30. nóvember 2016 Ísland trónir á toppnum Ísland stendur sig best allra þjóða þegar kemur að hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í rafmagnsframleiðslu, samkvæmt nýjum tölum frá Alþjóða orkumálastofnuninni (IEA). Hér á landi er hlutfallið 99,99% og er mun hærra en í öðrum Evrópulöndum, að Noregi frátöldum þar sem hlutfallið er tæp 98%. Að sama skapi skipar Ísland neðsta sætið þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis (olíu, kola og gass) við rafmagnsframleiðslu er borið saman. Þar er hlutfallið 0,01%, hérlendis, en hjá rétt um helmingi samanburðarlanda er hlutfallið um og yfir 50%. Á heimsvísu snýst baráttan gegn losun gróðurhúsalofttegunda einkum að því að minnka losun frá orkuframleiðslu og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Þessar nýju tölur staðfesta sterka stöðu Íslands. Eins og sjá má standa Eistland, Pólland og Holland frammi fyrir verðugu verkefni þegar kemur að því að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í rafmagnsframleiðslu, en hlutfall kola, gass og olíu er þar í kringum 90%.
28. nóvember 2016 Góð rekstrarniðurstaða OR Hagnaður OR eftir fyrstu níu mánuði ársins nemur 9,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu í dag. Nettóskuldir OR hafa lækkað um 17,8 milljarða frá áramótum. Þar af hefur styrking krónunnar skilað 3,8 milljörðum til lækkunar skulda og færist til tekna. Í gær tilkynntu Veitur um gjaldskrárbreytingar sem verða um áramót. Veitur er dótturfyrirtæki OR sem sér um rekstur hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og rafveitu víða á sunnan- og vestanverðu landinu. Sparnaður í rekstrinum gerir fyrirtækinu kleift að lækka gjaldskrá rafmagnsdreifingar um 5,8%. Rafveita Veitna þjónar Reykjavík, Akranesi, Mosfellsbæ, Kópavogi og meirihluta Garðabæjar. Gjaldskrá vatnsveitnanna lækkar um allt að 11,2% en miklar fjárfestingar í fráveitum og hitaveitum leyfa ekki lækkun á þeim gjaldskrám.
10. nóvember 2016 Vel sóttur fundur um rafbíla Þéttsetið í Norðurljósasal Hörpu í morgun Um 200 manns sóttu vel heppnaðan fund Samorku, Íslandsbanka og Ergo í Hörpu í morgun undir yfirskriftinni Hvar eru rafbílarnir?. Fjallað var meðal annars um raforkukerfið og undirbúning fyrir rafbílavæðingu, innviði og rafbílamarkaðinn eins og hann er í dag. Erindi fluttu þau Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningarmála hjá Orku náttúruinnar og Kári Auðun Þorsteinsson, viðskiptastjóri hjá Ergo. Þá voru fjörugar pallborðsumræður undir stjórn Hjartar Þórs Steinþórssonar forstöðumanns orkumála á fyrirtækjasviði Íslandsbanka, en í pallborði sátu Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og þróunarsviðs Landsvirkjunar og Ágústa S. Loftsdóttir, verkefnisstjóri hjá Orkustofnun. Fundinum stjórnaði Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku. Pallborðsumræður Ávinningur rafbílavæðingar er ekki einungis góður fyrir umhverfið, heldur er einnig fjárhagslegur ávinningur, bæði fyrir samfélagið í heild sinni og einstaklinginn sjálfan. Ef 10% bílaflotans rafvæðist, sem er markmið stjórnvalda fyrir árið 2020, skilar það 5 milljarða gjaldeyrissparnaði á hverju ári sem annars færi í olíuinnflutning. Sú upphæð jafngildir rekstri allra leikskóla Reykjavíkurborgar í hálft ár. Með hverju prósenti sem rafbílum fjölgar hækkar þessi tala. Bíleigandinn sparar einnig allt að 200 þús krónur árlega í eldsneytiskaup með því að skipta yfir í rafbíl, sé miðað við meðalakstur. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, fjallaði um dreifikerfi raforku með tilliti til rafbíla Margt þarf hins vegar að koma til. Ívilnanir stjórnvalda skipta miklu máli, sem og þróun verðlags á rafhlöðum og olíu, drægni bílanna og uppbygging innviða eins og hleðslustöðvum við heimili og hringinn í kringum landið og flutningskerfið. Þá er lítil reynsla enn af rafbílum og vegna þess að þeir eru enn um 15-20% dýrari en bensín- og díselbílar tekur nokkur ár fyrir kaupin að borga sig upp, sé miðað við sparnað á eldsneyti eingöngu. Það var mál manna að fundurinn hafi verið fræðandi og skemmtilegur og vill Samorka þakka öllum þeim sem komu, Íslandsbanka og Ergo fyrir samstarfið og visir.is sem sendu fundinn út beint á vefsíðu sinni. Upptökur af fundinum má sjá hér fyrir neðan. Því miður var erindi Tryggva Þórs hljóðlaust framanaf og því er upptakan ekki aðgengileg nema að hluta til, frá þeim tímapunkti að hljóðið komst í lag. Glærur Tryggva Þórs Haraldssonar, forstjóra RARIK Hvar eru rafbílarnir- Tryggvi Þór Haraldsson-HD from Samorka on Vimeo. Hvar eru rafbílarnir? – Áslaug Thelma Einarsdóttir from Íslandsbanki on Vimeo. Kári Auðun Þorsteinsson from Íslandsbanki on Vimeo. Hvar eru rafbílarnir? – Panell from Íslandsbanki on Vimeo.
20. október 2016 Orku- og veituþjónusta langódýrust á Íslandi Íslensk heimili greiða langminnst fyrir orku- og veituþjónustu á Norðurlöndum. Samanlagt greiða Íslendingar rúmum 400 þúsund krónum minna fyrir kalt og heitt vatn, rafmagn og fráveitu á hverju ári en þar sem þjónustan er dýrust. Sé miðað við heildarreikning fyrir 100 fermetra íbúð og meðalnotkun á ári, greiðir íslenskt heimili aðeins um 247 þúsund krónur fyrir orku- og veituþjónustu. Í Kaupmannahöfn greiða íbúar í sams konar íbúð 655 þúsund krónur, sem er hæsta verðið á Norðurlöndunum og tæpum 34 þúsundum meira á mánuði en á Íslandi. Næstmest borga Finnar, eða um 588 þúsund á ári hverju og Svíar borga 480 þúsund. Orku- og veituþjónusta kostar næstminnst í Noregi, en þar greiðast 431 þúsund krónur árlega, sem er þó tæpum 184 þúsund krónum meira en á Íslandi. Á heildarreikningi heimilanna munar mestu um verð á heitu vatni – Íslendingar greiða langtum minna fyrir það en aðrir íbúar Norðurlanda. Forsendur: Rafmagn: 4.800 kWst ársnotkun. Heitt vatn: 100m2 íbúð, 495 tonna ársnotkun. Kalt vatn: 100m2 íbúð, 240 tonna ársnotkun. ATH! Á Íslandi er notkun ekki mæld, heldur miðuð við stærð húsnæðis. Íslendingar nota meira magn af köldu vatni á mann en aðrir íbúar Norðurlanda. Fráveita: 100m2 íbúð, 240 tonna ársnotkun.
6. október 2016 Orkusalan gefur hleðslustöðvar fyrir rafbíla Orkusalan, dótturfyrirtæki RARIK, gefur öllum sveitarfélögum landsins hleðslustöð fyrir rafbíla, alls um 80 talsins. Með þessu vill fyrirtækið auðvelda rafbílaeigendum að komast leiðar sinnar hringinn í kringum landið. Fyrsta stöðin verður sett upp í Vestmannaeyjum á næstu vikum. Ísland er í lykilstöðu til að leiða rafbílavæðingu heimsins og vill Orkusalan leggja sitt af mörkum með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Hleðslustöðvar Orkusölunnar koma til viðbótar hraðhleðslustöðva Orku náttúrunnar, sem eru alls 13 talsins.
