Reglugerð lögum framar?

Eftirfarandi er yfirlýsing frá Samorku sem birt er í Morgunblaðinu:

„Í fréttatilkynningu frá Skipulagsstofnun, sem skilmerkilega er greint frá í Morgunblaðinu í dag miðvikudaginn 28. maí, er því hafnað að stofnunin hafi með úrskurði sínum um mat á umhverfisáhrifum vegna Bitruvirkjunar farið út fyrir hlutverk sitt samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í fréttatilkynningunni er talað um misskilning og 24. grein reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum, sem sagt er að „virðist hafa farið framhjá mörgum sem hafa tjáð sig um málið.“ Umrædd grein reglugerðarinnar hefur engan veginn farið framhjá Samorku, en það krefst hins vegar afar ríks vilja ef túlka á ákvæðið með þeim hætti að stofnunin eigi að lýsa skoðun sinni á framkvæmdinni líkt og gert er í álitinu, en ekki einungis gefa rökstutt álit sitt á því hvort matskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli skilyrði laganna. Hitt er svo að ef stjórnvald tekur sér vald, með vísan til reglugerðar, sem ekki er að finna í lögum um sama efni eins og Skipulagsstofnun gerir, þá krefst það nánari skýringa.

Í athugasemdum með frumvarpinu þegar lögum um mat á umhverfisáhrifum var breytt árið 2005, og í nefndaráliti meirihluta umhverfisnefndar, kemur mjög skýrt fram að stofnunin á ekki að segja til um hvort framkvæmd sé í lagi eða ekki heldur er áherslan lögð á að leyfisveitandi sé upplýstur um umhverfisáhrif framkvæmdar og athugasemdir almennings þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda. „Í matsferlinu verður ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hefur verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila.“ Þetta orðalag í frumvarpinu verður að teljast nokkuð skýrt.

Í fyrrnefndri fréttatilkynningu Skipulagsstofnunar er því hafnað að stofnunin sé með áliti sínu að „hafna“ eða „leggjast gegn“ byggingu Bitruvirkjunar. Það sé enda ekki hlutverk Skipulagsstofnunar. Umrætt álit Skipulagsstofnunar er 39 blaðsíður að lengd. Það hefst á einnar blaðsíðu samantekt um helstu niðurstöður, með þessum orðum: „Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að bygging Bitruvirkjunar sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.“ Hér er sem sagt ekki verið að leggjast gegn framkvæmdinni?“

Fyrri umfjöllun Samorku má nálgast hér, þar sem finna má hlekki í lögin um mat á umhverfisáhrifum, reglugerðina, nefndarálitið og frumvarpið.

Vandséð annað en Skipulagsstofnun hafi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt

Á dögunum skilaði Skipulagsstofnun áliti á mati á umhverfisáhrifum vegna Bitruvirkjunar, þar sem stofnunin staðfestir að matið hafi verið unnið með lögbundnum hætti en kemst jafnframt að þeirri niðurstöðu að bygging Bitruvirkjunar sé „ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.“ Vandséð er annað en að með þessari niðurstöðu sé stofnunin komin út fyrir lögbundið hlutverk sitt samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Lögunum var breytt árið 2005 og í frumvarpinu segir meðal annars, um helstu breytingar á lögunum, að í matsferlinu verði ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hefur verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Hlutverk Skipulagsstofnunar er fyrst og fremst það, í þessu tilfelli, að staðfesta að umhverfismat hafi verið unnið með lögbundnum hætti, sem hún og gerði sem fyrr segir.

Hlutverk Skipulagsstofnunar, gagnvart matsskýrslu um umhverfisáhrif, er fyrst og fremst það að staðfesta að umhverfismat hafi verið unnið með lögbundnum hætti, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þá ber stofnuninni að kynna álit sitt fyrir umhverfisráðherra, framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og öðrum umsagnaraðilum, svo og þeim sem gert hafa athugasemdir við frummatsskýrslu á kynningartíma.

Ekki ætlað að taka afstöðu, heldur staðfesta lýsingu
Lögum um mat á umhverfisáhrifum var breytt árið 2005 og í athugasemdum við frumvarpið árið 2005 segir m.a.:
    „Helstu breytingar sem frumvarp þetta mælir fyrir um eru eftirfarandi:
    1.      Í matsferlinu verður ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hefur verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila.“

Í 11. gr. núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum er fjallað um álit Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum. Í greininni segir m.a.: „Innan fjögurra vikna frá því að Skipulagsstofnun tekur á móti matsskýrslu skal stofnunin gefa rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Í áliti Skipulagsstofnunar skal gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess. Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu.
Telji Skipulagsstofnun að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmdinni eða gera þurfi aðrar eða frekari mótvægisaðgerðir en fram koma í matsskýrslu skal stofnunin tilgreina skilyrðin og mótvægisaðgerðirnar og færa rök fyrir þeim.“ Ákvæði reglugerðar á grundvelli laganna eru nánast alveg samhljóða (sjá 24. grein).

