Nóg komið af átökum – nýjar leiðir í fjármögnun

„Orkugeirinn er þjóðinni miklu mikilvægari en svo að hann megi vera átakavettangur árum saman. Nóg er komið af slíkum átökum.“ Þetta sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra í lok ávarps síns á aðalfundi Samorku. Hvatti hún til þess að fólk sameinaðist um að skapa sátt með rammaáætlun um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skýrum gegnsæjum leikreglum. Það væri leiðin fram á við og upp úr efnahagslægðinni.

Í ávarpi sínu fjallaði Katrín um mikilvægi nýfjárfestinga tengdum orku- og stóriðjuframkvæmdum á þróun efnahagsmála, m.a. um þann mikla fjölda starfa sem slíkar fjárfestingar skapa. Hún fjallaði einnig um verðmæta þekkingu sem byggst hefur upp hérlendis á þessu sviði hjá verkfræðistofum, ÍSOR, Jarðborunum o.fl., um fjárfestingaverkefni framundan, rafbíla sem væntanlegir eru til landsins sem hluti af tilraunaverkefni á vegum iðnaðarráðuneytis og margt fleira.

Horft til nýrra leiða með fjármögnun
Katrín sagði óvissu og erfiðar aðstæður til fjármögnunar hafa tafið ákvarðanir um framkvæmdir og gert það að verkum að við yrðum að horfa til nýrra leiða varðandi fjármögnun slíkra verkefna. Þetta sagði hún kunna að þýða aðkomu og jafnvel tímabundið eignarhald annarra aðila að orkuverkefnum, t.d. með verkefnafjármögnun.

Sjá erindi Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra á vef ráðuneytisins.

Formaður Samorku: Óábyrgt að virkja ekki meira

Aðalfundur Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, Grand Hótel, 19. febrúar 2010
Setningarávarp Franz Árnasonar, formanns Samorku, í opinni dagskrá

Iðnaðarráðherra, aðrir góðir gestir,

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin til þessarar opnu dagskrár aðalfundar Samorku. Hér í salnum er, auk góðra gesta, saman kominn hópur fólks sem starfar við nýtingu okkar ríku náttúruauðlinda sem felast í fallvötnum, jarðhita og afburða ferskvatni. Á dögunum komust sérfræðingar Yale og Columbia háskólanna í Bandaríkjunum að þeirri niðurstöðu að Ísland stæði sig best allra ríkja á sviði umhverfismála. Er þar ekki síst horft til góðs aðgangs að hreinu drykkjarvatni og til þeirrar hreinu orku sem hér er unnin úr vatnsafli og jarðhita. Við sem störfum að þessum viðfangsefnum gleðjumst auðvitað yfir slíkum viðurkenningum. Íslenska þjóðin býr að stórkostlegum náttúrugæðum í þessu tilliti og okkur hefur borið gæfu til að nýta þessi gæði á skynsaman hátt og með virðingu fyrir náttúrunni.

Nauðsynlegt er að leiðrétta þann misskilning sem örlar á m.a. hjá sjálfum umhverfisráðherra landsins, sem í  blaðaviðtali lýsti efasemdum um að nýting vatnsafls og jarðhita feli í sér sjálfbæra orkunýtingu. Veröldin skilgreinir vatnsafl og jarðhita sem endurnýjanlega orkugjafa og sú skilgreining er rétt og engum efa undirorpin. Að halda öðru fram er einvörðungu vatn á millu þeirra sem framleiða og selja jarðefnaeldsneyti. Orkuforðinn í jarðskorpunni er nánast óendanlegur og gæti staðið undir allri núverandi orkunotkun jarðarbúa í tíu þúsund ár. Að vísu er enn ekki tæknilega gerlegt að vinna nema lítinn hluta þessarar orku  sem þegar af þeirri ástæðu er sjálfbær. Orkan í fallvötnunum er einnig sjálfbær en úr vinnslugetunni gæti dregið hérlendis ef jöklar bráðna alveg á næstu öldum.  Séu menn að vitna í það þegar efast er um sjálfbærnina er því til að svara að þeim mun nauðsynlegra er að beisla þessa orku strax í stað þess að láta hana renna ónotaða til sjávar. Það er fullkomlega óábyrgt að halda ekki áfram virkjun jarðhita og fallvatna, til raforkuframleiðslu fyrir orkufrek iðjuver, nú þegar þörf er á að auka gjaldeyristekjur og atvinnu.

