Heimsþing Alþjóða jarðhitasambandsins 2020 haldið á Íslandi!

Stjórn Alþjóða jarðhitasambandsins (IGA) hefur ákveðið að World Geothermal Congress 2020 – heimsþing sambandsins sem haldið er á 5 ára fresti – verði haldið á Íslandi. Um er að ræða langstærsta viðburðinn í jarðhitaheiminum og einn stærsta ráðstefnuviðburð sem haldinn hefur verið á Íslandi.

Það var Iceland Geothermal klasasamstarfið sem leiddi vinnu við umsóknarferlið fyrir Íslands hönd og Samorka og jarðhitasamfélagið allt á Íslandi studdu við umsóknina. Forseti Íslands, ríkisstjórn og Reykjavíkurborg studdu einnig við umsóknina. Dr.Bjarni Pálsson, fyrrv. formaður Jarðhitafélags Íslands og Rósbjörg Jónsdóttir frá Iceland Geothermal kynntu og fylgdu umsókn Íslands eftir á stjórnarfundi Alþjóða jarðhitasambandsins í mars síðastliðnum.

Það er mikill viðurkenning og árangur að Ísland skuli hafa orðið fyrir valinu, í samkeppni við lönd eins og t.d Þýskaland, Bandaríkin og Chile. Stjórn IGA kaus um hvaða land fengi að halda heimsþingið og var kosið með útsláttarfyrirkomulagi, þar sem Ísland var valið fram yfir Þýskaland í lokaumferðinni.

Samorka óskar Iceland Geothermal og jarðhitasamfélaginu öllu á Íslandi til hamingju með þennan tímamótaáfanga.