Segi ekki til um hvort framkvæmd sé i lagi eða ekki
Lögunum var sem fyrr segir breytt árið 2005 og í nefndaráliti meirihluta umhverfisnefndar segir m.a.: „Meiri hlutinn telur mikilvægt að undirstrika tilgang laga um mat á umhverfisáhrifum en hann er að setja reglur um það hvernig framkvæma eigi mat á umhverfisáhrifum þannig að leyfisveitandi sé upplýstur um umhverfisáhrif framkvæmdar og athugasemdir almennings þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda. Telur meiri hlutinn rétt að undirstrika það vegna þeirra vangaveltna sem fram komu við umfjöllun málsins um að hvergi í lögum um mat á umhverfisáhrifum væri að finna ákvæði sem hindrað gætu framkvæmd. Bendir meiri hlutinn á að þær tilskipanir sem lög um mat á umhverfisáhrifum byggjast á fela ekki í sér að þessar reglur eigi að segja til um hvort framkvæmd sé í lagi eða ekki heldur er áherslan lögð á að leyfisveitandi sé upplýstur um umhverfisáhrif framkvæmdar og athugasemdir almennings þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda [skál. Samorka].

Komin út fyrir lögbundið hlutverk sitt
Á dögunum skilaði Skipulagsstofnun áliti á mati á umhverfisáhrifum vegna Bitruvirkjunar, þar sem stofnunin staðfestir að matið hafi verið unnið með lögbundnum hætti en kemst jafnframt að þeirri niðurstöðu að bygging Bitruvirkjunar sé „ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.“ Vandséð er annað en að með þessari niðurstöðu sé stofnunin komin út fyrir lögbundið hlutverk sitt samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Álitið ekki bindandi
Ljóst er að álit Skipulagsstofnunar, þess efnis að virkunin sé óásættanleg, er á engan hátt bindandi, hvorki fyrir sveitarfélagið sem fer með skipulagsvaldið, né fyrir iðnaðarráðherra sem veitir nýtingarleyfi.

Meiri hagsmunum fórnað fyrir minni?

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu:

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar hefur vakið mikla athygli og undirbúningi virkjunarinnar hefur verið hætt. Skipulagsstofnun telur meðal annars að framkvæmdin myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um sókn ferðamanna og útivistarfólks í þetta svæði, en framkvæmdaraðilinn hafði gert afar viðamiklar breytingar á fyrri verkáætlunum til þess að koma til móts við sjónarmið um verndun svæðisins og lágmörkun á öllu raski þar. Rætt var um nýja kynslóð jarðvarmavirkjana í því samhengi. Þessi niðurstaða Skipulagsstofnunar kemur því verulega á óvart. Þess má geta að bara nú í aprílmánuði heimsóttu um 3.600 manns Hellisheiðarvirkjun og vænta má mun fleiri gesta þangað yfir sumarmánuðina. Iðnaðarráðherra, sem meðal annars fer með orkumál og ferðaþjónustu, hefur enda sagt að græna orkan eigi eftir að reynast aðal tromp íslenska ferðamannaiðnaðarins.

Samtök ferðaþjónustunnar gagnrýna nú harðlega að hefja skuli veiðar á hrefnu og halda því fram að með því sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Á nokkurra ára tímabili hefur gestum í hvalaskoðun fjölgað um nær 70%, mikið til samhliða hvalveiðum. Hér skal ekki gert lítið úr hugsanlegum hagsmunum ferðaþjónustunnar af lítt röskuðu svæði við Ölkelduháls líkt og nú er, en ljóst er að þessi niðurstaða kann að setja í uppnám áform um verulega uppbyggingu í atvinnulífi í Þorlákshöfn og víðar og má nefna netþjónabú og kísilhreinsun í því sambandi. Stærðargráðan er yfir hundrað milljarðar króna í erlendri fjárfestingu, nokkur hundruð ný og vel launuð störf og fleiri milljarðar ef ekki milljarðatugir í skatttekjur ríkis og sveitarfélaga. Hér má því eðlilega spyrja hvort einmitt sé ekki verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.

