23. mars 2016 Kynningarfundir um tillögur um flokkun virkjunarkosta Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar mun ganga frá drögum að tillögum sínum um flokkun virkjunarkosta á miðvikudaginn, 30. mars. Til að auðvelda almenningi og hagsmunaaðilum að kynna sér drögin efnir verkefnisstjórn til kynningarfunda, sem hér segir: 31.3. – Reykjavík, Kaldalón í Hörpu, kl. 14-16 6.4. – Grindavík, Gjáin, kl. 20-22 7.4. – Kirkjubæjarklaustur, fundarstaður ekki ákveðinn, kl. 16:30-18:30 7.4. – Selfoss, Hótel Selfoss, kl. 20:30-22:30 11.4. – Stórutjarnir, Stórutjarnaskóli, kl. 20-22 12.4. – Akureyri, Hamrar í Hofi, kl. 12-14 12.4. – Varmahlíð, Miðgarður, kl. 20-22 13.4. – Nauteyri við Ísafjarðardjúp, Steinshús, kl. 20-22 Á fundunum mun verkefnisstjórn kynna tillögudrögin og sitja fyrir svörum að kynningu lokinni. Boðið verður upp á kaffiveitingar (léttan hádegisverð á fundinum á Akureyri). Fundirnir eru öllum opnir og ekki er þörf á að skrá sig. Á vef um rammaáætlun má finna upplýsingar um allt sem við henni kemur, meðal annars skilgreiningu á rammaáætlun og lög sem um hana gilda.
19. febrúar 2016 Ávinningur Íslendinga af orku- og veitufyrirtækjum gríðarlegur Framlag orku- og veitufyrirtækja til íslensks samfélags, hvort sem um er að ræða fjárhagslegan ávinning eða minni losun gróðurhúsalofttegunda, er umtalsvert. Bjarni Bjarnason formaður Samorku fór yfir ávinning af orku- og veitustarfsemi á ársfundi samtakanna 2016. Án endurnýjanlegrar orku væri CO2 losun Íslendinga töluvert meiri. Heildarlosun Íslands í dag er um 4,6 milljón tonn ár hvert og hefur verið á svipuðu róli allt frá árinu 1990. Ef hitaveitu nyti ekki við og við þyrftum að nota olíu til að hita húsin okkar, þá væri losunin tæp sex milljón tonn á ári. Ef rafmagn væri framleitt með öðrum hætti en með endurnýjanlegri orku, þá væri losunin um átta milljón tonn. Þar er stóriðja undanskilin. Fjárhagslegur ávinningur fyrir heimilin í landinu er einnig umtalsverður. Mánaðarlegur orku- og veitureikningur fjölskyldu sem býr í Osló er meira en tvöfalt hærri en fjölskyldu í Reykjavík, miðað við algenga notkun í báðum borgum, og tæplega þrefalt hærri hjá fjölskyldu í Kaupmannahöfn. Bjarni talaði einnig um skipulag og áherslur Samorku, en eftir stefnumótun á árinu 2015 var ákveðið að leggja meiri áherslu á ákveðna þætti í starfseminni, líkt og kynningarmál og almenna upplýsingagjöf til samfélagsins. Þá fór hann yfir samsetningu fyrirtækjanna sem standa að Samorku og kynja- og aldursskiptingu starfsmanna innan þeirra, en Bjarni lagði mikla áherslu á að fjölga konum innan orkugeirans. Glærur frá ávarpi Bjarna má sjá hér.
19. febrúar 2016 Rafbílar ódýrari í rekstri – Ísland sýni djörfung í orkuskiptum Rafbílar eru mun orkunýtnari en olíudrifnir bílar og nota innan við þriðjung þeirrar orku sem núverandi bílafloti landsmanna notar. Þeir eru mun ódýrari í rekstri og væru hagkvæmari fyrir heimilin þrátt fyrir að allir sömu skattar væru lagðir á akstur þeirra og lagðir eru á bensín og díselolíu í dag. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Sigurðar Inga Friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkuseturs, á ársfundi Samorku. Til að halda sömu skatttekjum þyrfti að leggja á um 6 króna gjald á hvern ekinn kílómetra. Sparnaður venjulegs heimilis næmi engu að síður um einni milljón króna á tíu ára tímabili, þar sem rafbílar eru mun ódýrari í rekstri. Rafbíllinn skilur vissulega eftir sig kolefnisspor vegna framleiðslu á rafhlöðum fyrir þá. En samt sem áður er kolefnissporið miklu minna og útblástursfrí keyrsla bætir það upp. Hann segir ævintýrið byrjað og að rafbílar gætu orðið eitt þúsund talsins á götunum í ár. Rafhlöðurnar lækka hratt í verði og drægnin fer hratt vaxandi. Sigurður segir að þarna skipti framlag smáþjóðar máli, enda öll raforka hérlendis unnin með endurnýjanlegum orkugjöfum. Hann spyr hver í ósköpunum eigi að sýna djörfung í innleiðingu orkuskipta, ef ekki Ísland? Íslendingar búa við hreina endurnýjanlega orku og eiga nóg af henni, við erum borgríki og tæknivædd – Íslendingar hafi hreinlega enga afsökun. Hér má sjá glærur frá fyrirlestri Sigurðar Inga, Orkuskipti.
17. febrúar 2016 Græn raforka til áliðnaðar sparar yfir 6 milljónir tonna á ári í losun Loftslagsmálin eru ofarlega á baugi þessi misserin, ekki síst í kjölfar loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París. Stærsta viðfangsefnið á heimsvísu er að draga úr brennslu jarðefnaeldsneyta á borð við olíu og kol og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa á borð við vatnsafl, jarðvarma og vindorku. Hér á landi er staðan mjög sérstök í þeim efnum, þar sem nær öll raforkuframleiðsla og húshitun grundvallast á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Ýmis tækifæri eru þó til að gera enn betur, ekki síst á sviði samgangna. Athyglisvert er að bera losun tengda stóriðju, að meðtalinni losun vegna orkuframleiðslunnar, saman við meðaltalslosun í heiminum af sömu sökum. Álframleiðsla á Íslandi, á grundvelli raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, sparar á hverju ári losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu sem nemur um sex milljónum tonna af koldíoxíði (CO2), sé miðað við meðaltalslosun raforkuframleiðslu í heiminum til álframleiðslu, að meðtalinni raforkuframleiðslu. Árleg heildarlosun Íslands er um 4,5 milljónir tonna. Sparnaðurinn nemur því meiru en allri losun Íslands. Samkvæmt Alþjóðaorkumálstofnuninni (IEA) er losun á koldíoxíði við álframleiðslu á Íslandi 0,1 tonn á hvert tonn af áli, samanborið við 7,6 tonn að meðaltali á heimsvísu, að meðtalinni losun vegna raforkuframleiðslu. Meðal orkusamsetning vegna álframleiðslu á heimsvísu er með eftirfarandi hætti skv. IEA: kol (58%), endurnýjanlegir orkugjafar (31%), gas (9,7%), kjarnorka (1,2%) og olía (0,1%). Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa 100% í álframleiðslu.
28. janúar 2016 Græna raforkan gullkista Norðurlandanna Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar: Græn raforka gæti orðið næsta stóra útflutningsævintýri Norðurlandanna að mati samtaka raforkufyrirtækja á hinum Norðurlöndunum, sem reyna nú í sameiningu að tryggja bætt aðgengi að evrópskum markaði gegnum þýska flutningskerfið. Á evrópskan mælikvarða er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hátt í öllum ríkjunum og nýlega gaf Alþjóða orkumálastofnunin það út að Norðurlöndin væru eins konar grænt orkuver Evrópu til framtíðar. Að mati norrænu samtakanna er græna raforkan því sannkölluð gullkista Norðurlandanna og nauðsynlegt að efla flutningskerfin til að hægt sé að koma henni á markað, t.d. með aukinni uppbyggingu sæstrengja. Evrópusambandið hefur lengi haft stefnu um sameiginlegan markað með raforku en víðast hvar vantar töluvert uppá í þeim efnum. Norðurlöndin fjögur – Noregur, Danmörk, Svíþjóð og Finnland – hafa hins vegar verið þarna í fararbroddi með öflugum tengingum sín á milli og raunverulegum samnorrænum raforkumarkaði. Þá hafa verið lagðir sæstrengir frá Norðurlöndum til annarra Evrópuríkja og fleiri slíkir eru í bígerð, m.a. frá Noregi til Bretlands. Norðurlöndin hafa hins vegar árum saman kvartað undan lélegum aðgangi að þýskum raforkumarkaði sökum veiks flutningskerfis raforku í Norður-Þýskalandi og takmarkaðs aðgangs að því. Hafa samtökin hvatt stjórnvöld sinna ríkja til að hlutast til um bættan aðgang, jafnframt því að beina slíkum óskum til evrópskra eftirlitsaðila. Takmarkað aðgengi að þýskum raforkumarkaði kostaði Norðurlöndin um 500 milljónir danskra króna í töpuðum útflutningstekjum á liðnu ári, eða um 9,5 milljarða ÍSK, miðað við vannýtta flutningsgetu ríkjanna til Þýskalands. Á Íslandi og í Noregi er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa um 100% í raforkuvinnslu. Þetta hlutfall er um 62% í Svíþjóð, 43% í Danmörku og 31% í Finnlandi. ESB-meðaltalið er rúm 25%.
26. janúar 2016 Hagkvæmni fólgin í raforkuflutningskerfi í Norður-Atlantshafi Möguleikar Íslands og Færeyja til útflutnings endurnýjanlegrar raforku til Bretlands og Noregs og um leið tengjast stærra raforkuflutningskerfi í Evrópu eru til umfjöllunar í nýrri skýrslu NAEN (North-Atlantic Energy Network), sem Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti í dag á ráðstefnunni Arctic Frontiers í Tromsø í Noregi. Með lagningu sæstrengs milli Íslands, Skotlands, Færeyja og Hjaltlandseyja væri hægt að flytja orku frá Íslandi til þessara landa og áfram til Evrópu. Möguleg samlegðaráhrif gætu verið þau að raforka frá vatnsafli flytjist frá Íslandi á sumrin en vindorka frá Færeyjum og Hjaltlandseyjum á veturna. Frekari rannsóknir og vinna við að kortleggja möguleg svæði til nýtingar endurnýjanlegrar orku ættu að skila NAEN löndunum töluverðum ávinningi og gagnast allri Evrópu. Skýrslan er samstarfsverkefni fulltrúa frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Hjaltlandseyjum og hefur aukið mjög upplýsingamiðlun þekkingu þátttökuaðila, stofnana og viðkomandi svæða. Nánar er fjallað um skýrsluna á vef Orkustofnunar.
