson sagði notkun bylgjubrotsaðferð til að kortleggja laus jarðlög ofan á þéttu bergi sem nýtt hefur verið m.a. við athuganir vegna jarðgangnagerðar í Héðinsfirði og til Vestmannaeyja. Sigurður Arnalds fræddi um gang mála við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og að verkið væri á áætlun þrátt fyrir tafir vegna erfiðleika við borun jarðgangna.

Erindin frá fundinum eru á vefsíðunni www.isor.is