Landsvirkjun og Thorsil gera rafmagnssamning

Landsvirkjun og Thorsil hafa skrifað undir samning um afhendingu á rafmagni til kísilvers Thorsil í Helguvík í Reykjanesbæ. Um er að ræða allt að 55 megavött af afli eða sem samsvarar 460 gígavattstundum af orku á ári. Afhending hefst árið 2018 þegar ráðgert er að gangsetja kísilverið.

Orkan verður afhent í áföngum úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar. Sem kunnugt er hefur fyrirtækið nú tvær virkjanir í byggingu, stækkun Búrfellsvirkjunar og jarðvarmavirkjun að Þeistareykjum.

Meira á síðu Landsvirkjunar.

Íslenskar jarðvísindakonur heiðraðar

Hrefna Kristmannsdóttir og Ragna Karlsdóttir hlutu á dögunum brautryðjendaverðlaun alþjóðasamtakanna Women in Geothermal, WING, fyrir framlag sitt til útbreiðslu jarðhitanotkunar í heiminum. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti þeim verðlaunin í móttöku samtakanna á jarðhitaráðstefnunni Iceland Geothermal Conference, sem fram fór í Reykjavík dagana 26. -28. apríl.

Hrefna var fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsprófi í jarðfræði. Það gerði hún frá Oslóarháskóla árið 1970. Hún átti langan starfsferil sem jarðefnafræðingur á Orkustofnun og átti þátt í að þróa efnafræðilegar aðferðir við mat á jarðhitaholum sem nú er beitt við allar slíkar boranir. Hrefna hefur verið mikilvirk á vísindasviðinu og skrifað um 100 greinar sem birst hafa í vísindatímaritum.

Ragna Karlsdóttir er jarðeðlisfræðingur sem einnig starfaði lengi hjá Orkustofnun og nú síðari ár hjá ÍSOR. Þar hóf hún störf árið 1970 og hefur komið að rannsóknum, líkanagerð og auðlindamati á öllum þeim háhitasvæðum sem nýtt eru hér á landi og flestum lághitasvæðunum með einhverjum hætti.

Báðar hafa þær Ragna og Hrefna komið að starfi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, sem rekinn er hér á landi.

WING eru samtök sem hvetja til framgangs kvenna innan jarðhitageirans, styðja við konur sem þar starfa og leitast við að gera störf þeirra á þeim vettvangi sýnilegri. Samtökin voru stofnuð 2013.

Móttaka WING var haldin í félagi við Konur í orkumálum, sem eru samtök kvenna sem starfa við orkumál á Íslandi. Þau samtök eru líka ný af nálinni.

Auk iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpaði Andrea Blair, forseti WING, samkomuna.
 

 

Ísland án jarðhita?

Ísland án jarðhita?

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Margfalt hærri reikningur fyrir húshitun. Engin snjóbræðsla í gangstéttum, gervigrasvöllum, eða bílastæðum. Engar knattspyrnuhallir. Miklu dýrara innlent grænmeti og/eða afar lítil innlend grænmetisframleiðsla. Fáar sundlaugar og litlar. Langar sturtuferðir mikill lúxus. Gluggar lítið opnaðir á veturna. Margfalt fleiri olíutankar. Margföld losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi.

Um 700 manns frá 46 löndum sóttu nýafstaðna ráðstefnu jarðhitaklasans í Hörpu, þar sem sumt af framangreindu kom fram þegar fyrirlesarar reyndu að sjá fyrir sér Ísland án nýtingar jarðhitaauðlindarinnar. Ljóst er að lífskjör væru hér mun lakari í hefðbundnum efnahagslegum skilningi. Hið sama má segja um ýmis lífsgæði sem okkur þykja sjálfsögð í dag.

Einn Landsspítali á ári
Saga jarðhitanýtingar til húshitunar nær yfir 100 ár hérlendis. Mikið átak var gert í uppbyggingu hitaveitna í kjölfar olíukreppunnar snemma á áttunda áratugnum, en þá var olía víða notuð við húshitun hérlendis. Samanburðurinn við olíu er þess vegna áhugaverður. Ef við værum almennt að nýta olíu til húshitunar í dag, í stað jarðhitans, þyrfti að flytja hér inn olíu fyrir um 88 milljarða króna á ári. Það er vel ríflega nýr Landsspítali. Á hverju ári. Að auki værum við í stað grænnar orkunýtingar að losa gróðurhúsalofttegundir á við alla losun Kaupmannahafnar og helmingi betur.

Milljón á ári per heimili
Ef við horfum á tölurnar út frá beinum kostnaði hvers heimilis, að frádregnum dæmigerðum húshitunarkostnaði hérlendis, væri viðbótarkostnaðurinn um ein milljón króna á ári á dæmigert heimili. Milljón á ári.

Tölurnar hér að framan miðast við þá forsendu að við værum að nýta jafn mikla orku með brennslu olíu og jarðhitinn skilar okkur í dag. Auðvitað er sú forsenda umdeilanleg. Við myndum áreiðanlega nota miklu minni orku, en þó gegn mun hærri kostnaði. Húsin væru ekki jafn hlý. Sturtuferðirnar styttri og jafnvel færri. Knattspyrnulandsliðin okkar ekki að ná sama árangri. Andrúmsloftið mengað af olíureyk. Og lífskjörin verri.

 

Hitaveitur spara losun á við eina og hálfa Kaupmannahöfn

Fyrir átak í uppbyggingu hitaveitna á áttunda áratug síðustu aldar var víða notast við olíu til húshitunar á Íslandi. Ef við værum að nýta sama orkumagn til húshitunar með brennslu olíu og við gerum í dag með nýtingu jarðhita hefði sú olíubrennsla í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur 18 milljónum tonna af koldíoxíði á ári. Það er á við eina og hálfa árlega losun Kaupmannahafnar.

Í vikunni fór fram alþjóðleg ráðstefna um jarðvarma í Hörpu í Reykjavík, þar sem samankomnir voru um 700 manns frá 45 löndum til að ræða kosti jarðvarmanýtingar og áskorunum sem þeim fylgja. Nú þegar heimsbyggðin stendur frammi fyrir því að gera gríðarlegar breytingar á orkunýtingu til að ná Parísarmarkmiðum í loftslagsmálum, er horft til þeirrar einstöku stöðu Íslands að 90% allra bygginga eru hituð með jarðvarma. Jarðvarmi finnst á fjölmörgum stöðum um allan heim og líta margir því til íslenskrar sérþekkingar í þeim geira – að hér höfum við á árangursríkan hátt skipt yfir í endurnýjanlegan og sjálfbæran orkugjafa á skömmum tíma.

Gagnagrunnur fyrir sérfræðinga í jarðhita

Alþjóðajarðhitasambandið, IGA, hefur komið á fót sérstökum miðlægum gagnagrunni fyrir sérfræðinga í jarðhita. Gagnagrunninum var ýtt úr vör á IGC 2016 ráðstefnunni í Hörpu í gær. Gagnagrunninum, sem kallast Expert Pool, er ætlað að auðvelda fyrirtækjum eða alþjóðasamtökum að leita að sérfræðingum, starfsfólki eða ráðgjöfum í málefnum jarðhita og þannig einnig bjóða upp á starfstækifæri fyrir alla þá sem starfa í geiranum.

Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir slíkum vettvangi aukist hjá IGA og ætti þessi nýi gagnagrunnur að vera gott tækifæri fyrir íslenska sérþekkingu í jarðhitageiranum, sem er með þeirri bestu sem gerist í heiminum. Hægt er að skrá sig í grunninn á heimasíðu Alþjóðajarðhitasambandsins.

Orkuskipti í samgöngum stærsta tækifærið

Í dag koma þjóðarleiðtogar saman í New York á Degi jarðar og undirrita Parísarsamkomulagið um sameiginleg markmið þjóða heimsins í loftslagsmálum.  Stóra tækifærið fyrir Ísland í loftslagsmálum er að skipta um orkugjafa í samgöngum þar sem hægt væri að koma í veg fyrir tæplega 20% af árlegum útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi. En þrátt fyrir kjöraðstæður hvað varðar aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum er þróunin í orkuskiptum mjög hæg á Íslandi.

Ísland er fremst í flokki þjóða hvað varðar hlutfall endurnýjanlegrar orku við rafmagnsframleiðslu og húshitun og af því geta Íslendingar verið stoltir. Við ættum auðveldlega að geta vermt efsta sætið þegar kemur að notkun endurnýjanlegrar orku í samgöngum, því hér eigum við gnægð af henni. Svo er hins vegar ekki. Af nýskráðum bílum hér á landi eru aðeins tæplega 4% rafbílar. Til samanburðar má nefna að í Noregi eru tveir af hverjum þremur nýskráðum bílum vistvænir.

Heildarútblástur Íslands nemur 4,5 milljónum tonna á ári hverju og þar af er hlutur samgangna rétt um 18% af heild, eða 800 þúsund tonn. Það er öllum í hag, Íslendingum og heimsbyggðinni allri, að setja í forgang hér á landi að gera samgöngur umhverfisvænni.

Óvænt athygli á gróðurhús og hveralykt

Orkutengd ferðaþjónusta á Íslandi fékk óvænta kynningu á dögunum þegar Kim og Kourtney Kardashian létu sjá sig í Reykjavík öllum að óvörum ásamt rapparanum Kanye West.

Þær systur ásamt föruneyti gerðu sér ferð á tómatabýlið Friðheima í Reykholti í Biskupstungum. Fjölmargar fréttastofur hafa fjallað um heimsóknina þar sem þau skoðuðu tómataplöntur og býflugur og gæddu sér á afurðum þeirra. Hægt er að sjá umfjöllunina og myndbönd frá heimsókninni á eftirtöldum miðlum en listinn er ekki tæmandi: Daily MailEntertainment Tonight, E! Online, People, Hollywoodlife, US Magazine og fleiri.

Kim, Kourtney og félagar heimsóttu einnig Gullfoss og Geysi, en íslenska hveralyktin fékk alveg sérstaka umfjöllun þar sem Kim og eiginmaður hennar Kanye héldu að hún væri prumpulykt bílstjórans þeirra. Iceland Monitor á mbl.is hefur þó reynt að koma hinu rétta á framfæri.

Víst má ætla að ferðalag þeirra sé gríðarleg landkynning fyrir Ísland og ekki síst orkutengda ferðaþjónustu eins og Geysi og tómatabýlið Friðheima, því milljónir manna fylgjast grannt með systrunum Kim og Kourtney á samfélagsmiðlum. Á Instagram hefur Kim tæplega 68 milljónir fylgjenda og Kourtney 38 milljónir, á Twitter fylgja 44 milljónir Kim að og Kourtney 20 milljónir.

Kim Kardashian er ein stærsta stjarna sem sprottið hefur upp úr raunveruleikaþáttum í Bandaríkjunum og um heim allan. Þátturinn Keeping Up With The Kardashians hefur verið sýndur á sjónvarpsstöðinni E! við miklar vinsældir frá árinu 2007 og fjallar um líf hinnar litríku Kardashian fjölskyldu og Kim er þar ein sex systkina. Kim Kardashian hefur verið dugleg að halda sér í sviðsljósinu og þykir hafa gott viðskiptavit, en heildartekjur hennar voru um 53 milljónir dollara árið 2015. Hún er gift einum vinsælasta rappara í heimi, Kanye West, en ástæða heimsóknarinnar til Íslands er talin vera sú að hann ætli að taka upp tónlistarmyndband hér á landi. Einnig gæti ástæðan verið afmæli systur Kim, Kourtney, sem varð 37 ára í gær, 18. apríl.

En hver er eiginlega Kim Kardashian? Um það má lesa hér á mbl.is.

Helgi Jóhannesson nýr formaður Samorku

Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku hf., var í dag kjörinn nýr formaður Samorku á aðalfundi samtakanna. Hann tekur við formennsku af Bjarna Bjarnasyni, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, sem lætur af stjórnarsetu. Að auki taka þrír nýir stjórnarmenn sæti í stjórn samtakanna, en kjörin voru þau Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku hf., Inga Dóra Hrólfsdóttir framkvæmdastjóri Veitna ohf. og Jóhanna Björg Hansen bæjarverkfræðingur Mosfellsbæjar. Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets hf., var endurkjörinn í stjórn eins og Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, situr jafnframt áfram í stjórn, kjörinn til tveggja ára á aðalfundi 2015.

Ásdís Kristinsdóttir, forstöðumaður Verkefnastofu hjá Veitum ohf., var kjörin nýr varamaður í stjórn sem og Guðbjörg Marteinsdóttir, fjármálastjóri RARIK ohf. Þá sitja Dagur Jónsson, vatnsveitustjóri Hafnarfjarðar, og Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf., áfram sem varamenn.

Auk Bjarna Bjarnasonar ganga úr stjórn þeir Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna hf., Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða ohf. og Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK ohf.

Stjórn Samorku skipa því, að loknum aðalfundi 15. apríl 2016:

Aðalmenn:
Ásgeir Margeirsson, HS Orku hf.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, Landsneti hf.
Guðrún Erla Jónsdóttir, Orkuveitu Reykjavíkur
Helgi Jóhannesson, Norðurorku hf., formaður stjórnar
Hörður Arnarson, Landsvirkjun
Inga Dóra Hrólfsdóttir, Veitum ohf.
Jóhanna B. Hansen, Mosfellsbæ

Varamenn:
Ásdís Kristinsdóttir, Veitum ohf.
Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar
Guðbjörg Marteinsdóttir, RARIK ohf.
Guðmundur Davíðsson, Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf.