4. júlí 2024 Verkefnastjóri stefnumótunar og hagsmunagæslu Samorka leitar að metnaðarfullum og kraftmiklum verkefnastjóra stefnumótunar og hagsmunagæslu Viltu taka þátt í móta rekstrarumhverfi orku- og veitustarfsemi á Íslandi og stuðla þannig að grænu Íslandi til framtíðar? Samorka óskar eftir að ráða öflugan einstakling í starf verkefnastjóra stefnumótunar og hagsmunagæslu. Um er að ræða spennandi starf fyrir einstakling sem hefur áhuga á að leiða stefnumótun, innleiðingu stefnu og hagsmunagæslu samtakanna á sviði orku- og veitumálefna. Viðkomandi mun taka þátt í mótun starfsumhverfis orku- og veitugeirans og eiga í miklum samskiptum við kröftug aðildarfélög, stjórnvöld og haghafa samtakanna. Helstu verkefni: Samstarf og samskipti við opinberar stofnanir, önnur samtök og haghafa varðandi áherslur Samorku í orku- og veitutengdum málefnum. Þátttaka í norrænu og evrópsku samstarfi á sviði orku- og veitumálefna og miðlun efnis til aðildarfélaga. Umsjón með stefnumótun, innleiðingu stefnu og eftirfylgni með verkefnum. Þátttaka í gerð kynningarefnis og kynningar á stefnu og áherslum Samorku. Umsjón með tilteknum fag- og málefnahópum sem starfa á vettvangi samtakanna. Menntunar- og hæfniskröfur: Háskólamenntun á sviði lög-, hag- eða stjórnmálafræði eða önnur háskólamenntun sem nýtist í starfi. Þekking, reynsla og innsýn í starfsemi rekstrar- og lagaumhverfi orku- og veitugeirans er kostur. Reynsla af starfi hjá hagsmunasamtökum, stjórnsýslu eða sambærilegum störfum er kostur. Frumkvæði, sjálfstæð og öguð vinnubrögð. Færni og lipurð í mannlegum samskiptum. Mjög góð hæfni í textagerð og reynsla af miðlun upplýsinga. Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti, bæði á íslensku og ensku. Um Samorku: Hjá Samorku starfar metnaðarfullur og samhentur hópur starfsmanna með brennandi áhuga á orku- og veitumálum. Aðildarfélög Samorku eru um 50 orku- og veitufyrirtæki um allt land og eru samtökin aðilar að Samtökum atvinnulífsins. Stefna Samorku er að Ísland verði áfram leiðandi og fyrirmynd annarra þjóða í nýtingu grænnar orku. Við vinnum í átt að markmiðum stjórnvalda um kolefnishlutleysi og að Ísland verði knúið og kynt með grænni orku sem unnin er með sjálfbærum og ábyrgum hætti innanlands. Samorka er atvinnugreinasamtök aðildarfyrirtækja og faglegur vettvangur þeirra í félags-, kynningar- og fræðslumálum. Það eru spennandi tímar í orku- og veitumálum við að tryggja áfram heilnæmt drykkjarvatn, umhverfisvænar fráveitur, heitt vatn og rafmagn fyrir heimilin, atvinnulífið og orkuskiptin. Umsóknarfrestur er til og með 22. júlí 2024. Farið er með allar umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál.Nánari upplýsingar um starfið veita Sigríður Svava Sandholt (sigridur@intellecta.is) og Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku (finnur@samorka.is). Umsókn óskast fyllt út á www.intellecta.is og þarf henni að fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf. Áhugasamir einstaklingar, óháð kyni, eru hvattir til að sækja um starfið.
