Snjöll raforkukerfi og orkuskipti í samgöngum á ársfundi Samorku

Fjallað verður um snjöll raforkukerfi til framtíðar og fjölþættan ávinning af orkuskiptum í samgöngum á ársfundi Samorku, sem haldinn verður á Icelandair Hótel Natura (áður Loftleiðir) föstudaginn 19. febrúar 2016.

Fundurinn er opinn öllum en vinsamlegast tilkynnið þátttöku með því að fylla út skráningareyðublaðið, í netfangið skraning@samorka.is eða í síma 588 4430, eigi síðar en 16. febrúar nk.
13.00 Ársfundur Samorku, Víkingasal

Ávarp formanns
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur

Ávarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra 
Ragnheiður Elín Árnadóttir

Snjallmælar og snjöll raforkukerfi til framtíðar 
Jakob S. Friðriksson, viðskiptaþróun, Orkuveitu Reykjavíkur

Orkuskipti í samgöngum – fjölþættur ávinningur 
Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs

14.30 Kaffiveitingar í fundarlok

Fundarstjóri: Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri, Orkuveitu Reykjavíkur

Þættirnir Orka landsins tilnefndir til Edduverðlauna

Þættirnir Orka landsins, sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni N4 vorið og sumarið 2015, hafa verið tilnefndir til Eddu verðlauna í flokki Frétta- og viðtalsþátta. Þættirnir, sem voru í umsjón Hildu Jönu Gísladóttur og unnir meðal annars í samstarfi við Samorku, fjölluðu um vatn, raforku, jarðvarma og eldsneyti. Athyglinni er ekki síst beint að starfsemi orku- og veitufyrirtækja og umfjöllunin höfð á „mannamáli“.

Þættirnir voru sjö talsins og má horfa á þá alla á heimasíðu N4. Aðrar tilnefningar til Edduverðlauna má finna á heimasíðu íslensku sjónvarps- og kvikmyndaverðlaunanna.

Samorka óskar N4 til hamingju með tilnefninguna.

Græn raforka til áliðnaðar sparar yfir 6 milljónir tonna á ári í losun

Loftslagsmálin eru ofarlega á baugi þessi misserin, ekki síst í kjölfar loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París. Stærsta viðfangsefnið á heimsvísu er að draga úr brennslu jarðefnaeldsneyta á borð við olíu og kol og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa á borð við vatnsafl, jarðvarma og vindorku. Hér á landi er staðan mjög sérstök í þeim efnum, þar sem nær öll raforkuframleiðsla og húshitun grundvallast á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Ýmis tækifæri eru þó til að gera enn betur, ekki síst á sviði samgangna.

Athyglisvert er að bera losun tengda stóriðju, að meðtalinni losun vegna orkuframleiðslunnar, saman við meðaltalslosun í heiminum af sömu sökum. Álframleiðsla á Íslandi, á grundvelli raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, sparar á hverju ári losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu sem nemur um sex milljónum tonna af koldíoxíði (CO2), sé miðað við meðaltalslosun raforkuframleiðslu í heiminum til álframleiðslu, að meðtalinni raforkuframleiðslu. Árleg heildarlosun Íslands er um 4,5 milljónir tonna. Sparnaðurinn nemur því meiru en allri losun Íslands.

Samkvæmt Alþjóðaorkumálstofnuninni (IEA) er losun á koldíoxíði við álframleiðslu á Íslandi 0,1 tonn á hvert tonn af áli, samanborið við 7,6 tonn að meðaltali á heimsvísu, að meðtalinni losun vegna raforkuframleiðslu.

Meðal orkusamsetning vegna álframleiðslu á heimsvísu er með eftirfarandi hætti skv. IEA:  kol (58%), endurnýjanlegir orkugjafar (31%), gas (9,7%), kjarnorka (1,2%) og olía (0,1%). Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa 100% í álframleiðslu.

Fagfundur 2016 á Ísafirði

Fagfundur raforkumála 2016 verður afar fjölbreyttur og áhugaverður, með fjölda áhugaverðra fyrirlestra um allt það sem efst er á baugi innan raforkugeirans nú um stundir. Það eru vissulega áhugaverðir tímar sem við erum að upplifa í vinnunni okkar alla daga með gríðarlega fjölbreyttum tækniframförum á öllum sviðum raforkuiðnaðarins og áskorunum í umhverfismálunum. Dagskráin mun taka mið af öllum þessum þáttum og því verða fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr.

Dagskrá og fyrirkomulag Fagfundarins er í vinnslu og með því að smella hér má sjá hvernig dagskrárgerð vindur fram.

Ferðamenn boðnir velkomnir til lands endurnýjanlegrar orku

Landsvirkjun hefur látið setja upp auglýsingaskilti í flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem ferðamenn eru boðnir velkomnir til lands endurnýjanlegrar orku. Á vef fyrirtækisins kemur fram að samstarf orkuiðnaðar og ferðaþjónustu hafi verið farsælt og að full ástæða sé til að telja að uppbygging ferðaþjónustu og orkuiðnaðar muni áfram geta orðið í góðri samvinnu, til hagsbóta fyrir báðar atvinnugreinar og Ísland. Minnt er á orkusýningar virkjana, Bláa lónið, Jarðböðin við Mývatn, Kárahnjúkastíflu o.fl. mannvirki sem alls hundruðir þúsunda heimsækja ár hvert. Einnig er minnt á niðurstöður í könnun Iceland Naturally um mjög svo jákvæð áhrif endurnýjanlegrar orku á ímynd bandarísks almennings af Íslandi og á líkur þess að þarlendir heimsæki Ísland. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Norræna vatnsveituráðstefnan 2016 – Innsending ágripa úr erindum í fullum gangi

Fagaðilar á sviði vatnsveitna eru hvattir til að senda inn erindi á Norrænu vatnsveituráðstefnuna, en innsending ágripa úr erindum fyrir ráðstefnuna er nú í fullum gangi og fer fram hér á heimasíðu ráðstefnunnar. Frestur til þess að senda inn ágrip úr erindum er 29. janúar – ef áhugi er fyrir því að senda inn ágrip úr erindi, en það næst ekki fyrir tímafrestinn, þá er hægt að láta vita af því í póstfangið sigurjon@samorka.is. Call for abstracts fyrir ráðstefnuna má nálgast það hér:

10. Norræna vatnsveituráðstefnan (The 10th Nordic drinking water conference) verður haldin á Íslandi í ár, dagana 28.-30. september í Hörpu. Ráðstefnan er haldin á tveggja ára fresti og skiptast norðurlöndin á að halda hana. Í ár er hún skipulögð af Samorku í samstarfi önnur norræn samtök vatnsveitna. Á dagskrá verða erindi, vinnustofur, vísindaferð og fleira tengt öllum helstu málum er varða starfsemi vatnsveitna.

Græna raforkan gullkista Norðurlandanna

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Græn raforka gæti orðið næsta stóra útflutningsævintýri Norðurlandanna að mati samtaka raforkufyrirtækja á hinum Norðurlöndunum, sem reyna nú í sameiningu að tryggja bætt aðgengi að evrópskum markaði gegnum þýska flutningskerfið. Á evrópskan mælikvarða er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hátt í öllum ríkjunum og nýlega gaf Alþjóða orkumálastofnunin það út að Norðurlöndin væru eins konar grænt orkuver Evrópu til framtíðar. Að mati norrænu samtakanna er græna raforkan því sannkölluð gullkista Norðurlandanna og nauðsynlegt að efla flutningskerfin til að hægt sé að koma henni á markað, t.d. með aukinni uppbyggingu sæstrengja.

Evrópusambandið hefur lengi haft stefnu um sameiginlegan markað með raforku en víðast hvar vantar töluvert uppá í þeim efnum. Norðurlöndin fjögur – Noregur, Danmörk, Svíþjóð og Finnland – hafa hins vegar verið þarna í fararbroddi með öflugum tengingum sín á milli og raunverulegum samnorrænum raforkumarkaði. Þá hafa verið lagðir sæstrengir frá Norðurlöndum til annarra Evrópuríkja og fleiri slíkir eru í bígerð, m.a. frá Noregi til Bretlands.

Norðurlöndin hafa hins vegar árum saman kvartað undan lélegum aðgangi að þýskum raforkumarkaði sökum veiks flutningskerfis raforku í Norður-Þýskalandi og takmarkaðs aðgangs að því. Hafa samtökin hvatt stjórnvöld sinna ríkja til að hlutast til um bættan aðgang, jafnframt því að beina slíkum óskum til evrópskra eftirlitsaðila. Takmarkað aðgengi að þýskum raforkumarkaði kostaði Norðurlöndin um 500 milljónir danskra króna í töpuðum útflutningstekjum á liðnu ári, eða um 9,5 milljarða ÍSK, miðað við vannýtta flutningsgetu ríkjanna til Þýskalands.

Á Íslandi og í Noregi er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa um 100% í raforkuvinnslu. Þetta hlutfall er um 62% í Svíþjóð, 43% í Danmörku og 31% í Finnlandi. ESB-meðaltalið er rúm 25%.

Hagkvæmni fólgin í raforkuflutningskerfi í Norður-Atlantshafi

Möguleikar Íslands og Færeyja til útflutnings endurnýjanlegrar raforku til Bretlands og Noregs og um leið tengjast stærra raforkuflutningskerfi í Evrópu eru til umfjöllunar í nýrri skýrslu NAEN (North-Atlantic Energy Network), sem Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti í dag á ráðstefnunni Arctic Frontiers í Tromsø í Noregi.

