Trúnaður um raforkuverð til stóriðju

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Fréttablaðinu:

Oft er gagnrýnt að trúnaður skuli ríkja um hvert raforkuverðið nákvæmlega sé í samningum íslenskra orkufyrirtækja vegna stóriðju. Þessi gagnrýni er kannski skiljanleg í því ljósi að orkufyrirtækin eru nær alfarið í eigu opinberra aðila. Almenna reglan í rekstri fyrirtækja er hins vegar sú að gerðir eru samningar við önnur fyrirtæki sem trúnaður ríkir um. Ástæðan er einföld og snýr að samningsstöðu fyrirtækjanna við aðra sambærilega viðskiptavini í nútíð og framtíð. Þótt orkufyrirtækin séu að mestu í opinberri eigu eru þau engu að síður rekin á samkeppnisgrunni og starfa á samkeppnismarkaði. Stefnan um trúnað í þessu samhengi þjónar best hagsmunum orkufyrirtækja og eigenda þeirra í samningaviðræðum við erlenda raforkukaupendur, þótt draga megi ályktanir um orkuverðið út frá þekktum stærðum.

Mörg íslensk fyrirtæki eru með samninga við orkufyrirtækin um raforkukaup. Innihald þeirra samninga er eðli málsins samkvæmt ekki öllum aðgengilegt á samkeppnismarkaði. Ríkisútvarpið ohf. er dæmi um fyrirtæki í opinberri eigu. Almenningur hefur ekki aðgang að öllum samningum sem það fyrirtæki gerir.

Arðsemin aðalatriðið
Verðið á raforku til álfyrirtækja er tengt heimsmarkaðsverði á áli og háð gengi á Bandaríkjadal. Gengi hans er fremur lágt um þessar mundir en álverð mjög hátt. Verðið á hins vegar ekki að skipta eigendur meginmáli, heldur arðsemin. Um hana höfum við greinargóðar upplýsingar frá þeim fyrirtækjum sem selja raforku til stóriðju. Samningarnir við hina erlendu raforkukaupendur eru sameiginleg niðurstaða kaupenda og seljenda um arðbær viðskipti og verðmætasköpun.

Á Íslandi er verð á raforku til almennings með því lægsta sem gerist á Vesturlöndum, en raforkuverð til stóriðju er hér í meðallagi á heimsvísu. Stórir samningar um sölu á raforku til stóriðju hafa gert íslenskum orkufyrirtækjum kleift að virkja með hagkvæmari hætti sem aftur þýðir að þau geta selt almennum neytendum raforku og heitt vatn á lægra verði en ella.