Þau ánægjulegu tíðindi bárust í síðustu viku að Landsvirkjun ætli að hefja að nýju framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun. Þetta eru að sönnu ekki stórar framkvæmdir en betri en ekkert. Þá bárust í vikunni jákvæðar fréttir af undirritun samningsramma um orkusölu til nýs kísilvers sem áformað er að reisa í Þorlákshöfn og hyggst Orkuveita Reykjavíkur reisa til þess nýja jarðhitavirkjun í Hverahlíð, fáist til þess fjármögnun á nógu góðum kjörum. Í janúarlok var undirritaður rammasamningur milli Akureyrarbæjar og Strokks Energy ehf. vegna koltrefjaverksmiðju á Akureyri. Það sem mesta athygli vekur í þessum rammasamningi er að gert er ráð fyrir að verksmiðjan noti verulegt magn af metangasi sem ætlunin er að vinna úr sorphaugum á Glerárdal og leiða beint í verksmiðjuna. Það er auðvitað svo að fjármögnun framkvæmda er mjög erfið fyrir okkur Íslendinga nú um stundir og nauðsynlegt að fá erlenda fjárfesta að framkvæmdum á orkusviði. Slíkir fjárfestar eru til en ég óttast að þeim fari fækkandi vegna þess að þær móttökur sem þeir fá á æðstu stöðum eru oftar en ekki til þess fallnar að fæla fjárfesta frá landinu. Sama má segja um ráðstafanir eins og þá að skattlegja raforkunotkun með beinum hætti og að úrskurða á æðstu stöðum um aukið eða samþætt umhverfismat og fleira því tengt án þess að til þess standi lagaleg skylda. Erlend fjárfesting er líklega mikilvægari nú en nokkru sinni fyrir íslenskt atvinnulíf. Við hljótum að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau vinni með atvinnulífinu á þessu sviði, en ekki gegn því. Það er hinsvegar ekki nýtt að Íslendingar óttist útlendinga, séu óráðþægnir, telji sig sérstaka og telji sig vita betur en allir aðrir jarðarbúar. Ég vitna hér á eftir til úrdráttar úr umfjöllun George H.F. Schrader sem bjó á Akureyri á árunum 1912-1915, ferðaðist auk þess um landið og kynnti sér þjóðlífið. Hann reyndi að koma á ýmsum umbótum hérlendis en fannst  Íslendingar erfiðir.

Þeir gegna því ekki, þeir þykjast kunna það alt miklu betur!!! Allt hvað lagt er til að gera, „dugir ekki á Íslandi við verðum að hafa það eins og við gerum.“ Þannig gætum vér hugsað oss, að Ísland tilheyrði allt öðrum heimi, og Íslendingar væru guðs útvalin þjóð – eða þá útskúfuð þjóð, eftir því hvort farið er eftir raupi þeirra af sjálfum sér og  öllu íslensku, eða þá eftir kveinstöfum þeirra yfir fátæktinni og jarðveginum.“ Þessi tilvitnun er úr formála eftir Ásgeir Jónsson að bókarhveri nokkru sem Schrader gaf út og heitir í þýðingu Steingríms Matthíassonar frá 1913, „Heilræði fyrir unga menn í verslun og viðskiptum“.

Eftir að hafa komið þessu á framfæri er rétt að það komi fram að Samorka hefur átt mjög gott samstarf við iðnaðarráðherra og hennar ráðuneyti og mér virðist að þar á bæ sé unnið af heilindum að orkumálum og tekið vel á móti þeim sem hingað vilja koma og hefja starfssemi. Þar er líka reynt að hafa það yfirlýsta markmið ríkisstjórnarinnar í heiðri að horfa til virkjanaframkvæmda og tengdra framkvæmda í iðnaði til að koma hér hjólum atvinnulífsins betur af stað.

Góðir fundarmenn, ég hef ekki sagt allt það sem ég vildi sagt hafa um orkuskatta. Nýir orkuskattar voru meðal annars réttlættir með vísan í einhvers konar auðlindaafgjald til þjóðarinnar, en að mestu leyti eru  þessar dýrmætu auðlindir í eigu ríkis og sveitarfélaga. Við Íslendingar höfum hins vegar til langs tíma státað af því að hér er bæði raforka og heitt vatn til kyndingar selt á  mun lægri verðum en þekkist í flestum okkar samanburðarlöndum. Orku- og veitufyrirtækin eru hins vegar flest í eigu opinberra aðila og eru í flestum tilvikum rekin með afar takmarkaðri arðsemi, að undanskilinni raforkusölu til stóriðju. Afgjaldið sem þjóðin, fólkið og fyrirtækin í landinu fær í sinn hlut af þessum dýrmætu auðlindum er þess vegna ekki fólgið í að greiða ríkissjóði nýjan skatt. Afgjaldið kemur beint í buddu landsmanna sjálfra í formi miklu lægra orkuverðs en nágrannar okkar búa við. Með því að borga kannski fjórðung af raforku- og kyndingarkostnaði t.d. frænda okkar í Danmörku, erum við að njóta góðs af okkar ríku náttúruauðlindum, í hverjum mánuði, beint í budduna. Nýi orkuskatturinn bætir ekki þarna við, heldur skerðir í raun afgjaldið til þjóðarinnar. 

