Formaður loftslagsnefndar SÞ: Dáist að orkulindum Íslendinga

Ekkert er því til fyrirstöðu að nota endurnýjanlega orku Íslendinga til að knýja álver að mati Rajendra Pachauri, formanns loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Í samtali við fréttastofu RÚV segir Pachauri Íslendinga leiðtoga í baráttunni fyrir minni losun gróðurhúsalofttegunda.

Dr. Rajendra Pachauri er heimskunnur vísindamaður í alþjóðlegum umræðum um loftslagsbreytingar. Hann tók meðal annars við friðarverðlaunum Nóbels árið 2007 fyrir hönd Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Pachauri, sem staddur var hér á landi í boði Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, hélt erindi í Háskóla Íslands um samspil vísinda og stjórnmálamanna. Hann hitti síðan íslenska vísindamenn og áhrifamenn hér á landi.
Pachauri segir aukna vitund hafa verið á alþjóðavettvangi um þessi mál í heiminum, ekki aðeins meðal almennings heldur yfirvalda.

Pachauri segir Íslendinga í forystu á þessu sviði þar sem þeir eigi miklar endurnýjanlegar orkuauðlindir og skilji mikilvægi þess að nota þær. Þeir geti miðlað þessu til annarra landa.

Sjá fréttina á vef Ríkisútvarpsins.