23. janúar 2016 Rafmagn – einn mikilvægasti þáttur daglegs lífs Morgunblaðsgrein Eiríks Hjálmarssonar, formanns kynningarhóps Samorku: Rafmagnið er á meðal mikilvægustu þátta daglegs lífs. Við á norðlægum slóðum kunnum hvað best að meta það á dimmum og köldum vetrum. Í dag, 23. janúar, er á Norðurlöndum og raunar víðar í Evrópu haldið upp á árlegan rafmagnsdag þegar sjónum er beint að því sem rafmagnið, þessi ósýnilega nauðsynjavara, hefur gert okkur mögulegt. Við upphaf 20. aldar tóku húsverkin hjá hverri fjölskyldu um 54 klukkutíma á viku. Nærri allur vökutími fólks fór í að elda, þrífa og kynda og þetta er náttúrlega fyrir utan vinnutíma fólks. Undir lok aldarinnar tóku þessi störf 15 klukkutíma á viku, þökk sé heimilistækjunum öllum, sem knúin eru rafmagni. Rafmagnið hefur þannig fært okkur einfaldara, öruggara og ylríkara líf þar sem ljóss nýtur á dimmustu vetrardögum. Það sem meira máli skiptir, þá hefur rafmagnið fært okkur betri heilsu og meira langlífi. Það þarf ekki annað en að líta til þeirra rafknúnu lækningatækja, sem bjargað hafa mörgu mannslífinu; öndunartækja, hjartastuðtækja og fjölbreyttra mælitækja sem gera læknum og hjúkrunarfólki starfið léttara og skilvirkara. Við sjálf getum líka fylgst betur með eigin heilsu með hjálp rafknúinna blóðþrýstingsmæla og hjartsláttarteljara. Norðurlandabúar hafa notið rafmagns frá því um 1870 og Íslendingar frá því við upphaf 20. aldar. Í fyrstunni lýsti það upp vinnustaði, heimili og götur en nú knýr það upplýsingakerfin okkar, iðnaðinn, heimilistækin og í auknum mæli farartækin. Samfélag dagsins reiðir sig algjörlega á rafmagn og ekki bara til að létta störfin heldur ekki síður til afþreyingar og samskipta. Orkufyrirtækin á Norðurlöndum leika lykilhlutverk í efnahag hvers lands. Hvert ár er milljörðum varið til fjárfestinga í framleiðslu rafmagns, flutningsvirki og dreifikerfin. Það í sjálfu sér skapar störf auk þess að gera aðgang fólks að rafmagni á viðráðanlegu verði greiðari. Í síauknum mæli er rafmagnið sem framleitt er á Norðurlöndum grænt og frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Nú þegar teljast 2/3 hlutar raforkuframleiðslunnar á Norðurlöndum endurnýjanlegir og 88% er hlutfall kolefnishlutlausrar framleiðslu. Á Íslandi er þetta 100%. Þarna eru Norðurlönd í fararbroddi.
15. janúar 2016 Fundur Landsvirkjunar um vatnsaflsvirkjanir og fiskistofna, Grand Hótel 20. janúar Áhrif vatnsaflsvirkjana á fiskistofna verða til umfjöllunar á morgunverðarfundi Landsvirkjunar, í samstarfi við Veiðimálastofnun, miðvikudaginn 20. janúar á Grand Hótel Reykjavík. Fundurinn hefst kl. 8:30 og þar verða kynntar rannsóknir Veiðimálastofnunar og rætt um lærdóma sem draga má af reynslunni. Sjá nánar á vef Landvirkjunar.
15. janúar 2016 Góð staða í miðlunarlónum, ekki útlit fyrir að takmarka þurfi raforkuframboð Staðan í miðlunarlónum Landsvirkjunar um áramót telst góð og ekki er útlit fyrir að takmarka þurfi raforkuframboð vegna stöðu miðlana fram á vor. Október var hlýr á landinu og hiti almennt yfir meðallagi. Um miðjan október fylltust bæði Hálslón og Þórisvatn. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.
11. desember 2015 Minna straumleysi ef styrkingar flutningskerfis hefðu verið komnar til framkvæmda Tjón Landsnets vegna fárviðrisins á dögunum nemur um 120 milljónum króna. Þar af eru um 90 milljónir vegna Vestfjarða. Notendur hefðu orðið fyrir minna straumleysi í fárviðrinu ef kerfisstyrkingar sem Landsnet vill ráðast í hefðu verið komnar til framkvæmda. Þannig voru það eingöngu eldri flutningslínur með trémöstrum sem skemmdust. Sjá nánar á vef Landsnets.