Af fjárfestingarsamningum og sprotastuðningi

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu:

Á dögunum gerði iðnaðarráðherra fjárfestingarsamning við Norðurál vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Slíkir samningar hafa áður verið gerðir hér og í þeim felst einkum tvennt.  Annars vegar einhverjar undanþágur eða lækkanir á greiðslum opinberra gjalda á borð við vörugjöld af þeim risavöxnu fjárfestingum sem slíkum verkefnum fylgja. Hins vegar staðfestingu á tilteknum skattaprósentum eða öðrum atriðum í rekstrarumhverfinu. Hvoru tveggja eru alþekktar leiðir sem opinberir aðilar fara, víða um heim, til þess að stuðla að fjárfestingu í atvinnulífi. Hér felur hið fyrrnefnda í sér að ríkisvaldið afsalar sér litlu hlutfalli af annars stórum upphæðum sem það síðar innheimtir í tengslum við risavaxnar erlendar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Hið síðarnefnda getur verið forsenda þess að erlend fyrirtæki leggi í eða nái að fjármagna slíkar fjárfestingar, ekki síst ef traust á fjárfestingarumhverfinu er af einhverjum ástæðum takmarkað. Þessum samningum hefur með öðrum orðum verið ætlað að liðka fyrir ákvörðunum um risavaxnar erlendar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi, með tilheyrandi skatttekjum hins opinbera, verðmætasköpun, fjölgun starfa og auknum gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Ekki er um að ræða fjárútlát ríkisins, heldur samkomulag um tilteknar ívilnanir í opinberum gjöldum af risavöxnum fjárfestingum.

Ágæt sátt um sprotastuðning
Önnur tegund opinbers stuðnings við uppbyggingu atvinnulífs er fólgin í ýmiss konar beinum og óbeinum stuðningi við svonefnd sprotafyrirtæki. Er þá ýmist um að ræða bein fjárframlög úr opinberum sjóðum, afslætti af tilteknum opinberum gjöldum, niðurgreidda starfsaðstöðu og rekstrarráðgjöf, eða liðkanir á borð við nýjar heimildir til að nýta atvinnuleysisbætur sem eins konar niðurgreiðslu á launagreiðslum til starfsfólks. Ágæt sátt ríkir um slíkar aðgerðir og þótt fæst þessara fyrirtækja nái á endanum að þroskast í arðbæran rekstur eru sem betur fer til glæsileg og öflug fyrirtæki í ýmsum greinum sem farið hafa af stað með slíkum stuðningi. Hér er oft um að ræða bein framlög úr opinberum sjóðum sem oft skila sér ekki til baka eða einungis að mjög takmörkuðu leyti. Í tilfelli fjárfestingarsamninganna  er um að ræða ákveðinn afslátt af greiðslum erlendra fyrirtækja til íslenska ríkisins, afslátt af miklum greiðslum sem fylgja risavaxinni fjárfestingu með tilheyrandi tekjustreymi. Agn til að landa stórfiski, svo vísað sé í hugtakanotkun iðnaðarráðherra.

Gagnrýni á fölskum forsendum
Allt er þetta gott og blessað og öllu er þessu ætlað að efla íslenskt atvinnulíf, efla hér verðmætasköpun, fjölga störfum og svo framvegis. Ólíkt stuðningi við sprotafyrirtæki hafa hins vegar fjárfestingarsamningarnir stundum verið gagnrýndir harðlega. Nú má vissulega finna til hugmyndafræðilegar forsendur fyrir slíkri gagnrýni, sem væntanlega yrðu þá kenndar við hreinræktaða frjálshyggju. Furðu sætir hins vegar að oft eru það áköfustu talsmenn sprotastuðningsins sem hæst hafa gegn fjárfestingarsamningunum. Fólk getur auðvitað haft einhverjar ástæður fyrir að vera einhvern veginn mótfallið tilteknum atvinnugreinum. En það er ekki trúverðugt að klæða þá afstöðu í búning grundvallarandstöðu við að hið opinbera liðki til fyrir fjárfestingum með því að afsala sér litlum hluta gríðarhárra tekna. Ekki ef á sama tíma er mælst til beinna opinberra fjárútláta til annars konar atvinnuuppbyggingar.