24. maí 2008 Meiri hagsmunum fórnað fyrir minni? Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu: Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar hefur vakið mikla athygli og undirbúningi virkjunarinnar hefur verið hætt. Skipulagsstofnun telur meðal annars að framkvæmdin myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um sókn ferðamanna og útivistarfólks í þetta svæði, en framkvæmdaraðilinn hafði gert afar viðamiklar breytingar á fyrri verkáætlunum til þess að koma til móts við sjónarmið um verndun svæðisins og lágmörkun á öllu raski þar. Rætt var um nýja kynslóð jarðvarmavirkjana í því samhengi. Þessi niðurstaða Skipulagsstofnunar kemur því verulega á óvart. Þess má geta að bara nú í aprílmánuði heimsóttu um 3.600 manns Hellisheiðarvirkjun og vænta má mun fleiri gesta þangað yfir sumarmánuðina. Iðnaðarráðherra, sem meðal annars fer með orkumál og ferðaþjónustu, hefur enda sagt að græna orkan eigi eftir að reynast aðal tromp íslenska ferðamannaiðnaðarins. Samtök ferðaþjónustunnar gagnrýna nú harðlega að hefja skuli veiðar á hrefnu og halda því fram að með því sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Á nokkurra ára tímabili hefur gestum í hvalaskoðun fjölgað um nær 70%, mikið til samhliða hvalveiðum. Hér skal ekki gert lítið úr hugsanlegum hagsmunum ferðaþjónustunnar af lítt röskuðu svæði við Ölkelduháls líkt og nú er, en ljóst er að þessi niðurstaða kann að setja í uppnám áform um verulega uppbyggingu í atvinnulífi í Þorlákshöfn og víðar og má nefna netþjónabú og kísilhreinsun í því sambandi. Stærðargráðan er yfir hundrað milljarðar króna í erlendri fjárfestingu, nokkur hundruð ný og vel launuð störf og fleiri milljarðar ef ekki milljarðatugir í skatttekjur ríkis og sveitarfélaga. Hér má því eðlilega spyrja hvort einmitt sé ekki verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Vekur áleitnar spurningar Eftir standa hins vegar býsna áleitnar spurningar. Morgunblaðið hefur einmitt af þessu tilefni rifjað upp ýmis athyglisverð ummæli þeirra sem talað hafa í nafni náttúruverndar, þar sem fjallað er á jákvæðan hátt um hvoru tveggja jarðvarma- og rennslisvirkjanir. Þegar á reynir virðast hins vegar í vaxandi mæli rísa gagnrýni á þær tegundir virkjana. Auðvitað eru ýmis svæði sem samstaða er um að verði ekki raskað í þessu skyni, en það gildir fjarri því um öll nýtanleg svæði. Halda ber því til haga að hér er um að ræða endurnýjanlegar orkulindir sem hægt er að virkja á efnahagslega hagkvæman hátt og mynda með þeim grundvöll mikillar verðmætasköpunar. Um allan heim leita nú ríki að mengunarlausum orkugjöfum, í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Mörg ríki hafa sett sér háleit markmið í þeim efnum. Fæst geta þó uppfyllt þau markmið með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, líkt og við erum svo rík af hér á landi og öfunduð af um heim allan. Víða er þess vegna horft til kjarnorku. Er það okkar framtiðarsýn að brátt verði hér einfaldlega látið staðar numið við nýtingu þessarar auðlindar sem við Íslendingar erum svo rík af, endurnýjanlegri orku í formi vatnsafls og jarðvarma, og það á tímum alþjóðlegrar baráttu gegn losun gróðurhúsalofttegunda og síhækkandi olíuverðs?