23. september 2016 Ísland önnur umhverfisvænsta þjóð heims Ísland er önnur umhverfisvænsta þjóð heimsins samkvæmt nýrri umhverfisvísitölu Yale háskólans í Bandaríkjunum. Þessi skemmtilega staðreynd þarf ekki endilega að koma á óvart því staða Íslands er mjög sterk í alþjóðasamhengi vegna gnægðar vistvænnar orku hér á landi. Hlutfall endurnýjanlegrar orku við rafmagnsframleiðslu og húshitun er ríflega 99% á Íslandi og vegur þyngst í að skila Íslandi svo ofarlega á lista. Einnig er hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefnaeldsneytis við raforku- og varmaframleiðslu 0%. Í öðrum löndum Evrópu nær þessi tala allt að 80%. Finnland kemur best út samkvæmt vísitölunni og Danmörk og Svíþjóð koma fast á hæla Íslandi. Þorsteinn Þorsteinsson hjá Markaðsrýni vakti nýlega athygli á þessa nýju vísitölu Yale, Yale‘s Environmental Performance Index (EPI). Þótt að vísitalan sýni hversu framarlega Ísland er þegar kemur að loftslagsmálum, þá má ná enn betri árangri. Eins og staðan er í dag er hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum lágt í samanburði við önnur lönd, eða 3,3%, en rafbílum fer þó hratt fjölgandi. Þarna liggja langstærstu tækifæri Íslands í loftlagsmálum; Að skipta um orkugjafa í bíla- og skipaflota landsins og minnka þannig útblástur gróðurhúsalofttegunda allverulega. Hægt er að skoða skýrslu Yale í heild sinni á vefnum og lesa sér betur til um forsendur og niðurstöður EPI.
8. september 2016 Íslensk fyrirtæki greiða lágt raforkuverð Íslensk fyrirtæki greiða einn lægsta rafmagnsreikninginn í Evrópu. Fyrirtæki á Ítalíu, í Bretlandi og Þýskalandi þurfa að borga ríflega tvöfalt meira en fyrirtæki á Íslandi. Raforkuverðið sjálft, þegar litið er framhjá flutningi og opinberum gjöldum, er næstlægst á Íslandi í Evrópu. Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs er því mjög hagstæð að þessu leyti, en líkt og víðar í slíkum samanburði hefur mikil gengisstyrking íslensku krónunnar undanfarin misseri áhrif til veikingar á þeirri samkeppnisstöðu. Flutnings- og dreifikostnaður er yfir meðallagi hér á landi, en auk gengisstyrkingar skýrist sú staða að sjálfsögðu af miklu dreifbýli og afar krefjandi flutningsleiðum. Á Íslandi greiða fyrirtæki lág opinber gjöld, eins og sjá má á eftirfarandi línuriti. Hér má sjá hvar Ísland stendur í evrópskum samanburði þegar allt er tekið með.
8. september 2016 Samfélagslegur ávinningur af landtengingum fyrir skip Draga mætti verulega úr útblæstri frá sjávargeiranum með því að gera öllum skipum sem liggja við höfn kleift að tengjast rafmagni í landi. Einnig myndu slíkar landtengingar styrkja uppbyggingu byggða við hafnarsvæði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu, sem unnin var fyrir Faxaflóahafnir, Orkuveitu Reykjavíkur, Veitur ohf. og Reykjavíkurborg. Samkvæmt Evróputilskipun skulu öll skip, sem liggja við höfn í tvo tíma eða lengur, tengja sig við rafmagn í landi ef kostur er. Ef slík tenging er ekki til staðar, skipið ekki búið tengibúnaði, eða ef höfnin ræður ekki við að þjónusta tiltekna stærð af skipum, þarf að keyra ljósavélar um borð í skipunum til að halda nauðsynlegum búnaði í gangi með tilheyrandi útblæstri og hávaðamengun. Kostnaður við að bæta landtengingar í höfnum Faxaflóahafna og gera þannig mögulegt að öll skip geti tengst þar rafmagni er um 5,5 milljarðar króna. Það myndi draga verulega úr útblæstri frá sjávargeiranum, eða um tæplega 4% og hafa þannig í för með sér verulegan ávinning fyrir samfélagið. Einnig er gert er ráð fyrir að núverandi raforkusala Faxaflóahafna myndi sjöfaldast. Nánari upplýsingar má sjá í skýrslunni sjálfri, sem umhverfisverkfræðingurinn Darri Eyþórsson vann.
12. júlí 2016 Sæstrengur til Bretlands hagkvæmur Þjóðhagslegur ábati af sæstreng milli Íslands og Bretlands gæti verið um 400 milljarðar króna og haft jákvæð áhrif á árlega landsframleiðslu um 1,2-1,6%. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Kviku og alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Pöyry. Niðurstaðan er háð ýmsum forsendum, m.a. að Bretar veiti umtalsverðan fjárhagslegan stuðning til uppbyggingu sæstrengsins. Nánari upplýsingar má finna á vef Kviku og þar má einnig finna skýrsluna í heild sinni.
6. júlí 2016 Samanburður á hagkvæmni virkjanakosta Virkjunarkostir landsmanna eru fjölmargir með mismunandi stofnkostnað, rekstrarkostnað, orkuvinnslugetu, nýtingu og fleira. Vatnsaflsvirkjanir hafa almennt verið ódýrari í stofnkostnaði á hvert uppsett megavatt (MW) en á móti hafa jarðhitavirkjanir skilað hærri nýtingu. Flókið getur verið að leggja mat á hagkvæmni þegar um ólíka kosti er að ræða. Samorka leggur hér fram aðferðarfræði og útreikning á mismunandi hagkvæmni virkjunarkosta sem til umfjöllunar eru í 3. áfanga rammaáætlunar. Aðferðarfræðin kallast LCOE, eða Levelized Cost of Energy. Hún er vel þekkt á alþjóðavettvangi í skýrslum um orkumál þó að ekki hafi hún verið notuð hingað til hér á landi. Með LCOE er hægt að nota „sömu mælistiku“ í samanburði ólíkra virkjunarkosta. Skýrsluna vann Kristján B. Ólafsson, rekstrarhagfræðingur. Í fyrirliggjandi skýrslu þriðja áfanga rammaáætlunar, sem nú er í umsagnarferli, var einungis tekið tillit til niðurstaðna frá faghópum 1 og 2, sem fjalla um náttúru- og menningarminjar og auðlindanýtingu aðra en orkunýtingu. Ekki er stuðst við niðurstöður frá faghópum 3 og 4, sem áttu að fjalla um efnahags- og samfélagsleg áhrif af virkjanakostum. Að mati Samorku vantar mikið upp á ef ekki er tekið tillit til þeirra þátta. Þeir ættu að vera mikilvægur hluti af heildarmyndinni líkt og sjónarmið náttúruverndar og annarrar nýtingar á borð við ferðaþjónustu. Skýrslan sýnir að allt að alls getur munað tugum, jafnvel yfir hundrað milljörðum króna, á samanlögðum stofnkostnaði við virkjanakosti í núgildandi nýtingarflokki annars vegar og ef valdir væru hagkvæmustu kostirnir hins vegar. Hún sýnir einnig að árlegur kostnaður við orkuframleiðslu er mörgum milljörðum króna meiri við kosti í núverandi orkunýtingarflokki en við hagkvæmustu uppröðun. Að sjálfsögðu koma fleiri sjónarmið en hagkvæmni virkjanakosta við sögu við röðun virkjunarkosta. Samorka ítrekar hins vegar áherslu á mikilvægi þess að jafnframt verði horft til hagkvæmni, sem og efnahags- og samfélagslegra áhrifa við röðun virkjunarkosta. Samorka vonast til að skýrslan varpi ljósi á hvernig meta má hagkvæmni mismunandi virkjunarkosta sem til umfjöllunar eru í þriðja áfanga rammaáætlunar. Aðferðafræði LCOE getur komið að góðu gagni við frekari úrvinnslu, stefnumörkun og röðun virkjunarkosta. Uppfærsla 11. júlí: Því miður skiluðu töflur á síðu 12 og 13 sér ekki rétt inn í skýrsluna. Uppfærða útgáfu af henni má finna hér: LCOE skýrsla (PDF 2 MB)