Ráðherrann vanhæfur?

Umhverfisráðherra hefur synjað staðfestingar skipulagsbreytingum sem snúa að virkjunum í neðri hluta Þjórsár, að sögn þar sem þátttaka Landsvirkjunar í kostnaði sveitarfélaga við skipulagsvinnu hafi stangast á við skipulags- og byggingarlög. Annars vegar er um að ræða tillögu að breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sem ráðuneytið telur sér ekki heimilt að staðfesta. Hins vegar er um að ræða aðalskipulag Flóahrepps 2006-2018, sem ráðuneytið samþykkir að öðru leyti en því sem snýr að virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Nú liggur fyrir að sveitarfélögin og framkvæmdaaðilinn gerðu sína samninga í góðri trú. Hugsanlega er þó ástæða til að styrkja lagaheimild fyrir slíkri kostnaðarþátttöku framkvæmdaaðila í skipulagslögum, þar sem ráðherra virðist nú hafa mótað þá stefnu að túlka skort á beinu heimildarákvæði sem ígildi bannákvæðis. Við blasir að ekki verður við það fyrirkomulag unað að fámenn sveitarfélög þurfi sjálf að kosta nauðsynlega skipulagsvinnu vegna framkvæmda sem e.t.v. eru þjóðhagslega mjög hagkvæmar, þótt sjálft sveitarfélagið hafi ekki af þeim miklar beinar tekjur. Það gæti einfaldlega þýtt að ekkert yrði úr neinum slíkum framkvæmdum. En er þetta raunveruleg ástæða synjunar ráðherra? Ástæða er til að efast um það, sem og að staldra við ýmis atriði í málflutningi ráðherrans í viðtali við Fréttablaðið.

„Borðleggjandi“ en samt fjórtán mánuði á borði ráðuneytis
Umhverfisráðherra segir úrskurðinn í raun hafa verið „borðleggjandi“. Engu að síður var málið í fjórtán mánuði á borði ráðuneytisins. Ef úrskurðurinn var borðleggjandi líkt og ráðherrann heldur fram, hefði þá ekki verið nær að fella hann miklu fyrr í stað þess að skilja málið eftir í óvissu allan þennan tíma? Getur þetta talist ásættanleg stjórnsýsla?

„Almannahagsmunir“ að skapa óvissu um fjárfestingar?
Ráðherrann segir að í þágu „almannahagsmuna“ hafi sér ekki verið stætt á öðru en synjun. Eru það almannahagsmunir að setja jafnvel áætlanir um erlenda fjárfestingu og stórframkvæmdir í íslensku atvinnulífi í uppnám? Eru það almannahagsmunir að senda erlendum fjárfestum enn ein skilaboðin um að búast megi við hverju sem er þegar íslensk stjórnsýsla er annars vegar, þrátt fyrir fögur fyrirheit ríkisstjórnar – í svokölluðum stöðugleikasáttmála – um að greiða götu stórframkvæmda?

Skilur ráðherrann ekki eðli endurnýjanlegra orkulinda?
Ráðherrann talar um ráðstöfun virkjanakosta „eins og það sé ekki fleiri kynslóða að vænta á Íslandi.“ Þarna talar ráðherrann um nýtingu vatnsafls með rennslisvirkjunum eins og um námagröft sé að ræða. Ráðherrann virðist ekki skilja eðli endurnýjanlegra orkulinda, þrátt fyrir að aukin nýting þeirra sé efst á baugi í umhverfisumræðunni um veröld alla, í stað brennslu jarðefnaeldsneytis. Rætt hefur verið um að nýta orku þessara rennslisvirkjana til nýrrar orkukrefjandi starfsemi á borð við gagnaver. Slíkir aðilar falast gjarnan eftir samningum um raforkukaup til ca. 15 ára. Vatnsaflsvirkjanir eru almennt taldar hafa endingartíma til eitt hundrað ára eða lengur, og í sjálfu sér er ekkert því til fyrirstöðu að mannvirkin verði endurnýjuð til að endast miklum mun lengur en það. Vatnið rennur áfram, komandi kynslóðir munu áfram njóta teknanna af þessari grænu orku.

Ráðherrann einfaldlega á móti þessum virkjunum?
Loks segir ráðherrann, spurð um afstöðu til virkjana í neðri hluta Þjórsár, að það eigi að fara varlega í nýjar virkjanir, jarðhita og vatnsafls. Er hérna komin raunveruleg ástæða synjunarinnar? Ráðherrann hefur áður tafið þetta ferli með vísan í formsatriði er varðar auglýsingar á breyttu skipulagi. Getur hugsast að ráðherrann sé einfaldlega á móti því að farið verði í þessar framkvæmdir? Er ráðherrann þá e.t.v. vanhæfur þegar kemur að endurteknum úrskurðum um formsatriði í þessu máli?