8. maí 2019 Fjármagnskostnaður taki bæði til lánsfjár og bundins eigin fjár Þann 15. mars s.l. kvað Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið upp úrskurð um að álagning Veitna ohf. á vatnsgjaldi væri ólögmæt. Ágreiningsefnið í málinu er fyrst og fremst um það hvaða felst í hugtakinu fjármagnskostnaður samkvæmt 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga. Lögin sjálf skilgreina hugtakið ekki, en hins vegar er almennur skilningur sá að fjármagnskostnaður taki bæði til kostnaðar við lántöku og kostnaðar vegna bundins eigi fjár. Samorka telur ljóst eftir ítarlega skoðun að niðurstaða ráðuneytisins byggist á ákveðnum misskilningi. Í lögskýringargögnum (greinargerð með frumvarpi til vatnsveitulaga, nefndaráliti með frumvarpinu og einnig í greinargerð með frumvarpi til sveitarstjórnarlaga) koma fram mikilvægar upplýsingar sem gefa svör um það hvað átt er við með fjármagnskostnaði í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Þegar þessi gögn eru rýnd er augljóst að vilji Alþingis stendur til þess að sveitarfélögin, sem eigendur vatnsveitna, geta áskilið sér hæfilegan kostnað vegna eiginfjár sem bundið er í veitunni, þ.e. hæfilegan arð. Ekki er dregið í efa að þessum rétti til arðs eru settar ákveðnar skorður og þess vegna gert ráð fyrir því í vatnsveitulögunum að ráðherra setji reglugerð hér að lútandi. Reglugerð um þessi atriði hefur ekki verið sett og því skort á leiðbeiningum um með hvaða hætti skuli reikna út þennan kostnað, þ.e. hver sé leyfilegur arður. Reglur hér að lútandi hafa hins vegar verið settar um raforkudreifingu og því ákváðu Veitur að hafa hliðsjón af þeim reglum í tilfelli gjaldskrár vatnsveitunnar. Er þá á því byggt að gera megi ráð fyrir því að svipuð sjónarmið liggi til grundvallar um ákvörðun arðs í sérleyfisstarfssemi hvort sem um raforkudreifingu er að ræða eða rekstur vatnsveitu. Mikilvægt er að hafa í huga að í umfjöllun fræðimanna um hæfilegan arð af bundnu eigin fé í fyrirtækjum sveitarfélaga er lögð áhersla á mikilvægi þess að um er að ræða raunverulegan kostnað og að með skilyrðingu um arð komi hvatar sem tryggi skynsamlegt eigið fé á móti lánsfé. Slíkt auki jafnfram líkur á fjárfestingu í nauðsynlegum innviðum og þeim sé haldið við af ábyrgð. Stjórn Samorku og ráðgjafaráð veitufyrirtækja hafa fjallað um málið og er niðurstaðan sú að óska eftir því við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að þegar í stað verði sett reglugerð um forsendur arðs af bundnu eigin fé og þar með viðurkennt að fjármagnskostnaður taki til bæði lánsfjár og bundins eigin fjár í vatnsveitum sveitarfélaga. Telji ráðuneytið að ástæða sé til þess að jafnframt séu gerðar breytingar á lögum um vatnsveitur sveitarfélag þá verði það gert hið fyrsta. Stjórn Samorku óskar einnig eftir því að ráðuneytið fari að svo stöddu ekki í boðaða frumkvæðisathugun á gjaldskrám allra vatnsveitna sveitarfélaga í landinu. Áður en til þess kemur er mikilvægt að tekin sé afstaða til þeirra röksemda sem Samorka hefur sett fram í málinu og þar með að forsendur séu nú þegar fyrir hendi fyrir ráðherra að gefa út reglugerð sem veitir leiðsögn um hvað sé hæfilegur arður af bundnu eigni frá, enda ljóst að löggjafarviljinn stendur til þeirrar heimildar.