Með lagningu sæstrengs milli Íslands, Skotlands, Færeyja og Hjaltlandseyja væri hægt að flytja orku frá Íslandi til þessara landa og áfram til Evrópu. Möguleg samlegðaráhrif gætu verið þau að raforka frá vatnsafli flytjist frá Íslandi á sumrin en vindorka frá Færeyjum og Hjaltlandseyjum á veturna.

Frekari rannsóknir og vinna við að kortleggja möguleg svæði til nýtingar endurnýjanlegrar orku ættu að skila NAEN löndunum töluverðum ávinningi og gagnast allri Evrópu.

Skýrslan er samstarfsverkefni fulltrúa frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Hjaltlandseyjum og hefur aukið mjög upplýsingamiðlun þekkingu þátttökuaðila, stofnana og viðkomandi svæða.  Nánar er fjallað um skýrsluna á vef Orkustofnunar.

Rafmagn – einn mikilvægasti þáttur daglegs lífs

Morgunblaðsgrein Eiríks Hjálmarssonar, formanns kynningarhóps Samorku:

Rafmagnið er á meðal mikilvægustu þátta daglegs lífs. Við á norðlægum slóðum kunnum hvað best að meta það á dimmum og köldum vetrum. Í dag, 23. janúar, er á Norðurlöndum og raunar víðar í Evrópu haldið upp á árlegan rafmagnsdag þegar sjónum er beint að því sem rafmagnið, þessi ósýnilega nauðsynjavara, hefur gert okkur mögulegt.

Við upphaf 20. aldar tóku húsverkin hjá hverri fjölskyldu um 54 klukkutíma á viku. Nærri allur vökutími fólks fór í að elda, þrífa og kynda og þetta er náttúrlega fyrir utan vinnutíma fólks. Undir lok aldarinnar tóku þessi störf 15 klukkutíma á viku, þökk sé heimilistækjunum öllum, sem knúin eru rafmagni. Rafmagnið hefur þannig fært okkur einfaldara, öruggara og ylríkara líf þar sem ljóss nýtur á dimmustu vetrardögum.

Það sem meira máli skiptir, þá hefur rafmagnið fært okkur betri heilsu og meira langlífi. Það þarf ekki annað en að líta til þeirra rafknúnu lækningatækja, sem bjargað hafa mörgu mannslífinu; öndunartækja, hjartastuðtækja og fjölbreyttra mælitækja sem gera læknum og hjúkrunarfólki starfið léttara og skilvirkara. Við sjálf getum líka fylgst betur með eigin heilsu með hjálp rafknúinna blóðþrýstingsmæla og hjartsláttarteljara.

Norðurlandabúar hafa notið rafmagns frá því um 1870 og Íslendingar frá því við upphaf 20. aldar. Í fyrstunni lýsti það upp vinnustaði, heimili og götur en nú knýr það upplýsingakerfin okkar, iðnaðinn, heimilistækin og í auknum mæli farartækin. Samfélag dagsins reiðir sig algjörlega á rafmagn og ekki bara til að létta störfin heldur ekki síður til afþreyingar og samskipta.

Orkufyrirtækin á Norðurlöndum leika lykilhlutverk í efnahag hvers lands. Hvert ár er milljörðum varið til fjárfestinga í framleiðslu rafmagns, flutningsvirki og dreifikerfin. Það í sjálfu sér skapar störf auk þess að gera aðgang fólks að rafmagni á viðráðanlegu verði greiðari.

Í síauknum mæli er rafmagnið sem framleitt er á Norðurlöndum grænt og frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Nú þegar teljast 2/3 hlutar raforkuframleiðslunnar á Norðurlöndum endurnýjanlegir og 88% er hlutfall kolefnishlutlausrar framleiðslu. Á Íslandi er þetta 100%. Þarna eru Norðurlönd í fararbroddi.

 

Mikil fjárfesting í nýsköpun í orkutengdum iðnaði

Áhugaverðar upplýsingar koma fram á vefnum The Nordic Web, sem sérhæfir sig í umfjöllun um nýsköpunarfyrirtæki á Norðurlöndum. Þar kemur fram að mikil aukning var í fjárfestingu í þessum flokki hérlendis árið 2015 og nam hún alls um 194 milljónum Bandaríkjadala, eða ríflega 25 milljörðum króna. Ísland er þar á svipuðum slóðum og Finnland (sem er með 198 milljónir dala) en talsvert langt á undan Noregi sem var með 85 milljónir USD. Svíþjóð trónir á toppnum með 1,1 milljarð dala og Danmörk fylgir á eftir með 275 milljónir.

Orkutengdur iðnaður í lykilhlutverki
Þrjár fjárfestingar skipta sköpum varðandi þessa miklu fjárfestingu í nýsköpun hér á landi og þar af eru þær tvær stærstu i orkutengdum iðnaði. Þetta eru Verne Global með 98 milljón dala fjárfestingu og Carbon Recycling International með 46 milljón dali, auk síðan CCP með 30 milljón dali. Mikil tækifæri virðast því liggja í nýsköpun í orkutengdum iðnaði hérlendis.