29. september 2015 Gagnrýni á veikum grunni Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samorku: Í Morgunblaðsgrein laugardaginn 19. september fer formaður Landverndar mikinn í gagnrýni sinni á bæði forstjóra og kerfisáætlun Landsnets, í kjölfar viðtals við forstjórann í sama blaði. Ekki verður brugðist við öllum þeim ummælum hér. Rétt er þó að minna á að skv. 9. grein raforkulaga nr. 65/2003 er það skylda Landsnets að byggja flutningskerfi raforku upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni og áreiðanleika afhendingar. Núverandi staða flutningskerfis raforku torveldar uppbyggingu atvinnulífs víða um land og þörf uppbyggingar og eflingar kerfisins er orðin knýjandi. Óskandi er að farsæl afgreiðsla kerfisáætlunar Landsnets geti markað upphaf þessarar nauðsynlegu uppbyggingar, sem til dæmis ýmis iðnfyrirtæki á Norðurlandi og fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi hafa ítrekað kallað eftir. Formaður Landverndar rifjar í grein sinni upp skýrslu sem kanadíska fyrirtækið Metsco vann fyrir Landvernd, um jarðstrengi og loftlínur til raforkuflutnings. Fjallar hann um niðurstöður skýrslu Metsco þess efnis að líftímakostnaður við 132 kV jarðstrengi sé sá sami og við 132 kV loftlínur og einungis 25% hærri við 220 kV strengi en við sambærilegar loftlínur. Úttekt EFLU á skýrslu Metsco Í kjölfar útgáfu umræddrar skýrslu Metsco tók EFLA verkfræðistofa saman all ítarlega greinargerð, í samstarfi við Friðrik Má Baldursson prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, þar sem skoðaðar voru forsendur og útreikningar skýrslunnar. Meðal annars er þar bent á mikilvægi þess að meta á raunhæfan hátt kostnað við raforkutöp í flutningskerfinu og kostnað við rekstur og viðhald flutningsmannvirkja. Þá er sagt afar mikilvægt að skoða hvert tilvik fyrir sig út frá aðstæðum á lagnaleið og því erfitt að draga ályktanir út frá einu dæmi. Munur út frá forsendum Metsco reyndist við útreikninga EFLU ýmist meiri eða minni en fram kemur í skýrslu Metsco. Loks skal hér nefnt úr greinargerð EFLU að aðstæður til strenglagningar eru nokkuð aðrar hér en í nágrannalöndum, varmaleiðni jarðvegs er minni hér og aðstæður víða erfiðar fyrir strenglagnir svo sem á hraunasvæðum. Þessar niðurstöður EFLU fengu meðal annars kynningu á málþingi Verkfræðingafélags Íslands um loftlínur og jarðstrengi. Það kemur á óvart að formaður Landverndar skuli, í kjölfar greinargerðar EFLU, styðjast við umrædda skýrslu Metsco þegar hann gagnrýnir kerfisáætlun Landsnets og forstjórann sömuleiðis.
21. apríl 2015 Græn orka og ferðamenn Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar: Græn orka og ferðamenn Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mjög mikið á Íslandi undanfarin ár. Íslensk orkufyrirtæki fara ekki varhluta af því, enda heimsækja nú á annað hundrað þúsund manns íslenskar virkjanir og tengd mannvirki á ári hverju. Er þá ekki vísað til tengdra mannvirkja á borð við Bláa lónið, Perluna eða Jarðböðin við Mývatn, sem eru gríðarlega vinsælir viðkomustaðir ferðamanna og grundvallast alfarið á nýtingu grænnar orku. Aðgangur að hálendi Íslands grundvallast jafnframt að stóru leyti á vegagerð sem tengist nýtingu grænnar orku. Náttúra Íslands hefur mikið aðdráttarafl og oft er vísað til könnunar Ferðamálastofu þar sem 80% aðspurðra ferðamanna segja íslenska náttúru hafa haft mikil áhrif á ákvörðun þeirra um að ferðast til Íslands. Hægt er að velja nokkur svör við þessari spurningu og þannig nefnir t.d. 41% svarenda íslenska menningu og sögu, 17% nefna lágt flugfargjald o.s.frv., líkt og sjá má í töflunni hér fyrir neðan. Samtala svarhlutfalla er þannig ekki 100%, heldur 209%. Samorka hefur óskað eftir því að Ferðamálastofa bæti svarmöguleika við þessa spurningu: grænni orku. Hluti af ímynd landsins Íslenskt orkukerfi er algerlega einstakt í veröldinni og græna orkan mikilvægur hluti af ímynd landsins, enda henni gjarnan tjaldað til í hvers kyns landkynningarefni. Hér byggist svo gott sem öll raforkunotkun og húshitun á grænum, endurnýjanlegum orkugjöfum, á meðan flest önnur lönd þurfa að stærstum hluta að treysta á brennslu jarðefnaeldsneyta á borð olíu og kol, og/eða á kjarnorku. Að mati Samorku væri því afar fróðlegt að fá fram mælingu á vægi grænu orkunnar, einu helsta sérkenni landsins, við val ferðamanna á Íslandi sem áfangastað. Hvað af eftirfarandi hafði mikil áhrif á ákvörðun þína um að ferðast til Íslands?* Íslensk náttúra 80% Íslensk menning/saga 41% Gott tilboð/lágt flugfargjald 17% Möguleikinn á viðkomu á Íslandi 14% Vinir/ættingjar á Íslandi 13% Dekur og vellíðan 12% Sérstakur viðburður á Íslandi 10% …og 6 svarmöguleikar til viðbótar Samtals 209% * Úr könnun Ferðamálastofu