30. janúar 2006 Orkulindin Ísland – Ráðstefna um áliðnaðinn Föstudaginn 27. janúar s.l. stóðu Samorka, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins fyrir ráðstefnu á Hótel Nordica um gildi ál- og orkuframleiðslu á Íslandi. Fjallað var um allar helstu hliðar atvinnugreinarinnar, svo sem hagvöxt, umhverfismál, atvinnumál, þekkingariðnað, umhverfi starfsfólks, viðhorf almennings o.fl. Formaður Landverndar og fulltrúar Alcan, Alcoa, Hitaveitu Suðurnesja, Landsvirkjunar, Norðuráls og Orkuveitu Reykjavíkur voru meðal fyrirlesara. Nánari upplýsingar um dagskrá, fyrirlestra og erindi ræðumanna: Smellið hér
20. janúar 2006 Einkennismerki Orkuþings 2006 Merkið sem varð fyrir valinu og hér birtist hannaði Karl Pálsson starfsmaður Ísor. Sighvatur Halldórsson nemandi í grafískri hönnun kom einnig að vinnslu merkisins. Höfundur merkis lýsir því þannig að það sýni hreyfingu vatns með blárri bylgju og hitaorku með rauðum bylgjum. Framkvæmdanefndin þakkar fyrir þátttökuna og óskar Karli til hamingju með sigurinn.
11. janúar 2006 Hitaveitufréttir úr Skagafirði Akrahreppur Hofsós – Hólar Skagafjarðarveitur eru nú að leggja hitaveitu í Akrahrepp og stefnt er að því að verkinu verði lokið í ágúst á þessu ári. Þegar því er lokið hefur notendum fjölgað um 200 manns. Heildarlengd lagna er um 40 km. Heita vatnið kemur frá Reykjarhóli við Varmahlíð. Aðalstofnlögnin úr Varmahlíð yfir Héraðsvötnin er fjögurra tommu stálrör. Þar greinist lögning til tveggja átta, í suður að Uppsölum og norður að Ytri-Brekkum. Þaðan sem lögnin greinist verður lagt í PEX plaströr, sem keypt hafa verið frá Lögstör. Þau eru með súrefnissperru og vel einangruð í flokki 2. Heimæðar eru líka úr einangruðum pexrörum. Búið er að tengja yfir 40 hús og hleypt var á fyrsta húsið í Akrahrepp Mið-Grund rétt fyrir jólin. Heildarkostnaður verksins er 120 Mkr. Kostnaðurinn er greiddur með heimæðargjöldum, átta ára niðurgreiðslustyrk til húshitunar frá ríkinu og með framlagi úr hreppssjóði Akrahrepps. Skagafjarðarveitur greiða um 20 Mkr og þá upphæð reikna þeir með að fá endurgreidda á 15 20 árum ásamt vöxtum með tekjum að sölu vatns. Verið er að bora fyrir Skagafjarðarveitur í Kýrholti. Það er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sem vinnur verkið. Borað er með 12 gráður halla til að hitta á æðina. Áður hefur verið borað á svipuðum slóðum og þá fékkst mikið vatn en volgt. Þannig að þetta er tilraunverkefni sem Skagafjarðarveitur, ÍSOR, Jarðhitaleitarátakið og orkusjóður fjármagna. Ef heitara vatns fæst þá verður hún notuð fyrir nærliggjandi byggð. Nú nýverið hefur verið borað á Hrolleifsdal fyrir Hofsós og þar er talið að holan gefi 30-35 l/s af 74°C heitu vatni en eftir er að sannreyna það með dæluprófun. Vonast hafði verið eftir heitara vatni til að dreifa lengra en til Hofsós en það verður erfitt með þetta hitastig. Nýverið yfirtóku Skagafjarðarveitur Hólaveituna sem var í eigu ríkisins, sem er bæði hitaveita og vatnsveita. Í Hólaskóla, Háskólanum á Hólum, er mikil starfsemi og var farið að bera á heitavatnsskorti. Strax var farið í að bora nýja holu á Reykjum þar sem jarðhitavinnslan er. Holan er 1080 metra djúp og gefur rúmlega 60°C heitt vatn, 28 l/s með 25-28 bara lokunarþrýstingi. Holan var strax tengd. Fágætt er að svo mikill þrýstingur sé á lághitaholum en talið er að heitavatnsforðinn sé ofar í fjallinu. Fyrir liggur að gera endurbætur á vatnsveitunni. Vatnið er þar tekið úr lind svonefndri Biskupslind upp í fjalli ofan við Hóla og hefur hún verið nýtt svo lengi sem elstu menn muna og er væntanlega blessuð af Guðmundi góða þannig að heilnæmi vatnsins er tryggt. Skagafjarðarveitur hafa góða heimasíðu þar sem segir fá því sem er á döfinni og vert er að skoða www.skv.is.
29. desember 2005 Árið 2006 gengur í garð með opnun raforkumarkaðar Kynningin fór fram á Nordica Hóteli að viðstöddum hópi blaða- og fréttamanna. Iðnaðarráðherra frú Valgerður Sverrisdóttir kynnti helstu þætti málsins, fór yfir aðdraganda þess og útskýrði hvernig staðið hefði verið að undirbúningi. Fréttatilkynning iðnaðarráðuneytis Þorkell Helgason orkumálastjóri gerði grein fyrir aðkomu Orkustofnunar að undirbúningnum og hlutverki stofnunarinnar til framtíðar við framkvæmd og eftirlits með sérleyfisþáttum orkuiðnaðarins. Upplýsingar á heimasíðu Orkustofnunar; Kynningarglærur orkumálastjóra. Tryggvi Axelsson forstjóri Neytendastofu sagði frá eftirlitshlutverki Neytendastofu með raforkuverðum á samkeppnismarkaði og reiknivél fyrir viðskiptavini sem stofnunin annast og veitir aðgang að á heimasíðu sinni. Heimasíða Neytendastofu Heimasíður raforkusölufyrirtækjanna: Hitaveita Suðurnesja hf.; Norðurorka hf.; Orkubú Vestfjarða hf.; Orkuveita Húsavíkur ehf.; Orkuveita Reykjavíkur; Rafveita Reyðarfjarðar; Rafmagnsveitur ríkisins. Samorka þakkar fyrir gamla árið og óskar öllum gleðilegs árs og drengilegrar samkeppni á árinu 2006
16. desember 2005 ORKUÞING 2006: Samkeppni um einkennismerki þingsins Framkvæmdahópur um Orkuþing 2006 gengst fyrir samkeppni um einkennismerki fyrir þingið meðal starfsfólks allra þeirra fyrirtækja og stofnana sem koma að undirbúningi þess. Nánari upplýsingar: Smellið hér
6. desember 2005 Skrifstofumannanámskeið Samorku Flutt voru hin fjölbreytilegustu erindi og farið í heimsókn til Hitaveitu Suðurnesja, þar sem þátttakendur fengu góða yfirferð yfir starfsemi fyrirtækisins og starfsmannastefnu. Síðan var Gjáin í svartsengi heimsótt og að lokum var snætt af jólahlaðborði í Bláa Lóninu. Dagskrá námsskeiðsins: Smellið hér Nokkrar myndir af þátttakendum og fyrirlesurum: Smellið hér
6. desember 2005 Veitustjórafundurinn 2005 Á fundinum var farið yfir störf fagráða á líðandi ári og rætt um helstu málefni sem framundan eru á næsta ári. Sigríður Auður Arnardóttir og Ingibjörg Halldórsdóttir hjá Umhverfisráðuneyti sögðu frá þingmálum á umhverfissviði er varða veiturnar og ríkisstjórnin áætlar að verði afgreidd í vetur á Alþingi. Góðar umræður urðu um erindi þeirra. Dagskrá fundarins: Smellið hér Nokkrar myndir frá fundinum: Smellið hér
25. nóvember 2005 Múlavirkjun á Snæfellsnesi, ný virkjun Múlavirkjun á Snæfellsnesi var tekin formlega í notkun við hátíðlega athöfn þann 24. nóv. s.l. Það er Straumfjarðará sem hefur verið virkjuð og gefur 3,2 MW afl. Vatni er miðlað úr Baulárvallavatni og Hraunsfjarðarvatni. Þrír bændur í héraði standa að framkvæmdinni, þeir landeigendur Ástþór Jóhannsson í Dal og Eggert Kjartansson á Hofsstöðum, ásamt athafnamanninum Bjarna Einarssyni bónda í Tröðum. Fjölmenni var samankomið til að fagna þessum tímamótum í stöðvarhúsinu og í félagsheimilinu Breiðabliki. Ástþór Einarsson bauð gesti velkomna og lýsti aðdraganda og byggingarsögu virkjunarinnar, sóknarpresturinn á Staðarstað Guðjón Skarphéðinsson blessaði mannvirkið og Ellert Eiríksson stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja gangsetti virkjunina. Hitaveita Suðurnesja kaupir alla orku frá virkjuninni og er framleiðslunni fjarstýrt frá stjórnstöð hitaveitunnar í Svartsengi. Það eru hin nýju raforkulög og opnun viðskiptamarkaðarins sem eru forsendur þesss samnings sem gerður hefur verið á milli Múlavirkjunar og Hitaveitu Suðurnesja um viðskiptin, en það samkomulag varð til þess að bændur réðust í þessa myndarlegu framkvæmd. Myndir frá vígsluathöfninni: Smellið hér
21. nóvember 2005 Orkuveita Reykjavíkur fyrstir orkufyrirtækja með vottað umhverfisstjórnunarkerfi Umhverfisstjórnunarkerfið ISO 14001 byggir á því að kortleggja þá þætti starfseminnar sem hafa áhrif á umhverfið, vinna að stöðugum umbótum og lágmarka þau áhrif eins og kostur er. Upplýsingar um umhverfis-stefnuna þurfa að vera aðgengilegar fyrir notendur. Um 90 þúsund fyrirtæki í heiminum hafa vottað ISO 14001 en hér á landi er Orkuveitan sjötta fyrirtækið með slíka vottun. Á undan koma Ísal, Borgarplast, Árvakur hf, Hópbílar hf og Hagvagnar hf. Samorka óskar Orkuveitu Reykjavíkur til hamingju með þennan áfanga.