Mikill vöxtur í endurnýjanlegri orkuframleiðslu

Raforkuframleiðsla með endurnýjanlegum orkugjöfum jókst mikið á heimsvísu árið 2013 og nemur nú um 22% af allri raforkuframleiðslu veraldar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA). Ef einungis er horft til evrópskra aðildarríkja OECD nam aukningin árið 2013 6% og nemur endurnýjanleg orka nú 30% allrar raforkuframleiðslu landanna. IEA spáir því að árið 2020 muni endurnýjanleg orka nema 26% af allri raforkuframleiðslu veraldar. Lesa má um skýrsluna hér á vef IEA, en þess má geta að á Íslandi eru 99,9% allrar raforku framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Afhendingaröryggi raforku bætt á Vestfjörðum

Landsnet og Orkubú Vestfjarða hafa tekið í notkun nýtt tengivirki á Ísafirði. Þá hafa styrkingar farið fram á Tálknafjarðarlínu og vinna við varaaflsstöð í Bolungarvík er langt komin og á hún að vera tilbúin til notkunar fyrir árslok. Er þessum framkvæmdum ætlað að efla afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, sem ekki hefur verið ásættanlegt undanfarin ár. Sjá nánar á vef Landsnets.

Lagning Hverahlíðarlagnar að hefjast

Á næstu vikum mun Orka náttúrunnar hefjast handa við lagningu gufulagnar sem tengir jarðhitasvæðið í Hverahlíð á Hellisheiði við Hellisheiðarvirkjun. Líkt og greint var frá í júní í fyrra þarf að efla gufuöflun til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni í Hellisheiðarvirkjun. Afráðið var að nýta borholur sem þegar höfðu verið boraðar við Hverahlíð. Sjá nánar á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

Jarðfræðimálþing „Í fótspor Walkers“ 30. – 31. ágúst 2014 á Breiðdalsvík

Til að heiðra minningu breska jarðfræðingsins George P.L. Walkers og vekja áhuga á jarðfræði Austurlands, mun Breiðdalssetur standa fyrir málþingi um jarðfræði Austurlands helgina 30.-31. ágúst 2014. Markmið málþingsins er að kynna fyrir almenningi sem og fræðimönnum núverandi rannsóknir á jarðlagastafla Austurlands og hagnýtingu hennar í dag (t.d. jarðhitaleit og jarðgangnagerð). Sjá nánar á vef Breiðdalsseturs

9. Norræna vatnsveituráðstefnan haldin í Helsinki

9. Norræna vatnsveituráðstefnan fór fram í Helsinki þann 2.-4. júní síðastliðinn. Sigurjón Norberg Kjærnested framkvæmdastjóri veitusviðs Samorku sótti ráðstefnuna fyrir hönd Samorku, ásamt því að sitja í skipulagsnefnd fyrir ráðstefnuna.

Erindin frá ráðstefnunni má nálgast hér:

Ráðstefnunni var skipt upp í eftirfarandi málstofur:

  1. Management
  2. Microbial quality
  3. Microbiological risk analysis
  4. NOM and membranes
  5. Water Safety Plans
  6. Safety of water supply
  7. Treatment
  8. Distribution

Vel var mætt á ráðstefnuna (yfir 200 manns) og henni gerður góður rómur meðal þátttakenda.

Í lok ráðstefnunnar bauð Sigurjón, fyrir hönd Samorku, þátttakendum að sækja Ísland heim þegar ráðstefnan verður haldin á okkar vegum árið 2016.