Metár í heitavatnsnokun

Árið 2015 var metár í vatnsnotkun hjá hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Heildarnotkunin jókst um 10% frá árinu áður og er aukningin milli ára sú mesta sem hefur sést frá aldamótum. Vatnsnoktunin árið 2015 var tæplega 83 milljónir rúmmetra.

Guðfinnur og Lovísa ráðin til Samorku

Guðfinnur Þór Newman og Lovísa Árnadóttir hafa verið ráðin í ný störf hjá Samorku.

Guðfinnur var ráðinn í nýtt starf sérfræðings í greiningu hjá Samorku. Guðfinnur, sem er viðskiptafræðingur að mennt og hefur lokið prófi í verðbréfamiðlun, hefur áður m.a. starfað hjá Bandalagi háskólamanna, á skrifstofu borgarhagfræðings hjá Reykjavíkurborg og hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Guðfinnur hóf störf hjá Samorku í desember.

Lovísa var ráðin í nýtt starf upplýsingafulltrúa Samorku. Hún er með B.A. gráðu í bókmenntafræði og M.A. gráðu í blaða- og fréttamennsku. Lovísa hefur áður m.a. starfað sem markaðsráðgjafi hjá Birtingahúsinu og hjá RÚV ohf. sem fréttamaður, dagskrárgerðarmaður, íþróttafréttamaður o.fl. Lovísa hóf störf hjá Samorku í janúar.

Minna straumleysi ef styrkingar flutningskerfis hefðu verið komnar til framkvæmda

Tjón Landsnets vegna fárviðrisins á dögunum nemur um 120 milljónum króna. Þar af eru um 90 milljónir vegna Vestfjarða. Notendur hefðu orðið fyrir minna straumleysi í fárviðrinu ef kerfisstyrkingar sem Landsnet vill ráðast í hefðu verið komnar til framkvæmda. Þannig voru það eingöngu eldri flutningslínur með trémöstrum sem skemmdust.

Sjá nánar á vef Landsnets.

Bein nýting jarðhita á Parísarfundinum – Upptaka af fundi, erindi og fleira

Jarðvarmaklasinn í samstarfi við utanríkisráðuneytið stóðu fyrir fundi um beina nýtingu jarðhita á Parísarfundinum um loftslagsmál. Þar fluttu erindi: Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra; Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri; Hildigunnur Thorsteinsson, framkvæmdastjóri þróunar Orkuveitu Reykjavíkur; Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. Fundarstjóri var Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Myndband af fundinum, dagskrá hans og erindi má nálgast hér.

Nýting orkulinda Íslands dregur úr gróðurhúsalofttegundum

„Raforkan á Íslandi er nánast eingöngu unnin með vatnsafli og jarðvarma og sú vinnsla hefur í för með sér margfalt minni losun gróðurhúsalofttegunda á orkueiningu en þegar jarðefnaeldsneyti er brennt. Þannig er t.d. losun frá Fljótsdalsstöð (Kárahnjúkavirkjun) um 0,3% af losun frá kolaorkuveri og um 0,6% ef miðað er við jarðgas.“ Þetta kemur m.a. fram í Fréttablaðsgrein Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar. Hann bendir á að aukin nýting vatnsafls og jarðvarma á Íslandi, í stað orkuframleiðslu með brennslu jarðefna annars staðar, geti þannig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og sé því ein af leiðunum sem þarf að nota til að ná lokamarkmiði loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Sparnaður í losun koldíoxíðs nemur 140 milljónum tonna á einni öld með nýtingu jarðhita í stað olíu

Orkustofnun hefur unnið að því að meta sparnað í losun koldíoxíðs með nýtingu jarðhita stað olíu – í húshitun, aðra varmanotkun og raforkuframleiðslu. Tímabilið sem skoðað var frá 1914 til 2014 og nemur uppsafnaður sparnaður 140 milljónum tonna af koldíoxíði. Tveir þriðju hlutar sparnaðarins er framlag hitaveitna á Íslandi í eina öld.

Sjá nánar á vef Orkustofnunar.

Alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita

Stofnaður hefur verið alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita, með aðild á fjórða tug ríkja og stofnana, þar með talið Íslands, Orkustofnunar, ÍSOR og Jarðhitaskóla SÞ. Tilkynnt var um stofnun hópsins í tengslum við ríkjaráðstefnu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París. Markmið samstarfsins er að auka hlutdeild jarðhita í orkubúskap heimsins og auka þannig hlutfall sjálfbærrar orkunýtingar.

Nánari upplýsingar eru á vef utanríkisráðuneytisins.