Tenging við Evrópu skoðuð af alvöru

Ályktun aðalfundar Samorku, 21. febrúar 2014:

Tenging við raforkukerfi Evrópu verði skoðuð af alvöru
Tenging Íslands við raforkukerfi Evrópu hefur nú verið til skoðunar um nokkurra ára skeið. Í júní í fyrra skilaði ráðgjafarhópur iðnaðar- og viðskiptaráðherra skýrslu um raforkustreng til Evrópu þar sem kemur fram að „vísbendingar [séu] um að slík framkvæmd gæti reynst þjóðhagslega arðsöm að nokkrum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef tækist að semja við gagnaðila um hagstæð kjör á seldri orku með tiltölulega miklu öryggi og til nokkuð langs tíma.“ Ráðgjafarhópurinn lagði einróma til að könnunarviðræður verði hafnar við breska hagsmunaaðila til þess að skýra betur hvort hægt sé að ná samkomulagi um raforkusölu um sæstreng og í framhaldi af því meta þjóðhagsleg áhrif og áhættu verkefnisins.
 
Verkefnið yrði stærsta og flóknasta fjárfesting í sögu landsins og gæti haft mikil jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Fjölmörgum áleitnum spurningum er hins vegar enn ósvarað, t.d. hvaðan kæmi orkan, áhrif á raforkuverð á Íslandi og áhrif á starfsumhverfi orkufreks iðnaðar. Samorka hvetur til þess að málið verði skoðað af mikilli alvöru og forsendur verkefnisins treystar áður en ákvörðun er tekin um hvort ráðast eigi í það.

Raunhæfar kröfur til fráveiturekstrar
Dæmi eru um að hér séu kröfur til meðhöndlunar á fráveituvatni mun stífari en þekkjast í okkar samanburðarlöndum, en þó með afar takmarkað umhverfisverndargildi. Þannig eru dæmi um 250% stífari kröfur er varða hreinsun á fráveituvatni sem losa á í yfirborðsvatn, en gerðar eru til hreinleika baðvatns í Evrópusambandinu. Samorka leggur áherslu á mikilvægi þess að hér séu gerðar raunhæfar kröfur til þessa rekstrar, þannig að uppfyllt verði eðlileg skilyrði en ekki gerðar kröfur að nauðsynjalausu sem hafa í för með sér fjárfestingar umfram eðlilega fjárfestingargetu veitufyrirtækja og sveitarfélaga.

Loks ítrekar Samorka mikilvægi þess að sátt náist um rammaáætlun og um nauðsynlega uppbyggingu á flutningskerfi raforku.

Guðrún Erla, Kristján og Þórður endurkjörin í stjórn Samorku

Á aðalfundi Samorku voru endurkjörin til setu í stjórn samtakanna þau Guðrún Erla Jónsdóttir framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur, Kristján Haraldsson orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða og Þórður Guðmundsson forstjóri Landsnets. Þá var Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku endurkjörinn sem varamaður í stjórn. Öll voru þau kjörin til tveggja ára.

Áfram sitja jafnframt í stjórn, kjörnir til tveggja ára á aðalfundi 22. febrúar 2013:

Aðalmenn:
Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, formaður stjórnar
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Júlíus J. Jónsson, forstjóri HS Veitna

Varamenn:
Dagur Jónsson, vatnsveitustjóri Vatnsveitu Hafnarfjarðar
Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella

Jarðlagnanámskeið Samorku 2014

Jarðlagnanámskeið Samorku var haldið mánudaginn 17. febrúar síðastliðinn. Námskeiðið var vel sótt, yfir 60 manns tóku þátt, og komust mun færri að en vildu.

Samorka vill koma á framfæri þökkum, bæði til þátttakenda, og til leiðbeinenda fyrir framúrskarandi fyrirlestra. Ennfremur þakkar Samorka Orkuveitu Reykjavíkur fyrir góða samvinnu við að halda námskeiðið.

Vegna mikillar eftirspurnar er nú til skoðunar að halda námskeiðið aftur á næstunni og er frekari fregna að vænta af því.

Fyrir hönd Samorku

Sigurjón N. Kjærnested – Framkvæmdastjóri veitusviðs

Aðalfundur Samorku á föstudag

Aðalfundur Samorku verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 21. febrúar. Venjuleg aðalfundarstörf hefjast kl. 11:00, en skráning kl. 10:30.