19. maí 2008 VORFUNDUR Samorku 2008 í Íþróttahöllinni á Akureyri Fundurinn fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri og hefst með skráningu þátttakenda kl. 8.30 Að lokinni setningarathöfn og flutningi þriggja fyrstu erindanna verður gert hlé á fundarstörfum á meðan fram fer opnun á vöru og þjónustusýningu, sem fram fer á fundarstað. Að loknum hádegisverði verður fundardagskrá fram haldið og nú með fyrirlestrum í þremur sölum samtímis. Með því að smella hér, má fá allar nánari upplýsingar um fundinn, dagskrá hans og fyrirkomulag á makaferð og vísindaferð sem farin verður um austanverðan Eyjafjörð, til Greinivíkur að loknum fundi á föstudegi: SMELLA HÉR
15. maí 2008 Heita vatnið: Fyllir fimm þúsund Hallgrímskirkjur Út er kominn nýr bæklingur Samorku í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi. Á þessum tímamótum leggja samtökin áherslu á þau bættu lífsgæði sem hitaveitunni fylgja, svo sem heilnæmara andrúmsloft, betur hituð hýbýli og betri tækifæri til útivistar, hreyfingar og félagslífs sem tengja má við okkar ríku sundlaugamenningu og mikinn fjölda snjóbræðslukerfa. Tæp 90% landsmanna hita hús sín með hitaveitu sem byggð er á jarðhita. Flestir aðrir búa við rafmagnshitun en rúm 3% hita hús sín með hitaveitu sem byggist á olíu eða rafmagni. Heitir pottar við íbúðarhús og sumarbústaði skipta tugum þúsunda, flestir þeirra hitaðir með jarðhitavatni. Snjóbræðslukerfin skipta einnig tugum þúsunda, í gangstéttum, bílastæðum og bílaplönum. Loks eru hér á landi um 165 sundlaugar. Þar af eru 130 hitaðar með jarðhitavatni. Fyllir fimm þúsund HallgrímskirkjurAlls nota Íslendingar um 126 milljónir rúmmetra af jarðhitavatni til húshitunar, baða, snjóbræðslu og svo framvegis á ári hverju, eða sem nemur rúmlega 5.200 fullum Hallgrímskirkjum af jarðhitavatni (ekki svo að skilja að nokkur myndi vilja dæla heitu vatni inn í þau glæstu húsakynni, að ofna- og lagnakerfum undanskildum!). Frumkvöðlar í upphafi 20. aldarDæmi um nýtingu heitra lauga til þvotta, iðnaðar, matargerðar og jafnvel lækninga er víða að finna í sögulegum heimildum. Upphaf hitaveituvæðingar á Íslandi er þó rakið til ársins 1908, en það ár var jarðhiti fyrst nýttur hér svo vitað sé til að hita upp íbúðarhús. Var þar að verki Stefán B. Jónsson, bóndi, trésmiður og frumkvöðull með meiru, að Suður-Reykjum í Mosfellssveit. Stefán leiddi vatn úr hver inn í bæinn en jafnframt voru fleiri frumkvöðlar að huga að gerð hitaveitu á þessum árum. Bætt heilsufar og almenn lífsgæðiVíða má finna lítt aðlaðandi lýsingar á lífinu með kolakyndingu áður fyrr og ekki getur olíukynding talist sérlega umhverfisvæn. Nú á dögum finnst okkur það sjálfsögð lífsgæði að geta hitað hýbýli okkar með ódýru heitu vatni, sótt heitar sundlaugar allt árið um kring, brætt snjó í gangstéttum og götum og andað um leið að okkur hreinna og heilnæmara lofti en ella. Að baki þessum þægindum liggur hins vegar eitt hundrað ára saga hugvits, frumkvæðis og framkvæmdaþreks, sem við njótum ávaxtanna af í öllu okkar daglega lífi í dag. Hitaveitur spara Íslendingum 10 til 20 milljarða á áriHúshitun með jarðhita hefur frá því um 1980 sparað Íslendingum 10 til 20 milljarða króna á ári sem ella hefðu farið í innflutning á olíu til brennslu – með tilheyrandi mengun (í seinni tíð hefði rafkynding líklega smám saman tekið við en þá þyrfti líka að afla raforkunnar). Í dag er mikið horft til kosta jarðhitans sem endurnýjanlegs orkugjafa sem gefur frá sér hverfandi lítið af gróðurhúsalofttegundum. Helsti hvatinn að virkjun jarðhitans hér á landi var hins vegar á sínum tíma fjárhagslegur og áratugum saman hefur nýting jarðhitans sparað þjóðarbúinu mikinn innflutning á olíu og kolum og þannig skapað hér mikil verðmæti, auk þess að stuðla að bættum lífsgæðum á marga vegu. Bæklinginn má skoða hér, en úr prentun er hann af stærðinni 44 * 21 cm. Auglýsingastofan Skaparinn sá um hönnun.
8. maí 2008 Frímerki í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi Íslandspóstur hefur gefið út frímerki í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, en í ár er öld liðin frá því að heitu vatni var veitt úr hver til kyndingar á bænum Syðri-Reykjum í Mosfellssveit. Verðgildi frímerkisins er 75 krónur og hönnuður þess er Pétur Baldvinsson, grafískur hönnuður. Nánar um frímerkið á vefsíðu Íslandspósts.
