29. janúar 2016 Ferðamenn boðnir velkomnir til lands endurnýjanlegrar orku Landsvirkjun hefur látið setja upp auglýsingaskilti í flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem ferðamenn eru boðnir velkomnir til lands endurnýjanlegrar orku. Á vef fyrirtækisins kemur fram að samstarf orkuiðnaðar og ferðaþjónustu hafi verið farsælt og að full ástæða sé til að telja að uppbygging ferðaþjónustu og orkuiðnaðar muni áfram geta orðið í góðri samvinnu, til hagsbóta fyrir báðar atvinnugreinar og Ísland. Minnt er á orkusýningar virkjana, Bláa lónið, Jarðböðin við Mývatn, Kárahnjúkastíflu o.fl. mannvirki sem alls hundruðir þúsunda heimsækja ár hvert. Einnig er minnt á niðurstöður í könnun Iceland Naturally um mjög svo jákvæð áhrif endurnýjanlegrar orku á ímynd bandarísks almennings af Íslandi og á líkur þess að þarlendir heimsæki Ísland. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.