Blámi í stafni orkuskipta fyrir vestan

Hagkerfi Vestfjarða er algörlega háð jarðefnaeldsneyti. Lífið snýst að miklu leyti um sjávarútveg, en svo eru ferðaþjónusta og skemmtiferðaskip í mikilli sókn og samfélagið reiðir sig á vöruflutninga inn og út af svæðinu. Fyrir Þorstein Másson, framkvæmdastjóra Bláma, er þetta ekkert annað en tækifæri til sóknar í notkun grænnar orku.

Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og Vestfjarðastofu. Meginmarkmið Bláma er að styðja við og efla nýsköpun og þróun orkuskiptaverkefna með því að auka hlut vistvæns eldsneytis, vetnis og rafeldsneytis í samgöngum og iðnaði. 

Þorsteinn Másson er viðmælandi þáttarins og við förum yfir víðan völl um samfélag í örum vexti, ávinning af orkuskiptum fyrir vestan og mikilvægi þess að efla mannauð og þekkingu fyrir orkuskiptin á svæðinu og á Íslandi öllu.