Ályktun aðalfundar Samorku: Mikill arður af auðlindinni

Ályktun aðalfundar Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, 19. febrúar 2010:

Ódýrt vatn og orka – arðurinn af auðlindinni

Íslensk heimili, fyrirtæki og stofnanir búa að mun lægra verði á raforku, heitu vatni til kyndingar og úrvals neysluvatni en þekkist í flestum okkar venjulegu samanburðarlöndum. Þannig hefur þessi samanburður verið til langs tíma og verður ekki rakinn til þeirrar miklu lækkunar sem orðið hefur á gengi krónunnar. Þarna njótum við Íslendingar góðs af ríkum auðlindum landsins, en nýting innlendra endurnýjanlegra orkugjafa sparar þjóðarbúinu tugi milljarða króna ár hvert.

Í lang flestum tilvikum eru íslensk orku- og veitufyrirtæki í eigu almennings, þ.e. fyrirtækja sem rekin eru af sveitarfélögum og ríki. Öll hafa þessi fyrirtæki verið rekin með afar hóflegri arðsemi, sem hefur þó verið hærri af raforkusölu til stóriðju. Arður almennings og atvinnurekstrar af þessum ríkulegu auðlindum landsins er því fyrst og fremst í formi lágra reikninga, vegna nýtingar þessara ríkulegu náttúrugæða. Mikilvægt er að stjórnvöld séu þessa meðvituð og leggi ekki frekari skatta en orðið er á orkunotkun landsmanna.

Orkan og endurreisnin
Bein erlend fjárfesting, með tilheyrandi hagvaxtaráhrifum, hefur e.t.v. aldrei verið íslensku atvinnulífi mikilvægari en einmitt um þessar mundir. Endurnýjanleg orka er eitt helsta aðdráttaraflið í þeim efnum enda henni ætlað stórt hlutverk í endurreisn íslensks efnahagslífs, m.a. í efnahagsáætlunum stjórnvalda. Íslensk orkufyrirtæki lýsa sig reiðubúin til þátttöku í endurreisninni og munu þar leggja sitt af mörkum eins og kostur er. Þá binda fyrirtækin miklar vonir við að væntanleg afgreiðsla 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma muni stuðla að aukinni sátt um nýtingu íslenskra orkulinda, færa orkufyrirtækjunum aukin og spennandi verkefni og þannig stuðla að mikilvægri uppbyggingu í íslensku atvinnulífi.