ESB-ríkin með 14% hlut endurnýjanlegrar orku, Ísland með 76%

Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í endanlegri orkunotkun aðildarríkja ESB var að meðaltali 14,1% árið 2012, samkvæmt nýbirtum tölum evrópsku hagstofunnar Eurostat. Er þetta aukning um 8,3% frá árinu 2004. Flest aðildarríkin hafa náð ágætum árangri í að auka þetta hlutfall í samræmi við áætlun ESB fyrir hvert ríki, en sem kunnugt er stefnir ESB á að meðaltalið verði 20% árið 2020. Um þessar mundir er rætt um nýtt markmið fyrir árið 2030 og hefur framkvæmdastjórnin lagt til að stefnt verði á 27%.

Hæsta hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun innan ESB er í Svíþjóð eða 51%, en næst kemur Lettland með 36%, Finnland með 34% og Austurríki með 32%. Lægst er hlutfallið á Möltu, 1,4%, en næst koma Lúxemborg með 3,1% og Bretland með 4,2%. Öll eiga þessi þrjú ríki langt í langt að ná sínum markmiðum fyrir árið 2020. Til samanburðar má geta þess að á Íslandi er þetta hlutfall 76% og í Noregi er það 64,4%. Á Íslandi eru 99,9% allrar raforku framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum sem og um 99% allrar orku til húshitunar, en við flytjum inn jarðefnaeldsneyti einkum til notkunar í samgöngum og sjávarútvegi.

Sjá tölur Eurostat um hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í aðildarríkjum ESB.