Fimm þúsund börn á dag, 54 þúsund milljarðar króna á ári!

Vatn er undirstaða lífs og velferðar. Hins vegar hefur 1,1 milljarður manna, um 18% jarðarbúa, ekki aðgang að öruggu drykkjarvatni. 2,6 milljarðar hafa ekki aðgang að viðunandi frárennslisaðstöðu, eða 41% jarðarbúa. Verst er ástandið í þróunarríkjum í Afríku sunnan Sahara og í Asíu. Þó hafa 144 milljónir Evrópubúa ekki vatn í hús og meira en 41 milljón hefur ekki aðgang að öruggu neysluvatni. Talið er að í heiminum öllum láti fimm þúsund börn lífið á degi hverjum vegna skorts á öruggu neysluvatni. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Maríu J. Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hita- og vatnsveitusviðs Samorku, á ráðstefnu samtakanna um Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegum degi vatnsins, 22. mars.

Samkvæmt Þúsaldaryfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2.000 ætla ríki heims að minnka fátækt, misrétti, hungur og sjúkdómsáþján fyrir árið 2015. Markmiðin eru átta talsins og meðal þeirra er að helminga fyrir árið 2015 þann fjölda fólks sem ekki hefur aðgang að öruggu neysluvatni og frárennsli.

54.000 milljarðar króna á ári
Mikið vantar upp á að við náum þessum markmiðum, og horfur eru á að árið 2015 verði nær 2,3 milljarðar án viðunandi frárennslis. María greindi frá því að árlegur kostnaður af því að leysa ekki vatns- og frárennslismál heimsins hefur verið reiknaður út af Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Ef talinn er með kostnaður vegna tapaðra vinnustunda o.fl. er árlegur kostnaður áætlaður 820 milljarðar dollara á heimsvísu, eða um 54 þúsund milljarðar króna.

Maria sagði stærsta vandamálið þó ekki vera skort á vatni, heldur frekar fátækt og mismun í aðgangi að auðlindum. Hún sagði þetta vera kreppu sem hægt væri að leysa en til þess þyrfti alþjóðlegt átak og spurningin væri sú hvað Íslendingar gætu lagt þarna af mörkum, en ekki eru nema um 100 ár síðan taugaveiki var hér landlæg í sumum bæjum áður en lagðar voru þar vatnsveitur og fráveitukerfi.

Sjá erindi Maríu.