27. mars 2017 Hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns EIMUR, í samstarfi við Íslensk verðbréf og Vaðlaheiðargöng hf, efnir til hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra með áherslu á nýtingu heita vatnsins í Vaðlaheiðargöngum. Um er að ræða almenna hugmyndasamkeppni og hún er öllum opin. Engar skorður eru settar varðandi það hverskonar nýting er lögð til, því ætlunin er að fá fram fjölbreyttar hugmyndir um hvernig nýta má lághitavatn. Veitt verða verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar, þar af nema fyrstu verðlaun ekki lægri upphæð en 1.500.000 kr. Allar nánari upplýsingar um keppnina má finna á heimasíðu EIMS. Aðdragandi keppninnar er sá að í febrúar árið 2014 komu bormenn verktaka Vaðlaheiðarganga inn á vatnsæð í göngunum sem er um 46°C heit. Nú hefur komið í ljós að hitastig og vatnsmagn virðist nokkuð stöðugt og ljóst að þarna er um töluverða auðlind að ræða sem í dag rennur ónýtt út i sjó. Sambærilegar ónýttar lághitaauðlindir liggja víðsvegar um svæðið og verður þess vegna einnig opið á að skila inn hugmyndum um nýtingu þeirra.
25. mars 2017 Verkefnastjóri á sviði rafmagns Samorka óskar eftir að ráða drífandi einstakling sem býr yfir miklu frumkvæði, skipulögðum vinnubrögðum og getu til að sinna mikilvægum og spennandi verkefnum. Samorka eru samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Aðildarfélög Samorku eru um 50 talsins og með starfsemi um allt land. Samtökin eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins og eru staðsett í Húsi atvinnulífsins að Borgartúni 35. Hlutverk samtakanna er að starfrækja trúverðugan, fræðandi og jákvæðan vettvang um starfsemi orku- og veitufyrirtækja og styrkja þannig stöðu þeirra og rekstur. Helstu verkefni: • Móta starfsumhverfi orku- og veitugeirans. • Umsjón með starfi fag- og málefnahópa sem starfa á vettvangi samtakanna. • Skipulagning og umsjón með framkvæmd opinna funda um málefni orku- og veitugeirans. • Skipulagning námskeiða og fræðslu fyrir aðildarfyrirtæki samtakanna og geirann í heild. • Samstarf við ráðuneyti og opinberar stofnanir. • Eftirfylgni með nýrri stefnu samtakanna. Menntunar- og hæfniskröfur • Verkfræði/tæknifræði eða önnur menntun sem nýtist í starfi. • Frumkvæði, sjálfstæð og öguð vinnubrögð. • Færni og lipurð í mannlegum samskiptum. • Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti, bæði á íslensku og ensku. Bæði konur og karlmenn eru hvött til að sækja um starfið. Umsóknir skulu sendar til framkvæmdastjóra, Páls Erlands (pall@samorka.is), sem einnig veitir upplýsingar um starfið. Umsóknarfrestur er til 4. apríl.
17. mars 2017 Raforkunotkun dróst saman Raforkunotkun almennings árið 2016 dróst saman um 4,3% miðað við árið á undan. Þá dróst raforkuvinnsla einnig saman um 1,3% og töp við flutning raforku til almenningsveitna og stórnotenda minnkuðu um 3,1%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuspárnefnd, sem er samstarfsvettvangur nokkurra helstu fyrirtækja, stofnana og samtaka í orkuiðnaði hér á landi auk Hagstofu Íslands, Fasteignamats ríkisins og fjármálaráðuneytisins. Orkuspárnefnd hefur tekið saman þrjár mögulegar ástæður fyrir samdrættinum á milli ára. Í fyrsta lagi var veðurfar gott árið 2016, en lofthiti í Reykjavík var 1,5 gráðu hærri það ár en árið 2015. Í öðru lagi var loðnuafli mun minni árið 2016 en á árinu á undan, en loðnuvinnsla krefst mikillar raforkunotkunar. Loðnuaflinn var 100 þúsund tonn í fyrra en var 350 þúsund tonn árið 2015. Í þriðja lagi fluttist afhending raforku til gagnavera yfir á flutningskerfið ekki fyrr en um mitt árið 2016, en var áður í dreifikerfi raforku.
