HM í endurnýjanlegri orku

Sara Björk og HM í endurnýjanlegri orku

Til þess að ná árangri í þarf að setja markmið og vinna markvisst að þeim. Það gildir líka í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Sara Björk er ein af fremstu íþróttamönnum landsins og veit að að árangur kostar mikla vinnu. Það er sönn ánægja að hún gangi til liðs við heimsmeistaramótið í endurnýjanlegri orku.

Heimsmeistaramótið í endurnýjanlegri orku er átak sem sett var á laggirnar í Noregi til að vekja athygli á nauðsyn þess að skipta út skaðlegum orkugjöfum fyrir endurnýjanlega og sjálfbæra orku og auka hlutfall grænnar orku í heiminum. Heilbrigð samkeppni milli þjóða þykir skemmtileg leið til að vekja athygli á þessum markmiðum. Þar skoraði hin norska Ada Hegerberg, fyrsti Gullskóhafi kvenna í knattspyrnu, á aðrar þjóðir að taka þátt og keppast um að verða heimsmeistarar í endurnýjanlegri orku. Við tökum þeirri áskorun! Og það er engin önnur en liðsfélagi hennar, Sara Björk, sem svarar kallinu.

 

Ísland í góðri stöðu

Eins og staðan er í dag stendur Ísland framarlega í framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Raforkuframleiðsla á Íslandi er nánast eingöngu með endurnýjanlegum hætti, eða 99,9%. Hér á myndinni sést úr hvaða orkugjöfum græna rafmagnið okkar kemur.

Ísland er ekki bara fremst í flokki hvað varðar framleiðslu á endurnýjanlegri orku, heldur einnig heildarnotkun hennar. Á myndinni hér fyrir neðan sést greinilega hvernig endurnýjanlegir orkugjafar hafa tekið yfir frumorkunotkun Íslendinga á ótrúlega skömmum tíma. Eins og staðan er núna er um 85% af allri orku sem er notuð á Íslandi framleidd á endurnýjanlegan hátt.

En eins og sést notum við ennþá eitthvað af jarðefnaeldsneyti. Í hvað er það notað?  Svarið er nokkuð einfalt: Í samgöngur.

Orkuskipti stórt tækifæri

Orkuskipti í samgöngum eru grundvallaratriði þess að Ísland standist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og um leið er það tækifæri til að verða 100% sjálfbær í orkunotkun. Það myndi spara háar upphæðir sem fara annars í innkaup á innfluttri olíu auk þess að hlífa loftslaginu við milljónum tonna af gróðurhúsalofttegundum.

Hvernig verðum við sjálfbær í orkunotkun? Er það yfirhöfuð hægt?

Það er hægt að skipta út öllu jarðefnaeldsneyti sem notað er í samgöngur innanlands út fyrir græna orku. Það er sjálfsagt markmið í landi sem er svo framarlega í framleiðslu á endurnýjanlegri orku að verða sjálfbært í orkuframleiðslu og -notkun.

Hversu mikið þarf til af orku fer eftir því hversu hratt við förum í orkuskipti. Gott er að miða við opinbert markmið stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum fyrir árið 2030 og skoða fleiri sviðsmyndir miðað við það ár.

Það þarf 300 MW til að skipta út nægilegu jarðefnaeldsneyti í samgöngum fyrir hreina, innlenda orkugjafa til að standast skuldbindingar Parísarsamningsins.

Úr niðurstöðum orkuskiptagreiningar Samorku 2020.

Ef horft er til þess að skipta út öllu jarðefnaeldsneyti sem notað er innanlands í samgöngum, þ.e.a.s. í öllum bílum, skipum og flugvélum innanlands fyrir 2030 þarf um 1200 MW, eða 9 TWst á ári. Þar með væri orkunotkun innanlands orðin nær 100% græn.

Niðurstöður orkuskiptagreiningar Samorku frá 2020.

Það sparar heilmikla fjármuni að fara í orkuskipti í samgöngum.

 

Það kostar auðvitað fjármuni að byggja upp innviði fyrir orkuskipti í samgöngum, en þær borga sig til langframa.

Berglind Rán kjörin formaður Samorku

Berglind Ólafsdóttir er nýr formaður Samorku.

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar, var í dag kjörin formaður Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. Hún er fyrsta konan sem gegnir embætti formanns Samorku í sögu samtakanna.

Berglind tekur við af Helga Jóhannessyni, forstjóra Norðurorku, sem gegnt hefur stöðunni síðustu fimm ár.

Helgi var kjörinn aðalmaður í stjórn til næstu tveggja ára ásamt þeim Sigurði Þór Haraldssyni, veitustjóra hjá Selfossveitum, og Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra HS Orku.