22. apríl 2008 Fræðslufundur um innkaup veitufyrirtækja Innkaupahópur Samorku gengst fyrir fræðslufundi um innkaup veitna. Fundurinn fer fram á Grandhótel Reykjavík 8. maí n.k. Frekari upplýsingar fást með því að smella á: Dagskrá í heild
21. apríl 2008 Ársfundur Eurelectric í Barcelona, 16.-17. júní Eurelectric, Evrópusamtök rafiðnaðarins, halda ársfund sinn í Barcelona dagana 16.-17. júní. Á fundinum verður m.a. fjallað um uppbyggingu sameiginlegs raforkumarkaðs ESB, metnaðarfull markmið framkvæmdastjórnar ESB í orku- og loftslagsmálum og um orkunýtingu í nútíð og framtíð. Dagskrá og allar nánari upplýsingar má nálgast á vef Eurelectric.
21. apríl 2008 Aðalfundur Jarðhitafélags Íslands á morgun, þriðjudag Aðalfundur Jarðhitafélags Íslands verður haldinn á morgun, þriðjudaginn 22. apríl, í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1. Fundurinn hefst kl. 15:30. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum mun Guðjón Axel Guðjónsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneyti kynna stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum á auðlinda- og orkusviði. Boðið verður upp á kaffiveitingar í fundarlok.
5. apríl 2008 Sýning á vinningstillögu úr samkeppni um útilistaverk Laugardaginn 5. apríl var opnuð sýning í Bókasafni Mosfellsbæjar á vinningstillögu úr samkeppni um útilistaverk sem Samorka og Mosfellsbær munu reisa á nýju torgi við Þverholt. Tilefni samkeppninnar eru 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, sem miðast við frumkvöðulsstarf Stefáns B. Jónssonar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit árið 1908, og 20 ára afmæli Mosfellsbæjar árið 2007. Ennfremur eru til sýnis tillögur þeirra tveggja annarra listamanna sem forvalsdómnefnd samkeppninnar valdi úr hópi 16 tillagna til frekari þróunar í lokaðri samkeppni, auk annarrar tillögu Kristins, en hverjum þátttakenda var heimilt að skila inn tveimur tillögum. Vinningstillagan er verkið Hundraðþúsundmiljón tonn af sjóðheitu vatni, eftir Kristin E. Hrafnsson myndlistarmann. Er þar í titlinum vísað til orða Halldórs Kiljan Laxness í bókinni Innansveitarkróniku. Í niðurstöðu dómnefndar um verkið segir: Framsetning tillögunnar er mjög góð. Mjög auðvelt er að átta sig á hugmyndinni og öll útfærsla tillögunnar er vel unnin. Hugmyndafræðilegur bakgrunnur nær á skemmtilegan hátt að samtvinna sögu Mosfellsbæjar og sögu hitaveitunnar. Góð tenging er því bæði við söguna, umhverfið og heita vatnið. Ennfremur tekur tillagan fallega tillit til umhverfisins og tengir það vel inn í verk sitt. Verkið er látlaust og jarðbundið. Kostnaðaráætlun er vel innan marka sem forsögn í keppnisreglum kveða á um. Kristinn er fæddur á Ólafsfirði árið 1960 og lagði hann stund á myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík og í München í Þýskalandi. Hann hefur unnið að myndlist frá námslokum árið 1990 og sýnt víða heima og erlendis. Verk eftir Kristin er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins og í mörgum stofnunum og sveitarfélögum á landinu. Einnig eru sem fyrr segir til sýnis önnur tillaga Kristins sem ber sama heiti sem og tillögurnar Rauði þráðurinn eftir Magnús Rannver Rafnsson og Vatn eflir okkar innri kjarna eftir Gunnar Eiríksson. Bókasafn Mosfellsbæjar er til húsa í Kjarna, Þverholti 2, Mosfellsbæ.
