Rætt um rammann

Breyta þarf því ferli hvernig við skilgreinum landsvæði til verndunar eða til orkunýtingar. Núverandi ferli hefur einfaldlega ekki náð þeim árangri sem lagt var upp með fyrir aldarfjórðungi síðan, hvorki til orkunýtingar eða til verndunar. Í þætti dagsins ræða Harpa Pétursdóttir forstöðukona nýrra orkukosta hjá Orkuveitunni og Jóna Bjarnadóttir framkvæmdastjóri samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun um rammaáætlun, hvað það er sem er ekki að virka í því ferli og hvernig líta þarf til aukinnar þekkingar, breyttra forsenda og breytts samfélags þegar stjórnvöld hefja nú ferli við að endurskoða áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Katrín, Jóna, Lovísa og Harpa við upptöku þáttarins.

Þáttastjórnendur: Katrín Helga Hallgrímsdóttir og Lovísa Árnadóttir.

RARIK fagmeistari Samorku 2024

Lið RARIK bar sigur úr býtum í Fagkeppni Samorku á Fagþingi raforku sem haldið var á Hótel Örk í Hveragerði 23. – 24. maí.

Kampakátt lið RARIK ásamt forstjóra og aðstoðarforstjóra

Keppt var í fjórum þrautum; Samsetningu á lágspennustreng, tengingu inn á götuskáp, tengingu inn á mæli og svo hið sívinsæla stígvélakast. Alls tóku sex lið þátt í keppninni sem voru frá Norðurorku, HS Veitum, Veitum, RARIK, Landsneti og Orkubúi Vestfjarða.

Sex voru í dómnefnd, einn frá hverju þátttökufyrirtæki fyrir sig, fékk það vandasama verkefni að skera úr um sigurvegara í hverri þraut.

Veitt voru verðlaun fyrir bestu frammistöðu í hverri grein. Lið RARIK vann keppni um lágspennustreng, Lið HS Veitna var hlutskarpast í tengingu inn á götuskáp, Veitur tengdu best inn á þriggja fasa mæli og þá kastaði lið RARIK stígvélinu lengst. Þá voru einnig veitt verðlaun fyrir tilþrif ársins, sem lið Landsnet hlaut og stuðningslið ársins sem RARIK átti.

Bestum samanlögðum árangri náði lið RARIK og er því Fagmeistari Samorku 2024. Liðið varði þar með titilinn frá árinu 2019 í raforkutengdum þrautum, en er líka Fagmeistari í veitutengdum þrautum frá því í fyrra.

Hér fylgja nokkrar skemmtilegar frá stórskemmtilegri keppni, en fleiri myndir má sjá á Facebook síðu Samorku.

Handagangur í öskjunni
Lið Orkubús Vestfjarða
Liðið frá Norðurorku ásamt forstjóra og samstarfsfólki
Stígvélakast í fullum gangi
Sigurkastið
Lið RARIK í keppnistjaldinu

Auglýst eftir styrkjum til fráveituframkvæmda

Opnað hefur verið fyrir umsóknir sveitarfélaga um styrki til fráveituframkvæmda. Umsóknarfrestur vegna styrkjanna er til 1. júlí 2024. Þetta er í fjórða skipti sem fráveitustyrkir eru auglýstir til umsóknar.

Skilyrði fyrir styrkveitingu er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Í fjárlögum vegna ársins 2024 er gert ráð fyrir að 379 m.kr. verði varið til þess að styrkja sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda.

Nánari upplýsingar um styrkhæfar framkvæmdir og annað er að finna á heimasíðu ráðuneytisins: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2024/05/08/Auglyst-eftir-umsoknum-um-styrki-til-fraveituframkvaemda/

Skattar og orkuvinnsla

Samorka býður til opins fundar um skattamál orkugeirans. Fjallað verður um skattatillögur starfshóps stjórnvalda sem nú eru í úrvinnslu í fjármálaráðuneytinu. Þá verður fjallað um áskoranir þær sem felast í skattatillögunum fyrir orkugeirann.