Í stjórn sitja jafnframt áfram þau Gestur Pétursson, forstjóri Veitna, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets og Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Þá var Helga Jóhanna Oddsdóttir sviðsstjóri hjá HS Veitum kjörin varamaður í stjórn Samorku í fyrsta sinn. Þau Arndís Ósk Ólafsdóttir, forstöðumaður hjá Veitum, Elías Jónatansson, orkubússtjóri hjá Orkubúi Vestfjarða, Gunnar Hrafn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar sitja áfram sem varamenn í stjórn.

Stjórn Samorku, að loknum aðalfundi 2021, skipa:

Aðalmenn:

Berglind Rán Ólafsdóttir, formaður stjórnar, Orku náttúrunnar
Gestur Pétursson, Veitum
Guðmundur Ingi Ásmundsson, Landsneti
Helgi Jóhannesson, Norðurorku,
Kristín Linda Árnadóttir, Landsvirkjun
Sigurður Þór Haraldsson, Selfossveitum
Tómas Már Sigurðsson, HS Orku

Varamenn:

Arndís Ósk Ólafsdóttir, Veitum
Elías Jónatansson, Orkubúi Vestfjarða
Gunnar Hrafn Gunnarsson, Orkuveitu Húsavíkur
Helga Jóhanna Oddsdóttir, HS Veitum
Hörður Arnarson, Landsvirkjun

Grænn hagvöxtur

Vel heppnuð endurreisn íslensks efnahagslífs að heimsfaraldri COVID-19 afstöðnum er eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Störfum hefur fækkað verulega en skráð atvinnuleysi nam tæpum 11% í desember sl. Afkoma þjóðarinnar er verulega háð útflutningstekjum og því er fjölgun atvinnutækifæra óhjákvæmilega háð vexti og afkomu útflutningsfyrirtækja. Undir núverandi kringumstæðum er því nauðsynlegt að huga að umhverfi atvinnulífsins í því skyni að hlúa að útflutningsframleiðslu. Reynslan kennir okkur að með þeim hætti er unnt að skapa fyrirtækjum forsendur til skapa ný og fjölbreytt störf sem eru vel launuð. Það er m.ö.o. tímabært að stuðla að gjaldeyrissköpun og byggja upp samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja. Að heimsfaraldrinum frátöldum blasa við fleiri áskoranir sem einnig geta talist til tækifæra. Það færist í aukana að mengun og losun koltvísýrings hafi kostnað í för með sér í rekstri fyrirtækja, t.d. vegna reglubyrði, skatta og annarrar verðlagningar. Stærsta sjáanlega tækifæri íslenskra fyrirtækja felst því óhjákvæmilega í uppbyggingu á grænum grunni þar sem áhersla er lögð á atvinnustarfsemi byggða á grænum fjárfestingum. Á það við um fjárfestingar einkaaðila, hins opinbera og fyrirtækja í þess eigu. Með því að leggja rækt við að draga úr mengun og losun batnar nýting orku og auðlinda. Slík viðleitni kallar á mannvit og skapar þannig atvinnutækifæri. Með reynslunni eykst hæfni manna og fyrirtækja sem aftur bætir samkeppnisstöðu þeirra. Í því ljósi verður að teljast hyggilegt að stefnumótun beinist að tækifærum til grænnar atvinnusköpunar í öllum atvinnugreinum. Nýsköpun og þróun tæknilausna draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og lágmarka kolefnisspor fyrirtækja. Hagur allra batnar.

Með tímanum hefur orkuframleiðsla orðið æ mikilvægari þáttur. Orka leikur lykilhlutverk í samfélagi nútímans og hagvöxtur er samofinn beislun og nýtingu hennar. Í alþjóðlegum samanburði er sérstaða Íslands mikil þegar kemur að hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í frumorkunotkun. Þökk sé því að hér á landi eru rafmagnið og heita vatnið af endurnýjanlegum uppruna. Þegar framangreint hlutfall árið 2019 er skoðað kemur í ljósi að á Íslandi nam það 85% en einvörðungu 19,7% í Evrópu og 26,6% í heiminum öllum. Íslendingar hafa náð eftirtektarverðum árangri við útskipti jarðefnaeldsneytis fyrir hreina orkugjafa. Við erum því í einstakri stöðu til að ganga lengra með því að auka nýtingu innlendra, hagkvæmra og hreinna orkugjafa í samgöngum. Ef við höldum rétt á spilunum getum við Íslendingar raunverulega orðið fyrirmynd annarra þjóða og slík ásýnd eykur ein og sér seljanleika innlendra vara og þjónustu.