18. mars 2008 Framkvæmdir og leikreglur Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Fréttablaðinu: Algeng rök gegn byggingu álvers í Helguvík eru á þá leið að ekki sé ýkja mikið atvinnuleysi á Suðurnesjum, þar séu fremur konur en karlar án atvinnu og þær sæki síður en karlar í vinnustaði á borð við álver. Þá sé ekki búið að tryggja orku fyrir vænta stækkun álversins síðar meir. En er það hlutverk stjórnmálamanna að stýra annars sjálfsprottinni uppbyggingu atvinnulífs út frá sjónarmiðum á borð við þessi? Nú er það raunar svo að á annað hundrað kvenna starfar hjá Alcoa Fjarðaáli á Reyðarfirði. Aðalatriðið er hins vegar það að fjárfestingar eins og þessi eiga ekki sífellt að vera settar í einhvers konar varnarstöðu af hálfu fólks úti í bæ sem telur sig hafa þarna betri yfirsýn yfir alla hluti. Nýlega bárust þannig fréttir af því að erlend leikfangakeðja hyggist síðar á þessu ári opna nýjar verslanir í Grafarholti og á Akureyri. Hvað ef tölur sýna nú að atvinnuleysi meðal íbúa í Grafarholti og á Akureyri sé mest í hópi eldra fólks? Henta þessi störf kannski betur fyrir ungt fólk? Ætti þá ef til vill að stöðva þessi áform? Og hvað með ef útgerðir kaupa ný skip, án þess að hafa fyrirfram tryggt þeim nægan kvóta næstu árin? Þarf ekki að koma upp stjórntækjum til að stöðva slíkt ábyrgðarleysi? Auðvitað er þetta fráleit umræða. Ekki kjaftastétta að dæmaBygging álvers í Helguvík á einfaldlega að lúta þeim almennu leikreglum sem öll fyrirtæki lúta með sínar framkvæmdir og fjárfestingar. Umhverfismat, framkvæmdaleyfi, skipulagsmál og hvað það nú allt heitir sem unnið hefur verið að í fjögur ár, í samstarfi við sveitarstjórnir og fleiri aðila. En það er ekki hlutverk stjórnmálamanna eða svonefndra kjaftastétta að fella dóma um þessi áform út frá eigin sjónarmiðum um það hverjum slík störf henti, hversu mikil eftirspurn verði eftir þeim, eða hvort forsvarsmenn umrædds fyrirtækis séu örugglega búnir að reikna dæmið til enda. Ekki frekar en gildir um fjárfestingaráform fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum.
13. mars 2008 Verðmætasköpun í varnarstöðu Álitsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar í 24 stundum: Sérkennileg umræða fer nú enn á ný fram um álver og ágæti þeirra. Öflug fyrirtæki þreifa fyrir sér með miklar fjárfestingar sem myndu skapa hér mikil verðmæti og mikinn fjölda góðra starfa. Einhverra hluta vegna er sveitarstjórnarfólki og fleirum sem taka jákvætt í slík erindi ítrekað stillt upp við vegg í viðtölum og opinberri umræðu. Þetta fólk er látið færa rök fyrir að heimila eigi hér slíkar fjárfestingar, með tölum um atvinnuleysi, lág meðallaun á viðkomandi svæðum eða fólksfækkun. Öðrum atvinnugreinum er síðan iðulega stillt upp sem betri valkostum, þótt mismikið fari þar fyrir fjárfestum. Sannleikurinn er sá að ólíkar atvinnugreinar þrífast best hver með annarri. Tökum stutta varnaræfingu. Regluleg mánaðarlaun verkafólks og iðnaðarmanna í álverum eru mun hærri en meðaltalið á landsvísu, meðalstarfsaldur með því lengsta sem gerist, veltuhraði starsfsfólks með því lægsta sem þekkist og álverin hafa verið í fararbroddi í öryggis- og aðbúnaðarmálum. Er þetta haft hér úr erindi framkvæmdastjóra ASÍ og verður seint talin lýsing á slæmum vinnustöðum. Starfsemi álvera byggir á mikilli sjálfvirkni og hugbúnaðargerð. Hlutfall háskólamenntaðra er talsvert hærra en að meðaltali í atvinnulífinu og fjöldi iðnaðarmanna mjög mikill. Álverin hafa verið í fararbroddi í starfsmenntamálum. Fjöldi fyrirtækja eru í raun skilgetin afkvæmi áliðnaðarins, meðal annars hugbúnaðarfyrirtæki og verkfræðistofur. Hljómar vel, en hér er samt alls ekkert verið að mæla með álverum umfram aðra atvinnustarfsemi. Öll atvinnustarfsemi á einfaldlega að njóta sannmælis og lúta þeim lögum og reglum sem í gildi eru hverju sinni. Mörg þúsund Íslendingar hafa sitt lifibrauð með beinum og óbeinum hætti af starfsemi álvera og þúsundir binda vonir við hugmyndir um þess háttar uppbyggingu og verðmætasköpun í sínu héraði. Þetta fólk er nákvæmlega jafn merkilegt og það fólk sem starfar í öðrum atvinnugreinum og á ekki sífellt að þurfa að þola að lítið sé gert úr því í opinberri umræðu.