9. mars 2017 ON og N1 í samstarf um hleðslustöðvar ON og N1 ætla að reisa hlöður við hringveginn Orka náttúrunnar og N1 ætla í sameiningu að reisa hlöður fyrir rafbíla meðfram helstu þjóðvegum landsins. Stjórnendur fyrirtækjanna hafa skrifað undir samkomulag um að hlöður ON rísi á afgreiðslustöðvum N1 víðsvegar um land. ON er í forystu um uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum og hefur þegar reist 13 hlöður í samstarfi við ýmsa aðila, þar á meðal N1. ON stefnir að því að opna allan hringveginn fyrir rafbílum á næstu misserum. ON hefur líka aukið mjög upplýsingagjöf til rafbílaeigenda með útgáfu smáforritsins ON Hleðsla fyrir Android og iPhone. ON Hleðsla veitir meðal annars upplýsingar um vegalengd í næstu hlöðu, hvar hún er, hvaða hleðslubúnaður er í henni og hvort hún er laus eða upptekin. N1 rekur 95 stöðvar á Íslandi og þar með víðtækustu þjónustu hér landi fyrir bíla og bifreiðaeigendur. N1 var fyrsta fyrirtækið til að koma upp afgreiðslu á metani og færir með samkomulaginu enn út kvíarnar í umhverfisvænni orku í samgöngum. Bæði fyrirtækin fengu styrk úr Orkusjóði í lok síðasta árs til að byggja upp innviði fyrir orkuskipti í samgöngum. Nánar um samstarfið má lesa á heimasíðu ON.
8. mars 2017 „Planið“ gekk upp Aðgerðaáætlunin sem Orkuveita Reykjavíkur hefur fylgt frá því snemma árs 2011 og nefnd er Planið gekk upp og vel það. Hún átti að skila liðlega 50 milljörðum króna í betri sjóðstöðu en niðurstaðan varð um 60 milljarðar. Þetta kemur fram í lokaskýrslu fyrirtækisins um Planið sem lauk um áramót. Rekstrarafkoma er svipuð og síðustu ár en hátt gengi íslensku krónunnar skilar fyrirtækinu verulegum reiknuðum hagnaði. Hagnaðurinn nam 13,4 milljörðum króna á árinu. Arðsemi eigin fjár var 12,0%. Frekari upplýsingar má sjá á heimasíðu OR.
3. mars 2017 Íslensk orka þjóðhagslega hagkvæm Ávinningur þess að nota endurnýjanlega orkugjafa til raforkunotkunar og upphitunar heimila hleypur á tugum milljarða á hverju ári. Þrátt fyrir hvað mestu notkun rafmagns og vatns á Norðurlöndunum borga Íslendingar lægst hlutfall mánaðarlauna sinna fyrir. Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, á ársfundi Samorku 2017. Mynd: Eva Björk Þetta kom fram í erindi Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns efnahagssviðs SA, á ársfundi Samorku sem fram fór í Hörpu fimmtudaginn 2. mars. Fjallað var ítarlega um ávinning af notkun endurnýjanlegrar orku á Íslandi fyrir þjóðarbúið, heimili og umhverfið. Sjá má erindi Ásdísar í heild sinni hér fyrir neðan. Í OECD ríkjunum og á Norðurlöndum er mikið treyst á kol og olíu til raforkunotkunar og húshitunar fyrir almenning. Með því að nota innlenda, endurnýjanlega orkugjafa sparar íslenskt þjóðarbú sér árlegan viðbótarkostnað á bilinu 60-110 milljörðum króna, þar sem ekki þarf að flytja þá inn. Íslendingar neyta langsamlega mest af vatni af íbúum Norðurlandanna, eru stórnotendur rafmagns og hita húsin sín vel. Þegar kostnaður heimila í Reykjavík vegna húshitunar, rafmagns, frá- og vatnsveitu er borinn saman við íbúa annarra höfuðborga á Norðurlöndum kemur þó í ljós að hann er bæði lægstur og minnsta hlutfall af árstekjum. Í Kaupmannahöfn þurfa hjón til dæmis að borga 730 þúsund krónur fyrir sama magn og hjón í Reykjavík sem borga 250 þúsund. Í erindi Ásdísar kom einnig fram að losun koltvísýrings út í andrúmsloftið væri 13 sinnum meiri á Íslandi vegna raforku og húshitunar fyrir almenna notendur væri það framleitt með jafnháu hlutfalli óendurnýjanlegra orkugjafa og gert er að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Losunin væri enn meiri, eða 26 sinnum meiri en í dag, væri hlutfallið sambærilegt meðaltali ríkja OECD. Mikið vatn hefur runnið til sjávar – Ásdís Kristjánsdóttir from Samorka on Vimeo.