Stjórnvöld í gjörvöllum heiminum leggja áherslu á orkuskipti og gera ráð fyrir að orkuskipti muni fyrr en varir ná til allra samgangna, á landi, á sjó og í lofti. Á þessum tímapunkti virðist sýnt að framleiðsla á svonefndu rafeldsneyti, orkugjöfum eða orkuberum, muni gegna lykilhlutverki. Eru þá ótalin önnur tækifæri svo sem framleiðsla á orkugeymslum, grænmeti og öðrum matvælum, þörungum o.fl. sem mun kalla á framboð sjálfbærrar og grænnar orku. Við eygjum tækifæri til útflutnings á bæði orkuþekkingu og orku í formi rafeldsneytis. Fari svo sem horfir gæti hér sprottið upp nýr og spennandi iðnaður sem mundi grundvallast á öflugri atvinnusköpun, nýsköpun, gjaldeyrissparnaði og ávinningi í loftslagsmálum.

Á Norðurlöndunum er gert ráð fyrir að grænn vöxtur muni auka eftirspurn eftir raforku. Í Danmörku er áætlað að eftirspurnin muni tvöfaldast til ársins 2030, aukast um 35% í Noregi til ársins 2050, um þriðjung til ársins 2045 í Svíþjóð og um tæp 60% í Finnlandi til 2050. Samkvæmt sviðsmyndum raforkuspár 2020–2060 þarf að auka orkuframleiðslu til að mæta þörfum samfélagsins hér á landi. Sviðsmyndin „græn framtíð“ gerir ráð fyrir að orkuþörfin aukist um 37% en allt að 69% samkvæmt sviðsmyndinni „aukin stórnotkun“ 2019–2060.

Raforkukerfið er því forsenda efnahagslegra framfara. Ætla má að framtíðarnotendur verði virkir þátttakendur í orkuskiptum og þar með örlagavaldar þegar kemur að markmiðum í loftslagsmálum. Fjórða iðnbyltingin verður fyrst og fremst raforkudrifin, þar sem gagnaver, snjallvæðing og gervigreind munu leika lykilhlutverkin. Í þessu samhengi er því mikilvægt að horfa til framtíðar, leggja áherslu á orkuskipti og fullnýta þau tækifæri sem Íslandi standa til boða.

Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Samorku. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 18. febrúar 2021 og hana má finna á vb.is

Nýtum hreina, innlenda orkugjafa á samgöngutæki

Orkuskipti í samgöngum eru mikilvægur hluti alþjóðlegra skuldbindinga í loftslagsmálum á Íslandi. Orkuskipti í samgöngum snúast um að draga úr notkun á innfluttu jarðefnaeldsneyti og nota í staðinn innlenda hreina orkugjafa á bíla, skip og flugvélar.

Orkan sem nýtt er innanlands kemur að langmestu leyti frá endurnýjanlegum orkugjöfum, jarðhita og vatnsafli, eða 91%. Hlutfallið er 85% ef eldsneyti á millilandaflug og farskip eru tekin með. Þessu má þakka þeim orkuskiptum sem á sínum tíma var ráðist í á öðrum sviðum samfélagsins. Aðeins 9% prósent orkunnar sem notuð er innanlands er innflutt eldsneyti, sem nýtt er á samgöngutæki; á bíla, fiskiskip og sjósamgöngur innanlands auk innanlandsflugs.

Samkvæmt aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum til að uppfylla Parísarsamninginn á að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum á landi um 21% miðað við árið 2005, en vegna þess hversu mikið útblástur hefur aukist frá árinu 2005 er talan nú 37%, sem þarf að draga úr, miðað við stöðuna árið 2018. Með því að draga úr þessum útblæstri  getur Ísland lagt enn frekar af mörkum til loftslagsmála, til viðbótar við að hafa húshitun og rafmagnsframleiðslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum, og um leið sparað gjaldeyri og aukið orkuöryggi þjóðarinnar, sem þá verður ekki lengur eins háð innflutningi á eldsneyti.

Orku- og veitufyrirtæki landsins hafa hér stóru hlutverki að gegna og þau hafa unnið að undirbúningi orkuskipta um langt skeið og staðið að öflugum greiningum, rannsóknum og fjárfestingum til að leggja sitt af mörkum.. Þau hafa nú þegar lagt grunninn að nauðsynlegum hleðsluinnviðum um allt land fyrir rafbíla. Auk þess hafa fyrirtækin tekið þátt í að þróa og koma á fót innlendri framleiðslu á öðrum hreinorkugjöfum í formi rafeldsneytis og lífeldsneytis s.s. vetni, metanóli, metan og lífdísel fyrir hreinorkufarartæki framtíðarinnar.