Fram koma:

Hilmar Gunnlaugsson lögfræðingur, formaður starfshóps stjórnvalda
Katrín Helga Hallgrímsdóttir lögfræðingur Samorku

Fundurinn fer fram í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, en einnig verður hann sendur út á Teams.

 

Ný stjórn tekin til starfa

Ný stjórn Samorku kom saman til fyrsta fundar í byrjun apríl og skipti með sér verkum. Varaformaður stjórnar Samorku er áfram Sigurður Þór Haraldsson, Selfossveitum, gjaldkeri er Páll Erland, HS Veitum og ritari er Magnús Kristjánsson, Orkusölunni.


F.v. á mynd: Magnús Kristjánsson framkvæmdastjóri Orkusölunnar, Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Veitna, Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsneti, Páll Erland forstjóri HS Veitna, Sigurður Þór Haraldsson veitustjóri Selfossveitna og Björk Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri fjármála hjá HS Orka.

Myndir frá ársfundi Samorku

Fjölmennt var á ársfundi Samorku, Ómissandi innviðir, sem haldinn var í Norðurljósum í Hörpu miðvikudaginn 20. mars.

Ljósmyndarinn Eyþór Árnason tók eftirfarandi ljósmyndir.

No Images found.

55 milljarða skattaáhrif orku- og veitugeirans á ári

LEIÐRÉTTING ágúst 2025: Við uppfærslu skýrsluhöfunda, Intellecon, á gögnum árið 2025 kom í ljós villa í útreikningum sem leiddi í ljós að niðurstöður um heildar skattaleg áhrif orku- og veitugeirans voru ofmetnar. Í skýrslunni voru þau metin á 96,4 milljarða króna árið 2022 en hið rétta er að skattaleg áhrif voru um 55,5 milljarðar króna árið 2022. Skýrslan hefur verið yfirfarin með hliðsjón af þessum mistökum sem höfðu eingöngu áhrif á heildarfjárhæð skattaáhrifa geirans. Aðrar niðurstöður skýrslunnar hafa verið staðfestar. Fyrir nánari upplýsingar bendir Samorka á skýrsluhöfunda. Beðist er velvirðingar á þeim misskilningi sem upphafleg útgáfa skýrslunnar kann að hafa valdið.

Fréttin hefur verið leiðrétt í samræmi við ofangreint.

Skattaleg áhrif orku- og veitugeirans eru rúmlega 55 milljarðar á ári hverju, eða um þrjú prósent af heildartekjum ríkissjóðs á árinu 2022. Framleiðsluverðmæti á starfsfólk er það hæsta hér á landi.

Þetta kemur fram í nýrri úttekt Gunnars Haraldssonar hagfræðings Intellicon um þjóðhagslega þýðingu orku- og veituinnviða sem kynnt var á ársfundi Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, í Hörpu í dag.

Í úttektinni kemur fram að verðmæti orku- og veitustarfsemi fyrir samfélagið allt verði seint ofmetin, enda er hún undirstaða allra annarra atvinnugreina og lífsgæða í landinu. Rekstur og arðsemi orku- og veitufyrirtækjanna sjálfra er stöðug.

Óvissa um orkuöryggi næstu áratuga ógni hins vegar þessari stöðu og núverandi skerðingar hafi þegar valdið þjóðarbúinu tjóni upp á marga milljarða. Ekki er útséð um hver endanleg áhrif þessara takmarkana yrðu.

Í ályktun aðalfundar Samorku er kallað eftir skýrri sýn frá stjórnvöldum um hvernig ná eigi markmiðum um kolefnishlutleysi, þar sem ljóst sé að á þeim vettvangi hafi orðið afturför á undanförnum mánuðum. Samtökin kalla einnig eftir því að leyfisveitingarferli verði einfölduð, þau gerð skilvirkari og að eitt og sama ferlið gildi um allar atvinnugreinar. Samorka leggur til að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun verði lögð af.