3. mars 2017 Mikilvægi orku- og veitugeirans áréttað Á aðalfundi Samorku fimmtudaginn 2. mars, var ályktað um að árétta fjölþætt mikilvægi orku- og veitufyrirtækja fyrir íslenskt samfélag. Starfsemi fyrirtækjanna er ein af grundvallarstoðum íslensks samfélags og frekari sjálfbærrar þróunar þess. Mikilvægt er að stjórnvöld gefi fyrirtækjunum svigrúm til að sinna áfram því mikilvæga og fjölþætta hlutverki að nýta auðlindir landsins á ábyrgan hátt til að standa undir framtíðarþörfum landsmanna. Umhverfisábati grænnar orku og sjálfbærs veitureksturs er ómetanlegur, einkum nú þegar glímt er við hlýnun loftslags jarðar. Íslensk rafmagnsframleiðsla og húshitun skipar okkur í fremstu röð í heiminum í umhverfisvænni orkuframleiðslu og óvíst er að í nokkru öðru landi eigi jafn hátt hlutfall íbúa traustan aðgang að ómeðhöndluðu neysluvatni. Ennfremur hefur undanfarna áratugi verið lyft grettistaki í fráveitumálum landsmanna, en góð fráveita er eitt af stærstu umhverfismálum samtímans. Ekkert af þessu hefur komið af sjálfu sér, heldur hefur frumkvöðlastarf, markviss uppbygging, eldmóður og framsýni gert það að verkum að orku- og veitugeirinn hefur sinnt þörfum landsmanna um árabil. Um þetta verður að standa vörð. Orku- og veitufyrirtækin eru meginstoð heimila og fyrirtækja í landinu og munu áfram spila stóran þátt í uppbyggingu samfélagsins. Nú blasir einnig við þjóðinni tækifæri til að taka stórt framfaraskref í umhverfis- og orkumálum; það er að rafvæða samgöngur að svo miklu leyti sem unnt er. Fagmennska í starfi stjórnvalda skapar fyrirsjáanlegt starfsumhverfi sem er fyrirtækjunum nauðsynlegt til að sinna hlutverki sínu í þessu mikilvæga verkefni og öðrum sem þau inna af hendi í þágu heimila og fyrirtækja í landinu.
3. mars 2017 Helgi Jóhannesson endurkjörinn formaður Helgi Jóhannesson, formaður Samorku. Mynd: Haraldur Guðjónsson Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, var endurkjörinn formaður Samorku til tveggja ára á aðalfundi samtakanna fimmtudaginn 2. mars. Þá voru einnig endurkjörin í stjórn þau Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku og Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Í stjórn sitja jafnframt áfram þau Guðmundur Ingi Ásmundsson og Jóhanna B. Hansen, bæjarverkfræðingur Mosfellsbæjar. Þá verður Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, áfram fulltrúi fyrirtækisins í stjórn Samorku og fulltrúi Veitna verður Inga Dóra Hrólfsdóttir framkvæmdastjóri. Ragna Árnadóttir, Landsvirkjun, Jón Tryggvi Guðmundsson, Selfossveitum og Elías Jónatansson, Orkubúi Vestfjarða, voru kjörnir nýir varamenn í stjórn Samorku til tveggja ára. Í stjórn Samorku er nú jafnt hlutfall kynja, sex karlar og sex konur. Stjórn Samorku, að loknum aðalfundi 2017, skipa: Aðalmenn: Ásgeir Margeirsson, HS Orku hf. Guðmundur Ingi Ásmundsson, Landsneti hf. Guðrún Erla Jónsdóttir, Orkuveitu Reykjavíkur Helgi Jóhannesson, Norðurorku hf., formaður stjórnar Hörður Arnarson, Landsvirkjun Inga Dóra Hrólfsdóttir, Veitum ohf. Jóhanna B. Hansen, Mosfellsbæ Varamenn: Ásdís Kristinsdóttir, Veitum ohf. Elías Jónatansson, Orkubúi Vestfjarða ohf. Guðbjörg Marteinsdóttir, RARIK ohf. Jón Tryggvi Guðmundsson, Selfossveitum Ragna Árnadóttir, Landsvirkjun
3. mars 2017 87% ferðamanna tók ekki eftir Blönduvirkjun Mikilvægt er að nýjar byggingar og önnur mannvirki utan þéttbýlis hér á landi taki mið af verndun náttúru og falli vel að landslaginu á hverjum stað. Þetta er á meðal ályktana sem draga má af svörum ferðamanna sem birt eru í nýrri skýrslu Háskóla Íslands og unnin var fyrir Landsvirkjun. Blöndulón Niðurstaða könnunarinnar, sem var gerð á meðal ferðamanna í nágrenni Blönduvirkjunar síðasta sumar, sýnir að langflestir ferðamenn við Blönduvirkjun eru ánægðir með dvöl sína á svæðinu en aðeins 8% eru óánægð. Meirihluta ferðamanna finnst svæðið náttúrulegt og telur ósnortin víðerni vera hluta af aðdráttarafli svæðisins, þrátt fyrir að þar megi sjá virkjunarmannvirki á borð við lón, stíflur, veituskurði, vegi og raflínur. Meðal ferðamanna voru flestir Þjóðverjar eða 35%, Frakkar um 11% og Íslendingar rúm 9%. Könnunin leiddi m.a. í ljós að 87% sögðust ekki hafa tekið eftir virkjuninni og tengdum mannvirkjum og meirihluti sagði tilvist virkjunarinnar ekki hafa áhrif á áhuga sinn á því að ferðast um svæðið. Í skýrslunni segir að í ljósi þess að virkjunarmannvirkin á Blöndusvæðinu trufli upplifun ferðamanna lítið megi draga þá ályktun að hönnun þeirra sé góð og þau falli vel að landslaginu. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, er aðalhöfundur skýrslunnar. Markmiðið með rannsókninni var að kanna áhrifin af mannvirkjum á upplifun ferðamanna af náttúru landsins. Ákveðið var að skoða dæmi um virkjun í rekstri, bæði lón og stöðvarhús, sem er í nágrenni við fjölsótta ferðamannaleið yfir hálendið. Meðal þess sem var kannað var hvort munur væri á viðhorfi ferðamanna til svæða þar sem þegar væri búið að reisa virkjun og á svæðum þar sem uppi eru hugmyndir um að reisa virkjun. Niðurstöður könnunarinnar voru bornar saman við niðurstöður sambærilegra kannana sem gerðar voru sumarið 2015 á sjö svæðum á landinu í tengslum við þriðja áfanga rammaáætlunar. Í ljós kom að um 92% ferðamannanna telja ósnortið víðerni vera hluta af aðdráttarafli Blöndusvæðisins og er þar um að ræða litlu lægra hlutfall en á þeim stöðum þar sem ekki hefur verið virkjað, en þar var hlutfallið á bilinu 93-98%. Nálgast má skýrsluna í heild sinni á vef Landsvirkjunar.
3. mars 2017 Áhugaverð erindi á Vísindadegi OR Hinn árlegi Vísindadagur OR samstæðunnar verður haldinn á Pí daginn 14. mars á Nauthóli, Nauthólsvegi 106. Kynnt verða áhugaverð rannsóknarverkefni sem unnin eru af starfsfólki Orkuveitunnar, Veitna, ON, GR eða samstarfsaðilum. Þemu Vísindadagsins í ár eru þrjú; Það sem enginn sér, Framtíðin og 2°C. Erindin snúast meðal annars um: • loftslagsmál og heilsu • kolefnisspor og orkuskipti í samgöngum • bætta auðlindanýtingu • vatns- og fráveitu • snjalla framtíð Skoða má ítarlega dagskrá á vef OR. Vísindadagur OR er öllum opinn en skráningar er óskað. Boðið verður upp á morgunhressingu fyrir fund og léttan hádegisverð.