31. mars 2017 Landsvirkjun fær gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC í þriðja sinn Þorkell Guðmundsson ráðgjafi hjá PwC afhendir fulltrúum Landsvirkjunar viðurkenningu fyrir Gullmerki PwC, sem Elín Pálsdóttir og Þórhildur A. Jónsdóttir, sérfræðingar á starfsmannasviði, og Sturla Jóhann Hreinsson, starfsmannastjóri, veittu viðtöku. Landsvirkjun hefur hlotið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC fyrir árið 2017 og er þetta í þriðja skipti sem fyrirtækið fær þessa viðurkenningu. Einungis eitt annað fyrirtæki hefur farið þrisvar sinnum í úttektina og staðist í öll skiptin. PwC hefur gert 65 jafnlaunaúttektir og aðeins einu sinni mælt jafnlítinn mun og nú mælist hjá Landsvirkjun: 0,4% fyrir heildarlaun. Úttektin, sem gerð var í september, leiddi í ljós að grunnlaun karla innan fyrirtækisins væru 2,3% hærri en grunnlaun kvenna. Heildarlaun karla voru 0,4% hærri en heildarlaun kvenna. Sá launamunur sem er á grunn- og heildarlaunum er innan þeirra marka sem PwC hefur sett varðandi góðan árangur í jöfnum launum kynja. Landsvirkjun vill stuðla að jafnrétti og vinnur eftir jafnréttisstefnu og aðgerðaráætlun jafnréttismála, samkvæmt lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla nr. 96/2000. Í jafnréttisstefnunni segir m.a. að karlar og konur skuli fá greidd sömu laun og sömu kjör fyrir sömu störf. Þá segir að stjórnendur og starfsfólk skuli vinna að því að útrýma kynbundnum störfum innan fyrirtækisins, þannig að engin störf skuli vera flokkuð sem karla- eða kvennastörf. Sjá má jafnréttisstefnu Landsvirkjunar á heimasíðu fyrirtækisins.