ESB: Kjarnorkan inn úr kuldanum

Forgangsröðunin breytist hratt á tímum alþjóðlegrar fjármálakreppu, segir formaður umhverfisnefndar Evrópuþingsins. Hann segir erfiðara en áður að leggja áherslu á kostnaðarsamar aðgerðir á sviði loftslagsmála, svo dæmi sé tekið. Forseti framkvæmdastjórnar ESB tekur undir, en varar þó við þessari umræðu, þar sem loftslagsmálin geti orðið margfalt kostnaðarsamara viðfangsefni en núverandi fjármálakreppa. Enginn vilji sé þó fyrir því að setja einhliða svo stífar reglur að ESB flytji út losun gróðurhúsalofttegunda en flytji inn atvinnuleysi. Hann segir ljóst að kjarnorkan geti gegnt mikilvægu hlutverki í viðleitni ESB til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en talsmenn kjarnorkuiðnaðarins hafa lengi kvartað undan því að þeirra hlutur njóti ekki sannmælis í umræðum um orku- og loftslagsmál á vettvangi ESB.

Fjallað var um leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í evrópskum orkuiðnaði, á ráðstefnu Businesseurope, Eurelectric og Foratom í Brussel á dögunum. Framkvæmdastjórn ESB hefur sett sér metnaðarfull markmið á sviðum orku- og loftslagsmála, m.a. um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda (um 20% fyrir árið 2020) og um aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun ESB. Er markið sett á 20% hlut þeirra árið 2020 [þetta hlutfall er 80% á Íslandi í dag, enda Ísland óvenju auðugt af endurnýjanlegum orkulindum]. Tillögurnar eru nú til meðferðar í Evrópuþinginu og tvísýnt um framvindu þeirra, en um 1.200 breytingartillögur hafa þar verið lagðar fram við frumvarpið. Óhætt er að segja að alþjóðlega fjármálakreppan hafi sett svip sinn á umræður á fyrrnefndri ráðstefnu. Sama má segja um kjarnorkuna.

Talsmenn kjarnorkuiðnaðarins innan ESB hafa lengi kvartað yfir því að kjarnorkan njóti ekki sannmælis í umfjöllun og stefnumótun sambandsins í orku- og loftslagsmálum. Um 30% af þeirri raforku sem notuð er innan ESB er framleidd í kjarnorkuverum. Fram kom á ráðstefnunni að ein leið til að ná markmiðinu um 20% minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda væri einfaldlega sú að auka raforkuframleiðslu í kjarnorkuverum um 50%. Umræðan snerist hins vegar nær alfarið um mun dýrari lausnir á sviðum endurnýjanlegra orkugjafa, en innan ESB er ekki síst horft til tækifæra á sviði vindorku (á umræddri ráðstefnu bar vatnsafl t.d. á góma í 2-3 af um 25 erindum, jarðvarma í tveimur).

Flytja út losun og flytja inn atvinnuleysi?
Miroslav Ouzký, formaður umhverfisnefndar Evrópuþingsins, sagði í erindi sínu að forgangsröðunin breyttist hratt á tímum alþjóðlegrar fjármálakreppu. Stjórnmálamenn legðu nú áherslu á að vernda störf, ekki á umhverfis- og loftslagsmál, a.m.k. ekki þeir sem vildu ná endurkjöri. Gert-Jan Koopman, forstöðumaður á efnahagsmálaskrifstofu framkvæmdastjórnar ESB, benti á að tvennt hefði breyst frá því að metnaðarfullar tillögur framkvæmdastjórnarinnar voru kynntar. Gríðarleg hækkun hefði orðið á orkuverði og mikil áföll átt sér stað á sviði efnahagsmála. Útfærslan væri vissulega öll til skoðunar og ekki vænlegt að ESB setti svo strangar reglur að iðnfyrirtæki veldu sér einfaldlega önnur lönd fyrir sína starfsemi. Ekki væri því áhugi fyrir að flytja út losun gróðurhúsalofttegunda en flytja inn atvinnuleysi í staðinn. José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, tók undir þau orð í lokaávarpi ráðstefnunnar. Hins vegar værum við í dag mikið að tala um fjármálakreppu til skamms tíma, en loftslagsvandinn væri til langs tíma. Ef því væri frestað um of að takast á við hann yrði hann á endanum margfalt kostnaðarsamari en nokkur fjármálakreppa. Barroso sagði ljóst að kjarnorka væri orkugjafi sem ekki fæli í sér losun gróðurhúsalofttegunda og sem væri samkeppnishæfur í verði. Því yrði að halda þeim valkosti opnum, þ.e. kjarnorkunni, fyrir þau aðildarríki sem vildu fara þá leið.