28. maí 2024 RARIK fagmeistari Samorku 2024 Lið RARIK bar sigur úr býtum í Fagkeppni Samorku á Fagþingi raforku sem haldið var á Hótel Örk í Hveragerði 23. – 24. maí. Kampakátt lið RARIK ásamt forstjóra og aðstoðarforstjóra Keppt var í fjórum þrautum; Samsetningu á lágspennustreng, tengingu inn á götuskáp, tengingu inn á mæli og svo hið sívinsæla stígvélakast. Alls tóku sex lið þátt í keppninni sem voru frá Norðurorku, HS Veitum, Veitum, RARIK, Landsneti og Orkubúi Vestfjarða. Sex voru í dómnefnd, einn frá hverju þátttökufyrirtæki fyrir sig, fékk það vandasama verkefni að skera úr um sigurvegara í hverri þraut. Veitt voru verðlaun fyrir bestu frammistöðu í hverri grein. Lið RARIK vann keppni um lágspennustreng, Lið HS Veitna var hlutskarpast í tengingu inn á götuskáp, Veitur tengdu best inn á þriggja fasa mæli og þá kastaði lið RARIK stígvélinu lengst. Þá voru einnig veitt verðlaun fyrir tilþrif ársins, sem lið Landsnet hlaut og stuðningslið ársins sem RARIK átti. Bestum samanlögðum árangri náði lið RARIK og er því Fagmeistari Samorku 2024. Liðið varði þar með titilinn frá árinu 2019 í raforkutengdum þrautum, en er líka Fagmeistari í veitutengdum þrautum frá því í fyrra. Hér fylgja nokkrar skemmtilegar frá stórskemmtilegri keppni, en fleiri myndir má sjá á Facebook síðu Samorku. Handagangur í öskjunni Lið Orkubús Vestfjarða Liðið frá Norðurorku ásamt forstjóra og samstarfsfólki Stígvélakast í fullum gangi Sigurkastið Lið RARIK í keppnistjaldinu
2. apríl 2024 Myndir frá ársfundi Samorku Fjölmennt var á ársfundi Samorku, Ómissandi innviðir, sem haldinn var í Norðurljósum í Hörpu miðvikudaginn 20. mars. Ljósmyndarinn Eyþór Árnason tók eftirfarandi ljósmyndir. Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 Ársfundur 2024 25 Ársfundur 2024 24 Ársfundur 2024 23 Ársfundur 2024 22 Ársfundur 2024 21 Ársfundur 2024 20 Ársfundur 2024 19 Ársfundur 2024 17 Ársfundur 2024 18 Ársfundur 2024 16 Ársfundur 2024 15 Ársfundur 2024 14 Ársfundur 2024 13 Ársfundur 2024 12 Ársfundur 2024 11 « ‹ af 4 › »
Ársfundur 2024: Ómissandi innviðir Ársfundur Samorku verður haldinn þann 20. mars í Norðurljósum, Hörpu. Fundurinn hefst kl. 13 og gert er ráð fyrir að hann standi til kl. 15. Fundurinn í ár ber yfirskriftina Ómissandi innviðir og verður kastljósinu beint að virði orku- og veituinnviða fyrir heimilin, fyrir atvinnulífið og fyrir efnahagslífið meðal annars. Við fjöllum einnig um fólkið sem staðið hefur í ströngu við að halda úti orku- og veituþjónustu við ótrúlegar aðstæður í jarðhræringum á Reykjanesi. Við heyrum sögur þeirra, sjáum myndir sem teknar eru á vettvangi og ræðum stöðuna og framhaldið. Fram koma: Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Kristín Linda Árnadóttir, stjórnarformaður Samorku Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku Gunnar Haraldsson, hagfræðingur Intellicon, kynnir nýja greiningu á þjóðhagslegum áhrif og áskorunum orku- og veitugeirans Pallborðsumræður: Náttúruhamfarir á Reykjanesskaga Elín Smáradóttir, yfirlögfræðingur OR stýrir umræðum. Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs í Grindavík Björk Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála hjá HS Orku Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ Páll Erland, forstjóri HS Veitna Pallborðsumræður: Efnahagsleg þýðing orku- og veituinnviða Ingunn Agnes Kro, stjórnarformaður RARIK, stýrir umræðum. Baldvin Björn Haraldsson, stjórnarformaður Elements Gunnar Haraldsson, hagfræðingur Intellicon Jón Skafti Gestsson, hagfræðingur Landsnets Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB Raddir starfsfólks sem unnið hefur við erfiðar aðstæður á Reykjanesskaga Lokað hefur verið fyrir skráningu á ársfundinn. Hægt er að horfa á streymið hér fyrir ofan.