13:30 Opin dagskrá aðalfundar Samorku

Setning:    Tryggvi Þór Haraldsson, formaður Samorku

Ávarp:       Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra
            
Erindi:       Orkugeirinn, veitufyrirtæki og tækniþekking á Íslandi
                   Guðrún A. Sævarsdóttir, forseti tækni- og verkfræðideildar     
                   Háskólans í Reykjavík

Erindi:       Raunhæfar kröfur til fráveiturekstrar
                   Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna, Eflu verkfræðistofu

15:00        Kaffiveitingar í fundarlok

Ljósastauraútboð Samorku

Föstudaginn 14. febrúar voru opnuð tilboð í ljósastaura sem Samorka stóð að fyrir hönd dreifiveitna rafmagns. Sjö boð bárust og voru upphæðirnar frá kr. 88 milljónum til 120 milljóna. Unnið er að yfirferð og samanburði á tilboðunum og verður fljótlega gengið til samninga við þann bjóðanda sem best kemur út úr þeirri skoðun.

Landsnet og PCC semja um orkuflutning fyrir kísilver á Bakka

Landsent hefur undirritað samkomulag um raforkuflutninga við PCC BakkiSilicon hf., dótturfyrirtæki þýska félagsins PCC SE, sem hyggst byggja kísilver á Bakka við Húsavík. Þetta er fyrsti samningurinn sem Landsnet gerir vegna fyrirhugaðrar iðnaðaruppbyggingar á Bakka. Áætluð aflþörf fyrsta áfanga verksmiðunnar er 52 megavött (MW) og miðast samkomulagið við að starfsemin hefjist árið 2017. Sjá nánar á vef Landsnets.

Menntafyrirtæki ársins?

Samtök atvinnulífsins (SA), Samorka og önnur aðildarfélög SA efna til Menntadags atvinnulífsins mánudaginn 3. mars 2014 á Hilton Reykjavík Nordica kl. 12.30-16.30. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu en þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag.

Efling menntunar á öllum skólastigum og framhaldsfræðslu er brýnt hagsmunamál fyrirtækja og eykur samkeppnishæfni þeirra. Á Menntadeginum munu forsvarsmenn fjölbreyttra fyrirtækja fjalla um mikilvægi menntunar starfsfólks og nauðsynlegar breytingar á menntakerfinu. Greint verður frá könnun um viðhorf framhaldsskólanema til bóknáms og verknáms og erlendar fyrirmyndir skoðaðar.

Á menntadeginum verða Menntaverðlaun atvinnulífsins veitt í fyrsta sinn til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki til að vera tilnefnt annað hvort til verðlauna sem Menntafyrirtæki ársins eða Menntasproti ársins. Þrjú fyrirtæki verða tilnefnd í hvorum hópi.

Menntafyrirtæki ársins:
Fyrirtæki sem verða tilnefnd til verðlauna sem Menntafyrirtæki ársins þurfa að leggja áherslu á mikilvægi menntunar. Í fyrirtækinu verður að vera til staðar skýr mennta- og fræðslustefna og henni fylgt eftir. Við mat á tilnefningum verða gæði fræðslunnar metin og kannað hvort mennta- og fræðslustefnan hafi eflt menntun innan fyrirtækisins og jafnframt aukið  samkeppnisforskot þess.

Menntasproti árins:
Verkefni eða fyrirtæki sem verða tilnefnd til verðlauna sem Menntasproti ársins þurfa að hafa aukið áherslu á fræðslu- og menntamál innan fyrirtækisins. Við mat á tilnefningum verður skoðað hvort farnar hafi verið nýjar leiðir við eflingu menntunar innan fyrirtækisins og hver aukningin er í þátttöku starfsmanna.

Gerð verða stutt kynningarmyndbönd um fyrirtækin sex sem verða tilnefnd til Menntaverðlauna atvinnulífsins. Þar verður sérstaða þeirra dregin fram og fyrirmyndarstarf þeirra kynnt í aðdraganda Menntadagsins og á deginum sjálfum. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, mun tilkynna um sigurvegara á Menntadeginum og afhenda verðlaun í hvorum flokki fyrir sig.

Vinsamlegast sendið tilnefningar í tölvupósti á sa@sa.is ekki síðar en 26. janúar 2014, merkt Menntadagur – tilnefning.