Orkusala til kísilmálm- og sólarkísilverksmiðju

Orkuveita Reykjavíkur hefur undirritað samningsramma um orkusölu til kísilmálm- og sólarkísilverksmiðju, sem áformað er að reisa í Ölfusi, rétt vestan Þorlákshafnar. Væntanlegur kaupandi er Thorsil ehf, félag sem kanadíska fyrirtækið Timminco Limited og Strokkur Energy ehf stofnuðu saman um verkefnið. Um er að ræða sölu á 85 megavöttum til 20 ára. Afla á orkunnar frá Hverahlíðarvirkjun og er um að ræða alla framleiðslu virkjunarinnar. Umhverfismati vegna hennar er lokið og fjármögnun hennar var tryggð að hálfu leyti með hagstæðu láni frá Evrópska fjárfestingabankanum. Sjá nánar á vef Orkuveitunnar.