„Samorka leggur áherslu á að orkuframleiðsla verði aukin og flýtt fyrir uppbyggingu flutnings- og dreifikerfa, að stjórnsýsla verði einfölduð og gerð skilvirkari, að orkunýtni verði aukin og að heildsölu- og smásölumarkaður sé skilvirkur“ segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku. Þá styðja samtökin áform stjórnvalda um að vindorka verði ein af grunnstoðum orkuöflunar landsins, auk vatnsafls og jarðhita.

Ályktun Samorku í heild sinni:

Kallað eftir skýrri sýn stjórnvalda

Í ályktun aðalfundar kalla samtökin eftir skýrri sýn frá stjórnvöldum um hvernig ná eigi markmiðum um kolefnishlutleysi, þar sem ljóst sé að á þeim vettvangi hafi orðið afturför á undanförnum mánuðum. Samtökin kalla einnig eftir því að leyfisveitingarferli verði einfölduð, þau gerð skilvirkari og að eitt og sama ferlið gildi um allar atvinnugreinar. Samorka leggur til að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun verði lögð af.

Einnig kemur fram að allir orku- og veituinnviðir landsins standi nú frammi fyrir erfiðum áskorunum og skiptir þá engu hvort horft sé til vatnsveitu, fráveitu, hitaveitu eða raforkumála. Miklar breytingar séu framundan sem kalli á uppbyggingu og miklar fjárfestingar, auk þess sem orku- og veitufyrirtæki glími við erfitt og ófyrirsjáanlegt leyfisveitinga- og skipulagsferli.

Ályktun aðalfundar Samorku 2024_samþykkt

Sólrún og Guðlaug í stjórn Samorku

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna og Guðlaug Sigurðardóttir, fjármálastjóri Landsnets tóku í dag sæti í stjórn Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri Selfossveitna, var endurkjörinn í stjórn samtakanna til tveggja ára.

Í stjórninni sitja jafnframt áfram þau Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og formaður, Björk Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála hjá HS Orku, Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar og Páll Erland, forstjóri HS Veitna.

Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumaður hitaveitu hjá Veitum, tekur sæti sem varamaður í stjórn en þar sitja áfram þeir Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF veitna, Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku, Harpa Pétursdóttir, stjórnandi málefna haghafa og stjórnsýslu hjá Orku náttúrunnar og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Í fyrsta sinn í sögu Samorku eru konur í meirihluta stjórnar. Jafnt kynjahlutfall er þegar aðal- og varamenn eru taldir.

Stjórn Samorku er þannig skipuð að loknum aðalfundi 2024:

Aðalmenn:

Kristín Linda Árnadóttir, Landsvirkjun, formaður stjórnar

Björk Þórarinsdóttir, HS Orku

Guðlaug Sigurðardóttir, Landsneti

Páll Erland, HS Veitum

Magnús Kristjánsson, Orkusölunni

Sigurður Þór Haraldsson, Selfossveitum

Sólrún Kristjánsdóttir, Veitum

Varamenn:

Aðalsteinn Þórhallsson, HEF veitur

Eyþór Björnsson, Norðurorku

Harpa Pétursdóttir, Orka náttúrunnar

Hrefna Hallgrímsdóttir, Veitum

Hörður Arnarson, Landsvirkjun

Í upprunalegu útgáfu fréttarinnar var sagt að þetta væri í fyrsta sinn sem stjórn félagsins er að meirihluta skipuð konum. Það er ekki rétt og hefur verið leiðrétt.

Viljayfirlýsing um orkuskipti og orkuöryggi

Landsnet, ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála, Vestmannaeyjabær, HS Veitur og aðilar úr atvinnulífinu í Vestmannaeyjum hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um aukið afhendingaröryggi og leiðir í átt að fullum orkuskiptum.