5. janúar 2024 Tökum réttu skrefin Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku skrifar: Íslenskt samfélag og atvinnulíf byrjar árið 2024 í þröngri stöðu þegar litið er til orkubúskaps þjóðarinnar. Þá hafa jarðskjálftar og eldgos á Reykjanesskaga stefnt orkuöryggi íbúa á Suðurnesjum í hættu. Stjórnendur og starfsfólk HS Veitna, HS Orku og Grindavíkurbæjar, sem reka innviði á svæðinu, hafa sýnt ótrúlega elju og útsjónarsemi í að verja innviði og tryggja órofa framleiðslu og þjónustu. Sama gildir um Landsnet sem rekur þar flutningskerfi raforku. Þrátt fyrir ítrekaðar vandaðar greiningar um hættu á orkuskorti og áralangar viðvaranir fyrirtækja í orkumálum virðist íslenskt samfélag nú hafa steytt á skeri. Í greinargerð með frumvarpi til neyðarlaga um raforku sem lagt var fram á Alþingi í desember er rakið hvernig eftirspurn eftir orku er nú meiri en öll raforkuframleiðslan getur staðið undir m.a. vegna stöðu í lónum. Mikilvæg fyrirtæki í íslensku atvinnulífi munu í vetur sæta skerðingum á orkuafhendingu sem leiðir til skertrar starfsemi og ný orkusækin verkefni geta við þessar aðstæður trauðla komist í framkvæmd. Við slíkar aðstæður blasir við efnahagslegt tjón fyrir íslenskt samfélag. Tjón sem hefði mátt með margs konar aðferðum hugsanlega afstýra. Samfélagið stendur nú frammi fyrir því að þurfa að bregðast við orkuskorti sem líklega mun vara um nokkurt skeið. Í því felst m.a. að gera ráðstafanir til að tryggja orkuöryggi heimila og minni fyrirtækja og koma á fót skilvirkni í viðskiptum með raforku. Í þessum aðstæðum er rétt að horfa til reynslu annarra ríkja og lítt skoðaðra tækifæra til að þróa raforkumarkaðinn enn frekar með þátttöku notenda, stórra sem smárra, sem vilja og geta dregið úr raforkunotkun þegar þörfin er mest. Markmið slíkra aðgerða þarf að vera jákvæð áhrif á neytendur, styðja við orkunýtni, styðja við orkuskipti, senda fjárfestingamerki til markaðarins og tryggja raforkuframboð með sem minnstum tilkostnaði. Mikilvægt er að á árinu 2024 komist Ísland nær nágrannalöndum okkar í að búa orku- og veitufyrirtækjum umgjörð sem greiðir götu góðra verkefna á sviði orkumála. Margt mætti telja til en hér nægir að nefna fjögur meginatriði. Í fyrsta lagi þarf að auka skilvirkni í stjórnsýslu og einfalda ferla vegna orkutengdra verkefna. Ísland mun ekki ná orkuskiptamarkmiðum á meðan verkefni á því sviði sofa inni hjá stjórnsýslustofnunum eða sæta ekki málsmeðferðarhraða sem tekur mið af mikilvægi þeirra. Í öðru lagi þarf að setja í lög reglur um einfalda og skilvirka meðferð vindorkukosta sem framsækin fyrirtæki hafa verið að þróa þrátt fyrir að löggjöf hér hafi litlu svarað um hvort eða hvernig þeir skuli afgreiddir. Fyrir tilstuðlan umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hafa birst tillögur starfshóps um einföldun á afgreiðslu vindorkukosta en á nýju ári bíður það Alþingis að koma slíku kerfi á. Í þriðja lagi þurfa stjórnvöld að ljúka vinnu um skattaumgjörð orkuvinnslu. Höfuðmarkmið þeirrar vinnu verður að vera skattaumgjörð sem tekur mið af afkomu orkuvinnslu, tryggir jafnræði orkuvinnslufyrirtækja, heggur á hnút í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hvað þetta snertir og hefur ekki of neikvæð áhrif á fjárfestingar í orkuvinnslu. Í fjórða lagi þarf að fara fram heildarendurskoðun á rammaáætlun. Þó mikilvægt skref hafi verið stigið við afgreiðslu 3. áfanga rammaáætlunar er ljóst að kerfið er of flókið, seinvirkt og ekki til þess fallið að orkufyrirtæki fari hratt af stað með hagkvæmustu verkefni þegar markaðsforsendur eru fyrir hendi eða fyrirsjáanlegar. Á árinu 2024 munu orku- og veitufyrirtæki halda áfram að undirbúa íslenskt samfélag undir orkuskiptin og jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Íslenskur orku- og veitugeiri hefur sjálfur sett sér metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og styður heilshugar við sama markmið stjórnvalda. Í loftslagsvegvísi atvinnulífsins er að finna margvíslegar aðgerðir þessara fyrirtækja og orkufyrirtæki eru raunar í fremstu röð í að þróa leiðir til að binda eða vinna með kolefni sem losað er í samfélaginu. Veitufyrirtæki munu halda áfram að þróa vatns- og fráveitur sem veita fólki og fyrirtækjum fyrsta flokks þjónustu en setja umhverfið í öndvegi. Orku- og veitufyrirtæki munu á árinu 2024 halda áfram vinnu við að tryggja heimilum og fyrirtækjum í landinu aðgengi að öruggum, hagkvæmum og sjálfbærum orku- og veituinnviðum. Samorka óskar aðildarfyrirtækjum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og framfara á sviði orku- og veitumála. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 5. janúar 2024.
29. nóvember 2023 Landsvirkjun er umhverfisfyrirtæki ársins Landsvirkjun var í dag útnefnt Umhverfisfyrirtæki ársins þegar Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru kynnt í dag. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin. Carbon Recycling International hlaut verðlaun fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála. Landsvirkjun fer með umsjón mikilvægra náttúruauðlinda landsins og gerir það á ábyrgan og auðmjúkan hátt. Lögð er áhersla á að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar, draga úr þeim og koma í veg fyrir frávik. Fyrirtækið hefur verið með vottað umhverfisstjórnunarkerfi í hátt í 20 ár og hefur sýnt framsýni og forystu þegar kemur að útgáfu og birtingu umhverfisupplýsinga og aðgerða. Lögð er áhersla á að hámarka verðmæti þeirra auðlinda sem fyrirtækinu er falið með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi. Þannig hefur fyrirtækið markvisst innleitt sjálfbæra nýtingu í starfsemi sína, hámarkað nýtni og dregið úr úrgangi og losun tengdri starfsemi sinni. Fyrirtækið tekur hlutverk sitt og áhrif í samfélaginu alvarlega og gengur lengra en lög og reglur segja til um þegar kemur að áhrifum frá starfsemi fyrirtækisins. Landsvirkjun leggur áherslu á að styðja við alla virðiskeðju sína í loftslags vegferðinni. Fyrirtækið horfir út fyrir starfsemi sína þegar kemur að samdrætti í samfélagslosun og þeim áhrifum sem Landsvirkjun getur haft á heildarlosun Íslands. Fyrirtækið fékk fyrst íslenskra fyrirtækja hæstu einkunn fyrir stýringu eigin loftslagsáhrifa frá alþjóðlegu samtökunum CDP. Landsvirkjun hefur sett sér markmið um nettó kolefnishlutleysi árið 2025 og var með fyrstu fyrirtækjum landsins að kynna markmið sín opinberlega. Fyrirtækið vinnur markvisst að því að draga úr kolefniskræfni raforkuvinnslu sinnar með metnaðarfullri aðgerðaráætlun og skýrum, tölulegum og tímasettum markmiðum sem eru aðgengileg öllum. Þar að auki hefur Landsvirkjun nýtt sér framúrskarandi árangur í umhverfismálum til fjármögnunar með útgáfu grænna skuldabréfa fyrst íslenskra fyrirtækja. Því frumkvæði var tekið eftir, bæði erlendis og hérlendis og hafa mörg íslensk fyrirtæki fylgt í spor Landsvirkjunar með slíkum útgáfum. Fyrirtækið er í forystu í loftslags- og umhverfismálum og má með sanni segja að aðgerðir og vinnubrögð endurspegli þann metnað og önnur fyrirtæki geti tekið sér Landsvirkjun til fyrirmyndar. Landsvirkjun ber því vel titilinn umhverfisfyrirtæki ársins 2023. Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun, þakkaði verðlaunin og þá viðurkenningu sem í þeim fælist fyrir umfangsmikið starf Landsvirkjunar í umhverfis- og loftslagsmálum. „Í umhverfismálum þurfum við öll að vinna saman enda er ávinningurinn okkar allra og komandi kynslóða,“ sagði Jóna. Verðlaunamyndbandið sem sýnt var á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2023 er Guðni Th. Jóhannesson veitti Landsvirkjun verðlaunin. CRI hlaut Umhverfisframtak