Uppbygging hleðsluinnviða fyrir rafbíla, fjárhagslegir hvatar sem stjórnvöld hafa komið á og stóraukið úrval rafbíla og tengiltvinnbíla hafa nú þegar skilað Íslandi í fremstu röð á heimsvísu í rafbílavæðingu, næst á eftir Noregi sem er í fyrsta sæti. Þá hefur orðið hröð þróun í farartækjum sem nýta rafeldsneyti eða lífeldsneyti s.s. vöru- og hópferðabílum, ferjum, skipum og flugvélum.

Samorka kynnti á ársfundi sínum í gær niðurstöður greininga um orkuskipti í samgöngum á Íslandi. Greiningin byggir meðal annars á niðurstöðum úr nýrri, umfangsmikilli hleðslurannsókn sem staðið hefur yfir í eitt ár með þátttöku tvö hundruð rafbílaeigenda um allt land. Niðurstöðurnar gefa mikilvægar upplýsingar um við hverju megi búast þegar rafbílum fjölgar til muna með tilheyrandi álagi á raforkuframleiðslu-, flutnings- og dreifikerfi landsins.

 

Markmið stjórnvalda um orkuskipti í vegasamgöngum samkvæmt Parísarsamningnum kalla á um 300 MW (1,4 TWh á ári) samkvæmt greiningunni. Fjárfesta þarf um 15 milljarða árlega til ársins 2030 í uppbyggingu flutnings- og dreifikerfis, meðal annars fyrir orkuskipti. Til þess þarf að gera regluverk um þá skilvirkari. Þjóðarbúið sparar um 20-30 milljarða króna á ári vegna minni eldsneytiskaupa og heimilin spara einnig um 400.000 krónur árlega með því að skipta yfir í rafbíl og sleppa við að kaupa eldsneyti. Tveir af hverjum þremur bílum á götunni þurfa að vera orðnir rafbílar fyrir árið 2030. Útblástur myndi minnka um 37% frá samgöngum, eða um 365.000 tonn.

Ef skipta ætti alveg út jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda hreina orkugjafa í öllum bílum, skipum og flugvélum innanlands fyrir árið 2030 þyrfti um 1200 MW (9TWh á ári). Þar með væri orkunotkun innanlands orðin nær 100% græn.

Rannsókn HR og HÍ, sem unnin var fyrir Samorku árið 2018, sýnir að rafbílavæðing er þjóðhagslega hagkvæm. Orkuskipti í samgöngum fela einnig í sér mikil sóknarfæri fyrir Ísland til verðmætasköpunar, atvinnusköpunar og nýsköpunar.

Horfa á ársfund Samorku 2020, Orkuskipti: Hvað þarf til?

Nýir stjórnarmenn hjá ON

Tómas Ingason og Magnús Már Einarsson eru nýir í stjórn Orku náttúrunnar (ON).
Stjórn ON er því skipuð þeim: Hildigunni Thorsteinsson, formanni stjórnar, Elísabetu Hjaltadóttur, Hólmfríði Sigurðardóttur, Magnúsi Má Einarssyni, og Tómasi Ingasyni.

Tómas Ingason hefur starfað sem framkvæmdastjóri viðskipta- og stafrænnar þróunar hjá Icelandair frá 2019, var framkvæmdastjóri viðskiptasviðs WOW Air árið 2018 og gegndi stöðu forstöðumanns stafrænnar framtíðar hjá Arion banka á árunum 2016 – 2018. Tómas útskrifaðist með BSc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2001, MSc gráðu í verkfræði frá MIT Sloan School of Management í Boston árið 2006 og síðar MBA gráðu árið 2012 frá sama skóla.

Magnús Már Einarsson hefur starfað hjá Orkuveitu Reykjavíkur frá 2017, fyrst sem þjónustustjóri innkaupa en frá árinu 2019 sem forstöðumaður aðbúnaðar. Þar áður rak hann ferðaþjónustufyrirtækið Northern Destinations eða frá 2011-2017.  Magnús lauk MBA gráðu frá EMLYON Business School í Frakklandi árið 2011 og útskrifaðist með BSc gráðu í iðnaðverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2008. Þá nam hann frönsku við Sorbonne háskóla árið 2009.

Í febrúarlok á þessu ári auglýsti Orka náttúrunnar í fyrsta sinn eftir stjórnarmanni í stjórn fyrirtækisins. Tómas Ingason var valinn í stjórn í kjölfar auglýsingar. Magnús Már Einarsson er tilnefndur í stjórn af Orkuveitu Reykjavíkur.