Vekur áleitnar spurningar
Eftir standa hins vegar býsna áleitnar spurningar. Morgunblaðið hefur einmitt af þessu tilefni rifjað upp ýmis athyglisverð ummæli þeirra sem talað hafa í nafni náttúruverndar, þar sem fjallað er á jákvæðan hátt um hvoru tveggja jarðvarma- og rennslisvirkjanir. Þegar á reynir virðast hins vegar í vaxandi mæli rísa gagnrýni á þær tegundir virkjana. Auðvitað eru ýmis svæði sem samstaða er um að verði ekki raskað í þessu skyni, en það gildir fjarri því um öll nýtanleg svæði. Halda ber því til haga að hér er um að ræða endurnýjanlegar orkulindir sem hægt er að virkja á efnahagslega hagkvæman hátt og mynda með þeim grundvöll mikillar verðmætasköpunar.

Um allan heim leita nú ríki að mengunarlausum orkugjöfum, í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Mörg ríki hafa sett sér háleit markmið í þeim efnum. Fæst geta þó uppfyllt þau markmið með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, líkt og við erum svo rík af hér á landi og öfunduð af um heim allan. Víða er þess vegna horft til kjarnorku. Er það okkar framtiðarsýn að brátt verði hér einfaldlega látið staðar numið við nýtingu þessarar auðlindar sem við Íslendingar erum svo rík af, endurnýjanlegri orku í formi vatnsafls og jarðvarma, og það á tímum alþjóðlegrar baráttu gegn losun gróðurhúsalofttegunda og síhækkandi olíuverðs?

VORFUNDUR Samorku 2008 í Íþróttahöllinni á Akureyri

Fundurinn fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri og hefst með skráningu þátttakenda kl. 8.30  Að lokinni setningarathöfn og flutningi þriggja fyrstu erindanna verður gert hlé á fundarstörfum á meðan fram fer opnun á vöru og þjónustusýningu, sem fram fer á fundarstað. Að loknum hádegisverði verður fundardagskrá fram haldið og nú með fyrirlestrum í þremur sölum samtímis.

Með því að smella hér, má fá allar nánari upplýsingar um fundinn, dagskrá hans og fyrirkomulag á makaferð og vísindaferð sem farin verður um austanverðan Eyjafjörð, til Greinivíkur að loknum fundi á föstudegi: SMELLA HÉR

Heita vatnið: Fyllir fimm þúsund Hallgrímskirkjur

Út er kominn nýr bæklingur Samorku í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi. Á þessum tímamótum leggja samtökin áherslu á þau bættu lífsgæði sem hitaveitunni fylgja, svo sem heilnæmara andrúmsloft, betur hituð hýbýli og betri tækifæri til útivistar, hreyfingar og félagslífs sem tengja má við okkar ríku sundlaugamenningu og mikinn fjölda snjóbræðslukerfa.

Tæp 90% landsmanna hita hús sín með hitaveitu sem byggð er á jarðhita. Flestir aðrir búa við rafmagnshitun en rúm 3% hita hús sín með hitaveitu sem byggist á olíu eða rafmagni. Heitir pottar við íbúðarhús og sumarbústaði skipta tugum þúsunda, flestir þeirra hitaðir með jarðhitavatni. Snjóbræðslukerfin skipta einnig tugum þúsunda, í gangstéttum, bílastæðum og bílaplönum. Loks eru hér á landi um 165 sundlaugar. Þar af eru 130 hitaðar með jarðhitavatni.

Fyllir fimm þúsund Hallgrímskirkjur
Alls nota Íslendingar um 126 milljónir rúmmetra af jarðhitavatni til húshitunar, baða, snjóbræðslu og svo framvegis á ári hverju, eða sem nemur rúmlega 5.200 fullum Hallgrímskirkjum af jarðhitavatni (ekki svo að skilja að nokkur myndi vilja dæla heitu vatni inn í þau glæstu húsakynni, að ofna- og lagnakerfum undanskildum!).

Frumkvöðlar í upphafi 20. aldar
Dæmi um nýtingu heitra lauga til þvotta, iðnaðar, matargerðar og jafnvel lækninga er víða að finna í sögulegum heimildum. Upphaf hitaveituvæðingar á Íslandi er þó rakið til ársins 1908, en það ár var jarðhiti fyrst nýttur hér svo vitað sé til að hita upp íbúðarhús. Var þar að verki Stefán B. Jónsson, bóndi, trésmiður og frumkvöðull með meiru, að Suður-Reykjum í Mosfellssveit. Stefán leiddi vatn úr hver inn í bæinn en jafnframt voru fleiri frumkvöðlar að huga að gerð hitaveitu á þessum árum.

Bætt heilsufar og almenn lífsgæði
Víða má finna lítt aðlaðandi lýsingar á lífinu með kolakyndingu áður fyrr og ekki getur olíukynding talist sérlega umhverfisvæn. Nú á dögum finnst okkur það sjálfsögð lífsgæði að geta hitað hýbýli okkar með ódýru heitu vatni, sótt heitar sundlaugar allt árið um kring, brætt snjó í gangstéttum og götum og andað um leið að okkur hreinna og heilnæmara lofti en ella. Að baki þessum þægindum liggur hins vegar eitt hundrað ára saga hugvits, frumkvæðis og framkvæmdaþreks, sem við njótum ávaxtanna af í öllu okkar daglega lífi í dag.

Hitaveitur spara Íslendingum 10 til 20 milljarða á ári
Húshitun með jarðhita hefur frá því um 1980 sparað Íslendingum 10 til 20 milljarða króna á ári sem ella hefðu farið í innflutning á olíu til brennslu – með tilheyrandi mengun (í seinni tíð hefði rafkynding líklega smám saman tekið við en þá þyrfti líka að afla raforkunnar). Í dag er mikið horft til kosta jarðhitans sem endurnýjanlegs orkugjafa sem gefur frá sér hverfandi lítið af gróðurhúsalofttegundum. Helsti hvatinn að virkjun jarðhitans hér á landi var hins vegar á sínum tíma fjárhagslegur og áratugum saman hefur nýting jarðhitans sparað þjóðarbúinu mikinn innflutning á olíu og kolum og þannig skapað hér mikil verðmæti, auk þess að stuðla að bættum lífsgæðum á marga vegu.

Bæklinginn má skoða hér, en úr prentun er hann af stærðinni 44 * 21 cm. Auglýsingastofan Skaparinn sá um hönnun.

Aðalfundur Jarðhitafélags Íslands á morgun, þriðjudag

Aðalfundur Jarðhitafélags Íslands verður haldinn á morgun, þriðjudaginn 22. apríl, í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1. Fundurinn hefst kl. 15:30. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum mun Guðjón Axel Guðjónsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneyti kynna stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum á auðlinda- og orkusviði. Boðið verður upp á kaffiveitingar í fundarlok.

Sýning á vinningstillögu úr samkeppni um útilistaverk

Laugardaginn 5. apríl var opnuð sýning í Bókasafni Mosfellsbæjar á vinningstillögu úr samkeppni um útilistaverk sem Samorka og Mosfellsbær munu reisa á nýju torgi við Þverholt. Tilefni samkeppninnar eru 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, sem miðast við frumkvöðulsstarf Stefáns B. Jónssonar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit árið 1908, og 20 ára afmæli Mosfellsbæjar árið 2007.

Ennfremur eru til sýnis tillögur þeirra tveggja annarra listamanna sem forvalsdómnefnd samkeppninnar valdi úr hópi 16 tillagna til frekari þróunar í lokaðri samkeppni, auk annarrar tillögu Kristins, en hverjum þátttakenda var heimilt að skila inn tveimur tillögum.

Vinningstillagan er verkið Hundraðþúsundmiljón tonn af sjóðheitu vatni, eftir Kristin E. Hrafnsson myndlistarmann. Er þar í titlinum vísað til orða Halldórs Kiljan Laxness í bókinni Innansveitarkróniku. Í niðurstöðu dómnefndar um verkið segir:

Framsetning tillögunnar er mjög góð. Mjög auðvelt er að átta sig á hugmyndinni og öll útfærsla tillögunnar er vel unnin.  Hugmyndafræðilegur bakgrunnur nær á skemmtilegan hátt að samtvinna sögu Mosfellsbæjar og sögu hitaveitunnar. Góð tenging er því bæði við söguna, umhverfið og heita vatnið. Ennfremur tekur tillagan fallega tillit til umhverfisins og tengir það vel inn í verk sitt.  Verkið er látlaust og jarðbundið.  Kostnaðaráætlun er vel innan marka sem forsögn í keppnisreglum kveða á um.

Kristinn er fæddur á Ólafsfirði árið 1960 og lagði hann stund á myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík og í München í Þýskalandi. Hann hefur unnið að myndlist frá námslokum árið 1990 og sýnt víða heima og erlendis. Verk eftir Kristin er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins og í mörgum stofnunum og sveitarfélögum á landinu.

Einnig eru sem fyrr segir til sýnis önnur tillaga Kristins sem ber sama heiti sem og tillögurnar Rauði þráðurinn eftir Magnús Rannver Rafnsson og Vatn eflir okkar innri kjarna eftir Gunnar Eiríksson.

Bókasafn Mosfellsbæjar er til húsa í Kjarna, Þverholti 2, Mosfellsbæ.