ársins Carbon Recycling International (CRI) hefur síðastliðin 15 ár skapað sér sérstöðu sem frumkvöðull við hagnýtingu á koltvísýringi á heimsvísu. Emissions-to-liquid (ETL) tækni félagsins umbreytir koltvísýringi og vetni í metanól sem nýta má sem rafeldsneyti eða sem hráefni í efnavinnslu og hefur mun minni umhverfisáhrif en hefðbundið jarðefnaeldsneyti. Carbon Recycling International gangsetti nýlega nýja efnaverksmiðju í Kína sem hefur þann möguleika að endurnýta 150.000 tonn af koltvísýring á ári. Íslenskt hugvit og verkfræðileg hönnun CRI mun stuðla að einni bestu orkunýtni í þessari tegund iðnaðarframleiðslu og framleiða um 100.000 tonn af sjálfbæru metanóli á ári. Framleiðslutæknin var þróuð og sannreynd í verksmiðju félagsins í Svartsengi. Félagið var þá fyrsta fyrirtækið í heiminum til að framleiða og selja vottað rafeldsneyti. Þrautseigja og framsýni Carbon Recycling International hefur skilað áhrifum út fyrir landsteina og framtak þeirra mun leggja til í baráttu á heimsvísu við samdrátt í losun koltvísýrings. Verðlaunamyndbandið sem sýnt var á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2023 er Guðni Th. Jóhannesson veitti CRI verðlaunin. Það er ljóst á þeim fjölda tilnefninga sem bárust inn til umhverfisverðlauna Samtaka atvinnulífsins að umhverfis- og loftslagsmál eru sífellt að verða stærri hluti af daglegum rekstri og ákvarðanatöku fyrirtækja á Íslandi. Fjölmargar umsóknir bárust og fjöldi fyrirtækja vinna ötult starf á þessu sviði. Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður, Elma Sif Einarsdóttir og Reynir Smári Atlason.
Opinn fundur orkuskiptahóps Samorku Orkuskiptahópur Samorku býður til opins samtals við sérfræðinga orku- og veitugeirans um málefni orkuskiptanna föstudaginn 24. nóvember frá kl. 9.00 – 10.30. Á fundinum verður rætt við sérfræðinga og leiðandi fyrirtæki í orkuskiptum: Ágústa Loftsdóttir (EFLA) – Afl- og orkuþörf vegna orkuskipta í þungaflutningumGnýr Guðmundsson (Landsnet) – Raforkuspá LandsnetsMálfríður Guðný Kolbeinsdóttir (Ölgerðin) – Orkuskipti Ölgerðarinnar, reynsla og áskoranir Fundurinn verður í opnu streymi í gegnum Teams og gestir fundarins geta borið upp spurningar. Vinsamlegast skráið ykkur á fundinn hér.
15. nóvember 2023 Bretta þarf upp ermar til að ná settum markmiðum – Guðlaugur Þór Þórðarson Podcast: Play in new window | Download (Duration: 48:45 — 45.5MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir stjórnmálin hafa brugðist í grænorkumálum og sofið hafi verið á verðinum í gegnum tíðina. Staðan í orkuöryggi þjóðarinnar sé alvarlegri en fólk átti sig á. Þó sé ekki öll nótt úti enn, en bretta þurfi upp ermar til að ná settum markmiðum í loftslagsmálum. Ísland hafi alla burði til að verða mekka græns hugvits. Guðlaugur Þór og Lovísa Árnadóttir fara yfir víðan völl í orkumálunum í þessum þætti. Þátturinn var tekinn upp 9. nóvember, degi áður en Grindavík var rýmd vegna yfirvofandi eldgosahættu.