Orka náttúrunnar framleiðir og selur rafmagn á ábyrgan og umhverfisvænan hátt og leggur áherslu á jákvæð samfélagsleg áhrif. Fyrirtækið á og rekur tvær jarðgufuvirkjanir, á Hellisheiði og Nesjavöllum, og vatnsaflsvirkjun í Andakíl í Borgarfirði. Jarðgufuvirkjanir leggja til rúman helming heita vatnsins í hitaveitunni á höfuðborgarsvæðinu og þar er framleitt rafmagn fyrir heimili og fyrirtæki um allt land.

ON hefur meðal annars sett sér markmið um kolefnishlutlausa starfsemi árið 2030 og leitt uppbyggingu hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla um allt land á undanförnum árum.

10 milljarða arðgreiðsla til ríkisins

Landsvirkjun greiðir íslenska ríkinu arð upp á 10 milljarða króna fyrir árið 2019, sem er ríflega tvisvar sinnum hærri arðgreiðsla en á síðasta ári, þegar hún nam 4,25 milljörðum kr. Þetta var samþykkt á aðalfundi Landsvirkjunar, sem haldinn var í dag. Árin þar á undan nam arðgreiðslan 1,5 milljörðum kr. árlega.

Á fundinum kom fram að ríkið gerir arðsemiskröfu til eigin fjár Landsvirkjunar upp á 7,5%.

Á aðalfundinum skipaði fjármála- og efnahagsráðherra í stjórn Landsvirkjunar samkvæmt lögum um fyrirtækið. Ekki voru gerðar breytingar á skipan stjórnar frá fyrra starfsári.

Aðalmenn í stjórn Landsvirkjunar eru: Jónas Þór Guðmundsson, Álfheiður Ingadóttir, Jón Björn Hákonarson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Gunnar Tryggvason.

Fjárfestingar OR auknar um tvo milljarða

Á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í gær, 8. apríl, voru samþykktar aðgerðir til að bregðast við þeim afleiðingum sem Covid-19 faraldurinn hefur í för með sér fyrir atvinnulífið. Með aðgerðunum vill OR sýna samfélagslega ábyrgð í verki og auka fjárfestingar í verkefnum sem hafa mikil áhrif í samfélaginu með það að leiðarljósi að viðhalda atvinnustiginu í landinu.

Samþykkt var að auka fjárfestingar samstæðu OR um samtals 2 milljarða króna á árinu 2020. Veitur, eitt dótturfyrirtækja OR, hafa undanfarið skilgreint verkefni sem gætu komið til greina en gert er ráð fyrir því að framkvæmdir við veitukerfin verði uppistaðan í þeim fjárfestingaverkefnum sem ráðist verður í. Lagt er upp með að verkefnin verði mannaflsfrek og að þau verði sem víðast á starfssvæði Veitna.

Jafnframt var samþykkt að stefna að því að auka fjárfestingar á árinu 2021 um allt að 4 milljarða króna en endanleg ákvörðun um aukningu fjárfestinga á árinu 2021 kemur til afgreiðslu við gerð fjárhagsspár í haust.

Nánar um aðgerðir OR í kjölfar COVID-19 má lesa á heimasíðu samstæðunnar.

OR aðili að Nasdaq Sustainable Bond Network

Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið veitt aðild að hinu alþjóðlega Nasdaq Sustainable Bond Network (NSBN), sem er sameiginlegur vettvangur útgefenda grænna og samfélagslega ábyrgra skuldabréfa á Nasdaq verðbréfamörkuðunum víða um heim.

OR er fyrst íslenskra útgefenda til að fá slíka aðild.

Markmið NSBN er að veita fjárfestum greiðan aðgang að upplýsingum um útgefendur grænna og á annan hátt samfélaglega ábyrgra skuldabréfa þannig að þeir geti sannreynt að um slíka útgáfu sé að ræða. Eftirspurn eftir slíkum skuldabréfum fer ört vaxandi og því mikilvægt að fjárfestar geti borið saman hina ýmsu útgefendur slíkra bréfa, hverjir hafi vottað útgáfuna, þau verkefni sem skuldabréfaútgáfan fjármagnar og framgang þeirra verkefna.

Markmið OR með aðildinni er að gera græn skuldabréf fyrirtækisins aðgengilegri fyrir erlenda fjárfesta, breikka þannig kaupendahópinn og á endanum fá betri lánakjör. Svo gæti farið svo að Orkuveita Reykjavíkur myndi eingöngu gefa út græn skuldabréf í framtíðinni, enda teljast nánast öll fjárfestingarverkefni OR og dótturfyrirtækjanna umhverfisvæn.