Fyrirsjáanlegt er að eftirspurn eftir raforku mun aukast verulega í Vestmannaeyjum í ljósi stefnu stjórnvalda í orkuskiptum. Til að það verði hægt þarf að leggja tvo nýja rafstrengi, Vestmannaeyjastrengi 4 og 5. Viðskiptalegar forsendur eru fyrir lagningu beggja strengjanna samtímis og mikill vilji og áhugi iðnaðar í Vestmannaeyjum til að vaxa og stuðla að orkuskiptum. 

Tekið við undirriturn yfirlýsingarinnar
Undirritun yfirlýsingarinnar

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir ánægjulegt að geta fylgt eftir þeim tillögum sem fram komu í nýútgefinni skýrslu um málefni Vestmannaeyja sem varða málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. 

„Við höfum séð það í vetur og Eyjamenn hafa fundið fyrir því undanfarna vetur að orkuöryggi er ábótavant í Vestmannaeyjum. Það var ein af ábendingum í skýrslu um málefni Vestmannaeyja sem við koma mínu ráðuneyti síðasta haust að tryggja þurfi orkuöryggi Eyjamanna. Það er ánægjulegt að sjá að Landsnet ætlar að bregðast við stöðunni með því að flýta lagningu strengja til Vestmannaeyja og hefja framkvæmdir á næsta ári. Þetta er mikilvægur þáttur í því að tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt.“  

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum segir að lagning strengjanna sé lykilþáttur í að tryggja raforkuöryggi í Eyjum.

„Raforkuöryggi skiptir íbúa og fyrirtæki í Eyjum miklu máli. Því hefur verið ábótavant eins og kom bersýnilega í ljós þegar bilun varð  í VM3.  Ef horfa á til orkuskipta í Vestmannaeyjum þá verður að tryggja öruggan flutning raforku og hringtengingu. Þessir tveir nýju strengir tryggja það öryggi og eru þeir braut til orkuskipta. Það er afar ánægjulegt að Landsnet skuli hafa flýtt þessu verkefni og ætli að klára það árið 2025.“

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir að nú þegar hafi verið ákveðið að flýta lagningu á nýju Vestmannaeyjastrengjunum og tryggja þannig afhendingaröryggi raforku í Vestmannaeyjum.

„ Ákvörðun um lagningu á nýjum Vestmannaeyjastreng hefur verið í umræðunni um tíma og höfum við nú þegar ákveðið að flýta framkvæmdum og leggja strengina samhliða sumarið 2025 til að tryggja afhendingaröryggi rafmagns í Vestmannaeyjum og um leið að stuðla að orkuskiptum í Eyjum.  Það er líka æskilegt að leggja tvo strengi samtímis og verður fjárfestingin þannig arðbærari til lengra tíma litið. Það kom berlega í ljós síðasta vetur þegar Vestmannaeyjastrengur 3 bilaði hvað það getur verið erfitt að eiga við bilanir á sjó, á svæði sem er erfitt viðureignar og því mikilvægt að geta tryggt að hægt sé að flytja raforku inn á svæðið.“

Páll Erland forstjóri HS Veitna segir tilkomu tveggja nýrra rafstrengja Landsets vera stórt skref í að auka raforkuöryggi í Vestmannaeyjum og að traustir raforkuinnviðir, bæði flutnings- og dreifikerfin, séu forsenda orkuskipta bæði heimila og atvinnulífs.

„HS Veitur ætla að vinna að árangri í loftslagsmálum í Vestmannaeyjum með fjárfestingu í raforkuinnviðum þannig að hægt verði að tengja nýju rafstrengina VM4 og VM5 við dreifikerfi HS Veitna, sem er forsenda þess að þeir nýtist heimilum og fyrirtækjum í Vestmannaeyjum við orkuskipti og vöxt atvinnulífs.“   

Hér er hægt að nálgast viljayfirlýsinguna.