Ályktun aðalfundar Samorku: Mikill arður af auðlindinni

Ályktun aðalfundar Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, 19. febrúar 2010:

Ódýrt vatn og orka – arðurinn af auðlindinni

Íslensk heimili, fyrirtæki og stofnanir búa að mun lægra verði á raforku, heitu vatni til kyndingar og úrvals neysluvatni en þekkist í flestum okkar venjulegu samanburðarlöndum. Þannig hefur þessi samanburður verið til langs tíma og verður ekki rakinn til þeirrar miklu lækkunar sem orðið hefur á gengi krónunnar. Þarna njótum við Íslendingar góðs af ríkum auðlindum landsins, en nýting innlendra endurnýjanlegra orkugjafa sparar þjóðarbúinu tugi milljarða króna ár hvert.

Í lang flestum tilvikum eru íslensk orku- og veitufyrirtæki í eigu almennings, þ.e. fyrirtækja sem rekin eru af sveitarfélögum og ríki. Öll hafa þessi fyrirtæki verið rekin með afar hóflegri arðsemi, sem hefur þó verið hærri af raforkusölu til stóriðju. Arður almennings og atvinnurekstrar af þessum ríkulegu auðlindum landsins er því fyrst og fremst í formi lágra reikninga, vegna nýtingar þessara ríkulegu náttúrugæða. Mikilvægt er að stjórnvöld séu þessa meðvituð og leggi ekki frekari skatta en orðið er á orkunotkun landsmanna.

Orkan og endurreisnin
Bein erlend fjárfesting, með tilheyrandi hagvaxtaráhrifum, hefur e.t.v. aldrei verið íslensku atvinnulífi mikilvægari en einmitt um þessar mundir. Endurnýjanleg orka er eitt helsta aðdráttaraflið í þeim efnum enda henni ætlað stórt hlutverk í endurreisn íslensks efnahagslífs, m.a. í efnahagsáætlunum stjórnvalda. Íslensk orkufyrirtæki lýsa sig reiðubúin til þátttöku í endurreisninni og munu þar leggja sitt af mörkum eins og kostur er. Þá binda fyrirtækin miklar vonir við að væntanleg afgreiðsla 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma muni stuðla að aukinni sátt um nýtingu íslenskra orkulinda, færa orkufyrirtækjunum aukin og spennandi verkefni og þannig stuðla að mikilvægri uppbyggingu í íslensku atvinnulífi.
 

Hörður Arnarson nýr í stjórn Samorku

Á aðalfundi Samorku var Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, kjörinn nýr inn í stjórn samtakanna. Hörður kemur inn í stjórnina í stað Friðriks Sophussonar, forvera síns hjá Landsvirkjun. Stjórn Samorku verður að öðru leyti óbreytt, en hana skipa því næsta árið:

Franz Árnason, Norðurorku, formaður
Hjörleifur B. Kvaran, Orkuveitu Reykjavíkur
Hörður Arnarson, Landsvirkjun
Júlíus Jónsson, Hitaveitu Suðurnesja
Páll Pálsson, Skagafjarðarveitum
Tryggvi Þór Haraldsson, Rarik
Þórður Guðmundsson, Landsneti
 
Varamenn:
Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar
Guðmundur Davíðsson, Hitaveitu Egilsstaða og Fella
Kristján Haraldsson, Orkubúi Vestfjarða

Franz Árnason var endurkjörinn formaður til tveggja ára á aðalfundi Samorku 20. febrúar 2009. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund.

Aðalfundur Samorku á föstudag, 19. febrúar

Aðalfundur Samorku verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 19. febrúar. Venjuleg aðalfundarstörf hefjast kl. 10:30 og fá aðalfundarfulltrúar senda dagskrá og önnur gögn.

