11. maí 2017 Blöndustöð skarar fram úr í sjálfbærni Starfsfólk Landsvirkjunar með Blue Planet verðlaunin Blöndustöð Landsvirkjunar hefur hlotið Blue Planet verðlaunin, sem Alþjóða vatnsaflssamtökin (International Hydropower Association, IHA) veita verkefnum sem skara framúr í sjálfbærri nýtingu vatnsafls í heiminum. Verðlaunin voru veitt á þingi samtakanna, sem haldið var í Addis Ababa í Eþíópíu og eru mikill heiður fyrir Landsvirkjun. Verðlaunin eru veitt á grundvelli hins alþjóðlega matslykils um sjálfbæra nýtingu vatnsafls (e. Hydropower Sustainability Assessment Protocol, HSAP), en úttekt á grundvelli hans var gerð á Blöndustöð árið 2013. Úttektin leiddi í ljós að rekstur Blöndustöðvar er framúrskarandi hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls og að á mörgum sviðum þykja starfsvenjur í Blöndustöð þær bestu sem fyrirfinnast. Í úttektinni voru 17 flokkar teknir til nákvæmrar skoðunar og varða rekstur Blöndustöðvar, til dæmis samskipti og samráð, stjórnun á umhverfislegum og samfélagslegum þáttum, vatnsauðlindina, vinnuafl og vinnuaðstöðu, líffræðilegan fjölbreytileika og framandi tegundir ásamt rofi og setmyndun. Niðurstöður úttektarinnar voru á þá leið að Blöndustöð uppfyllti kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur (5 í einkunn af 5 mögulegum) í 14 flokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar. Í þremur flokkum uppfyllir Blöndustöð kröfur um góðar starfsvenjur (4 í einkunn af 5 mögulegum) og í hverjum þeirra er aðeins eitt frávik frá bestu mögulegum starfsvenjum.