13. nóvember 2023 Útflutningsbanni íslenskra upprunaábyrgða aflétt AIB (Association of Issuing Bodies) hefur úrskurðað að Ísland uppfylli allar kröfur upprunaábyrgðarkerfis þess og verður ekki gripið til frekar ráðstafana gagnvart Landsneti eða íslenskum upprunaábyrgðum. Óvissu um sölu íslenskra upprunaábyrgða er því aflétt án fyrirvara. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem birt er á heimasíðu AIB. AIB stöðvaði í lok apríl á þessu ári sölu á íslenskum upprunaábyrgðum vegna gruns um tvítalningu (double counting) þeirra hér á landi. Banninu var aflétt skömmu síðar með fyrirvara um úrbótaáætlun Landsnets og Orkustofnunar á upprunaábyrgðakerfinu. Eftir ítarlega gagnaöflun og greiningarvinnu er niðurstaðan sú að Ísland uppfylli allar kröfur og er málinu því lokið. Á heimasíðu Stjórnarráðsins er vitnað í Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, þar sem hann segir niðurstöðu AIB alls ekki koma á óvart, enda í samræmi við niðurstöður Orkustofnunar og hinnar þýsku stofnunar UBA. „Það eru gríðarlega mikilvægt að það sé búið að aflétta þessari óvissu gagnvart okkar innlendu fyrirtækjum og viðskiptavinum þeirra, innlendra sem erlendra. Það er ljóst, það sem við vissum vel að það var aldrei brotalöm í löggjöf eða framfylgd þeirra hér á landi sem er að fullu leyti í samræmi við reglur annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Því kom bannið á sínum tíma mjög á óvart og að okkar mati óþarflega harkalegt inngrip byggt á veikum grunni eins og niðurstaðan leiðir bersýnilega í ljós.“
18. september 2023 Atmonia hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku 2023 Atmonia fékk í dag Nýsköpunarverðlaun Samorku 2023. Verðlaunin voru afhent á opnum fundi sem bar yfirskriftina Hugvit / Hringrás / Árangur og fjallaði um mikilvægi orku- og veitutengdrar nýsköpunar. Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku, Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups og talsmaður dómnefndar og Guðbjörg Rist framkvæmdastjóri Atmonia við afhendingu verðlaunanna í dag. Hér má sjá myndband um sigurvegara Nýsköpunarverðlaunanna 2023. Nýsköpunarfélagið Atmonia var stofnað árið 2016 af Agli Skúlasyni, Helgu Dögg Flosadóttur og Arnari Sveinbjörnssyni með það að markmiði að þróa róttæka og sjálfbæra tækni til að nýta efnahvata við rafefnafræðilega framleiðslu á ammóníaki án losunar gróðurhúsalofttegunda. Ammoníak er mikilvægt fyrir áburðarframleiðslu, en áburður tryggir matvælaöryggi um allan heim. Hins vegar er sú aðferð sem notuð er til framleiðslunnar mjög mengandi og veldur 1-2% af koltvísýringsútblæstri af mannavöldum í heiminum. Þessi nýja tækni hefur möguleika á að umbylta því. Þá er einnig hægt að nýta ammoníak sem rafeldsneyti á stærri farartæki. Tækni Atmonia er einkaleyfavarin sem ber vott um nýnæmi hennar. Við mat dómnefndar var horft til ýmissa þátta eins og nýnæmis, samsetningu teymis, verðmætis fyrir Ísland, markaðstækifæra, verðmætis m.t.t. loftslagsmála og nýtingu orku, vatns og hliðarstrauma fyrir verkefnið. Það er mat dómnefndar að verkefni Atmonia mæti mjög vel lýsingu Samorku á nýsköpunarverðlaununum og þeim þáttum sem hér voru nefndir. Dómnefndin var einróma í mati sínu og telur að framgangur verkefnisins geti haft afar jákvæð og þýðingarmikil áhrif. Má þar nefna nýtingu hreinnar innlendrar orku fyrir eldsneytis- og áburðarframleiðslu, minnkun kolefnislosunar, auknar útflutningstekjur og minni innflutning erlendra afurða. Verkefnið getur einnig nýst víða annars staðar og aukið hróður íslenskrar tækni erlendis. Það er von dómnefndar að Nýsköpunarverðlaun Samorku 2023 verði Atmonia hvatning til enn frekari sigra á spennandi vegferð fyrirtækisins. Þetta er í þriðja sinn sem Nýsköpunarverðlaun Samorku eru afhent. Fyrri handhafar eru Laki Power (2021) og Alor (2022).