Mikilvægi orku- og veitugeirans áréttað

Á aðalfundi Samorku fimmtudaginn 2. mars, var ályktað um að árétta fjölþætt mikilvægi orku- og veitufyrirtækja fyrir íslenskt samfélag.

Starfsemi fyrirtækjanna er ein af grundvallarstoðum íslensks samfélags og frekari sjálfbærrar þróunar þess. Mikilvægt er að stjórnvöld gefi fyrirtækjunum svigrúm til að sinna áfram því mikilvæga og fjölþætta hlutverki að nýta auðlindir landsins á ábyrgan hátt til að standa undir framtíðarþörfum landsmanna.

Umhverfisábati grænnar orku og sjálfbærs veitureksturs er ómetanlegur, einkum nú þegar glímt er við hlýnun loftslags jarðar. Íslensk rafmagnsframleiðsla og húshitun skipar okkur í fremstu röð í heiminum í umhverfisvænni orkuframleiðslu og óvíst er að í nokkru öðru landi eigi jafn hátt hlutfall íbúa traustan aðgang að ómeðhöndluðu neysluvatni. Ennfremur hefur undanfarna áratugi verið lyft grettistaki í fráveitumálum landsmanna, en góð fráveita er eitt af stærstu umhverfismálum samtímans. Ekkert af þessu hefur komið af sjálfu sér, heldur hefur frumkvöðlastarf, markviss uppbygging, eldmóður og framsýni gert það að verkum að orku- og veitugeirinn hefur sinnt þörfum landsmanna um árabil.

Um þetta verður að standa vörð. Orku- og veitufyrirtækin eru meginstoð heimila og fyrirtækja í landinu og munu áfram spila stóran þátt í uppbyggingu samfélagsins. Nú blasir einnig við þjóðinni tækifæri til að taka stórt framfaraskref í umhverfis- og orkumálum; það er að rafvæða samgöngur að svo miklu leyti sem unnt er.

Fagmennska í starfi stjórnvalda skapar fyrirsjáanlegt starfsumhverfi sem er fyrirtækjunum nauðsynlegt til að sinna hlutverki sínu í þessu mikilvæga verkefni og öðrum sem þau inna af hendi í þágu heimila og fyrirtækja í landinu.