ESB: 20% orku verði endurnýjanleg árið 2020

10. janúar 2007

 

ESB: 20% orku verði endurnýjanleg árið 2020

á Íslandi er hlutfallið rúm 70% og fer vaxandi

 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur sett sér markmið um að árið 2020 verði 20% orkunotkunar innan sambandsins fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Árið 1997 setti ESB sér markmið um að árið 2010 yrði þetta hlutfall 12%, en nú mun ljóst að það markmið muni ekki nást. Á Íslandi er þetta sama hlutfall hins vegar rúm 70% og fer vaxandi með tilkomu nýrra gufu- og vatnsaflsvirkjana.

 

Orkumálin sett í forgang

Í formennskuáherslum þýsku ríkisstjórnarinnar, sem nú leiðir ráðherraráð ESB, eru orkumálin meðal helstu skilgreindra forgangsmála. Meðal annars er lögð áhersla á nauðsyn aukins öryggis í aðgengi að orkugjöfum innan ESB, og á aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa í orkuneyslu innan sambandsins.

 

Framkvæmdastjórn ESB hefur nú jafnframt sett fram fyrrnefnt markmið um 20% hlutfall endurnýjanlegrar orku árið 2020. Óhætt er að segja að markmið þetta sé metnaðarfullt, í ljósi þess að ekki virðist ætla að takast að ná fyrra markmiði um 12% árið 2010. Hins vegar er mikið ánægjuefni að framkvæmdastjórn ESB hafi sett sér þessi metnaðarfullu markmið, en hvatarnir eru jú m.a. þeir að ná að draga úr losun koltvísýrings sem stafar af brennslu jarðefnaeldsneyta annars vegar, og að auka öryggi í aðgengi að orkugjöfum fyrir almenning og atvinnulíf í löndum ESB hins vegar. Markmið þessi eru sett fram sem hluti af víðtækri stefnumótun ESB á sviðum loftslags- og orkumála.

 

Ólík staða hérlendis

Staðan er hins vegar talsvert önnur á Íslandi. Hér eru rúm 70% orkunotkunar fengin frá endurnýjanlegum orkulindum og fer hlutfallið raunar vaxandi með tilkomu nýrra gufu- og vatnsaflsvirkjana (innflutt orka er einkum notuð við fiskveiðar og samgöngur). Þetta háa hlutfall hreinnar orku vekur sífellt meiri athygli annarra þjóða og íslensk orkufyrirtæki, verkfræðistofur og fjármálafyrirtæki sinna nú fjölþættum verkefnum víða um heim í krafti þeirrar miklu þekkingar sem hér hefur verið þróuð á þessu sviði. Hrein orka og endurnýjanlegir orkugjafar eru þess vegna meðal mikilvægustu eiginleika í „vörumerkinu Íslandi“ og ljóst að Íslendingar eiga gríðarleg tækifæri á sviði orkumála, sem færast sífellt framar á forgangslista sjórnvalda um veröld alla.