Opin dagskrá aðalfundarins, Hvammi á Grand Hótel, hefst kl. 13:30:

Setning:     Franz Árnason, formaður stjórnar Samorku

Ávarp:        Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra

Erindi:        Orkunýting og afrakstur auðlindar til almennings
                  Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs
    
15:00         Kaffiveitingar í fundarlok

Orkusala til kísilmálm- og sólarkísilverksmiðju

Orkuveita Reykjavíkur hefur undirritað samningsramma um orkusölu til kísilmálm- og sólarkísilverksmiðju, sem áformað er að reisa í Ölfusi, rétt vestan Þorlákshafnar. Væntanlegur kaupandi er Thorsil ehf, félag sem kanadíska fyrirtækið Timminco Limited og Strokkur Energy ehf stofnuðu saman um verkefnið. Um er að ræða sölu á 85 megavöttum til 20 ára. Afla á orkunnar frá Hverahlíðarvirkjun og er um að ræða alla framleiðslu virkjunarinnar. Umhverfismati vegna hennar er lokið og fjármögnun hennar var tryggð að hálfu leyti með hagstæðu láni frá Evrópska fjárfestingabankanum. Sjá nánar á vef Orkuveitunnar.

Ráðherrann vanhæfur?

Umhverfisráðherra hefur synjað staðfestingar skipulagsbreytingum sem snúa að virkjunum í neðri hluta Þjórsár, að sögn þar sem þátttaka Landsvirkjunar í kostnaði sveitarfélaga við skipulagsvinnu hafi stangast á við skipulags- og byggingarlög. Annars vegar er um að ræða tillögu að breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sem ráðuneytið telur sér ekki heimilt að staðfesta. Hins vegar er um að ræða aðalskipulag Flóahrepps 2006-2018, sem ráðuneytið samþykkir að öðru leyti en því sem snýr að virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Nú liggur fyrir að sveitarfélögin og framkvæmdaaðilinn gerðu sína samninga í góðri trú. Hugsanlega er þó ástæða til að styrkja lagaheimild fyrir slíkri kostnaðarþátttöku framkvæmdaaðila í skipulagslögum, þar sem ráðherra virðist nú hafa mótað þá stefnu að túlka skort á beinu heimildarákvæði sem ígildi bannákvæðis. Við blasir að ekki verður við það fyrirkomulag unað að fámenn sveitarfélög þurfi sjálf að kosta nauðsynlega skipulagsvinnu vegna framkvæmda sem e.t.v. eru þjóðhagslega mjög hagkvæmar, þótt sjálft sveitarfélagið hafi ekki af þeim miklar beinar tekjur. Það gæti einfaldlega þýtt að ekkert yrði úr neinum slíkum framkvæmdum. En er þetta raunveruleg ástæða synjunar ráðherra? Ástæða er til að efast um það, sem og að staldra við ýmis atriði í málflutningi ráðherrans í viðtali við Fréttablaðið.

„Borðleggjandi“ en samt fjórtán mánuði á borði ráðuneytis
Umhverfisráðherra segir úrskurðinn í raun hafa verið „borðleggjandi“. Engu að síður var málið í fjórtán mánuði á borði ráðuneytisins. Ef úrskurðurinn var borðleggjandi líkt og ráðherrann heldur fram, hefði þá ekki verið nær að fella hann miklu fyrr í stað þess að skilja málið eftir í óvissu allan þennan tíma? Getur þetta talist ásættanleg stjórnsýsla?

„Almannahagsmunir“ að skapa óvissu um fjárfestingar?
Ráðherrann segir að í þágu „almannahagsmuna“ hafi sér ekki verið stætt á öðru en synjun. Eru það almannahagsmunir að setja jafnvel áætlanir um erlenda fjárfestingu og stórframkvæmdir í íslensku atvinnulífi í uppnám? Eru það almannahagsmunir að senda erlendum fjárfestum enn ein skilaboðin um að búast megi við hverju sem er þegar íslensk stjórnsýsla er annars vegar, þrátt fyrir fögur fyrirheit ríkisstjórnar – í svokölluðum stöðugleikasáttmála – um að greiða götu stórframkvæmda?

Skilur ráðherrann ekki eðli endurnýjanlegra orkulinda?
Ráðherrann talar um ráðstöfun virkjanakosta „eins og það sé ekki fleiri kynslóða að vænta á Íslandi.“ Þarna talar ráðherrann um nýtingu vatnsafls með rennslisvirkjunum eins og um námagröft sé að ræða. Ráðherrann virðist ekki skilja eðli endurnýjanlegra orkulinda, þrátt fyrir að aukin nýting þeirra sé efst á baugi í umhverfisumræðunni um veröld alla, í stað brennslu jarðefnaeldsneytis. Rætt hefur verið um að nýta orku þessara rennslisvirkjana til nýrrar orkukrefjandi starfsemi á borð við gagnaver. Slíkir aðilar falast gjarnan eftir samningum um raforkukaup til ca. 15 ára. Vatnsaflsvirkjanir eru almennt taldar hafa endingartíma til eitt hundrað ára eða lengur, og í sjálfu sér er ekkert því til fyrirstöðu að mannvirkin verði endurnýjuð til að endast miklum mun lengur en það. Vatnið rennur áfram, komandi kynslóðir munu áfram njóta teknanna af þessari grænu orku.

Ráðherrann einfaldlega á móti þessum virkjunum?
Loks segir ráðherrann, spurð um afstöðu til virkjana í neðri hluta Þjórsár, að það eigi að fara varlega í nýjar virkjanir, jarðhita og vatnsafls. Er hérna komin raunveruleg ástæða synjunarinnar? Ráðherrann hefur áður tafið þetta ferli með vísan í formsatriði er varðar auglýsingar á breyttu skipulagi. Getur hugsast að ráðherrann sé einfaldlega á móti því að farið verði í þessar framkvæmdir? Er ráðherrann þá e.t.v. vanhæfur þegar kemur að endurteknum úrskurðum um formsatriði í þessu máli?

Hreint vatn og hrein orka: Ísland stendur sig best í umhverfismálum

Ísland er í fyrsta sæti 163 ríkja á lista þar sem löndum er raðað eftir frammistöðu í umhverfismálum, en listinn er unninn af sérfræðingum við Columbia- og Yale- háskólana í Bandaríkjunum. Alls er byggt á upplýsingum um 25 viðmið og er Ísland með hæstu mögulegu einkunn í ellefu tilvikum, sem snúa einkum að miklum gæðum og framboði neysluvatns, lítilli losun gróðurhúsalofttegunda, lítilli loftmengun og lítilli (nánast engri) losun kolefnis vegna raforkuframleiðslu. Þá þykja Íslendingar standa sig vel á sviði skógræktar. Með öðrum orðum, þá eru það einkum hreina vatnið og hreina orkan sem eru lykillinn að þessari sterku stöðu Íslands.

Skýrsluna má skoða hér á vefsíðu Yale-háskóla.

Samorka mótmælir nýjum orkusköttum

Stjórn Samorku mótmælir þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja nýja skatta á raforku og heitt vatn, skatta sem draga munu úr lífsgæðum landsmanna og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, auk þess að draga úr gegnsæi verðlagningar á raforku og heitu vatni. Lágt verð á raforku og á heitu vatni til kyndingar hefur lengi verið einn af helstu kostum búsetu og fyrirtækjareksturs á Íslandi, fyrir nú utan að hér er orkan grænni en víðast hvar ef ekki alls staðar annars staðar. Flest orku- og veitufyrirtæki hafa enda verið rekin með afar lága arðsemi af þeirri grunnþjónustu sem þau sjá landsmönnum fyrir (arðsemin hefur hins vegar almennt verið hærri af raforkusölu til stóriðju). Nú hyggst ríkisstjórnin raska þessari mynd með fyrstu beinu sköttunum hérlendis á raforku og heitt vatn, sem Samorka mótmælir sem fyrr segir. Heiti frumvarpsins vísar til „umhverfis- og auðlindaskatta“, en hér er hvorugt á ferðinni. Þetta er einfaldlega ný skattheimta af orkunotkun landsmanna, til að auka tekjur ríkissjóðs.

Ennfremur lýsa samtökin áhyggjum af því að þessir nýju skattar verði enn hækkaðir þegar fram í sækir, stjórnvöld muni freistast til þess þegar einu sinni er búið að koma nýju sköttunum á. Skv 13. gr. frumvarpsins eru þessari nýju skattar á raforku og heitt vatn tímabundin ráðstöfun, sem falla á úr gildi í árslok 2012. Reynslan sýnir að óvarlegt er að treysta slíkum fyrirheitum.

Sjá umsögn Samorku um orkuskattafrumvarp.

„Megum bara nota ál frá Íslandi“

Íslenska jarðhitafyrirtækið Reykjavik Geothermal vinnur nú að nýtingu jarðhita fyrir borgina Masdar, sem verið er að reisa í olíuríkinu Abu Dhabi. Borgin á að vera kolefnishlutlaus og úrgangslaus, en auk sólarorku hyggjast forsvarsmenn verkefnisins nýta þar jarðhita, einkum til að knýja kælikerfi borgarinnar. Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur hjá Reykjavik Geothermal, fjallaði um verkefnið á haustþingi Jarðhitafélagsins í gær. Í máli hans kom fram að svo ströngum reglum er fylgt við byggingu borgarinnar, að fyrirtækið má ekki nota þar ál – til dæmis í skiltagerð – nema það sé frá Íslandi. Ál framleitt hér á landi hefur jú þá sérstöðu að það er framleitt með raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum.