Birna Ósk Einarsdóttir til Landsvirkjunar

Birna Ósk Einarsdóttir er nýr framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar.

Birna Ósk Einarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar.

Hlutverk sviðsins er að hámarka tekjur Landsvirkjunar til langs tíma. Í því felst þróun, kynning og sala á orkuvörum og þjónustu, samskipti við núverandi og væntanlega viðskiptavini vegna samninga og reksturs þeirra auk greiningar viðskiptatækifæra.

Framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs heyrir undir forstjóra Landsvirkjunar.

Birna Ósk hefur verið framkvæmdastjóri hjá Símanum frá árinu 2011, síðast yfir sölu- og þjónustusviði. Birna Ósk hefur starfað hjá Símanum frá árinu 2001, fyrst við almannatengsl og mannauðsráðgjöf. Hún var forstöðumaður verkefnastofu Símans á árunum 2006 til 2010 og stýrði samhliða markaðsmálum 2009-2010 þar til hún tók við stöðu framkvæmdastjóra.

Birna Ósk er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík, með M.Sc. gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og hefur lokið AMP námi fyrir stjórnendur frá IESE Business School í Barcelona.