Raforkuframleiðsla með endurnýjanlegum orkugjöfum jókst mikið á heimsvísu árið 2013 og nemur nú um 22% af allri raforkuframleiðslu veraldar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA). Ef einungis er horft til evrópskra aðildarríkja OECD nam aukningin árið 2013 6% og nemur endurnýjanleg orka nú 30% allrar raforkuframleiðslu landanna. IEA spáir því að árið 2020 muni endurnýjanleg orka nema 26% af allri raforkuframleiðslu veraldar. Lesa má um skýrsluna hér á vef IEA, en þess má geta að á Íslandi eru 99,9% allrar raforku framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum.
Í tilefni af 100 ára afmæli vatnsveitu á Akureyri heldur Norðurorka ráðstefnuna Vatn – Náttúrugæði í 100 ár í Hofi fimmtudaginn 18. september n.k. Nánar um ráðstefnuna, dagskrá og skráningu, má sjá á heimasíðu Norðurorku.
VÍB, Eignastýring Íslandsbanka, boðar til fundar um arðsemi orkuútflutnings. Þar mun Ola Borten Moe, fyrrverandi orkumálaráðherra Noregs, m.a. tala um reynslu Norðmanna af alþjóðlegum orkumarkaði. Fundurinn verður haldinn í Hörpu þriðjudaginn 9. september og hefst kl. 17:00. Sjá nánar á vef VÍB.
Landsnet og Orkubú Vestfjarða hafa tekið í notkun nýtt tengivirki á Ísafirði. Þá hafa styrkingar farið fram á Tálknafjarðarlínu og vinna við varaaflsstöð í Bolungarvík er langt komin og á hún að vera tilbúin til notkunar fyrir árslok. Er þessum framkvæmdum ætlað að efla afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, sem ekki hefur verið ásættanlegt undanfarin ár. Sjá nánar á vef Landsnets.
Á næstu vikum mun Orka náttúrunnar hefjast handa við lagningu gufulagnar sem tengir jarðhitasvæðið í Hverahlíð á Hellisheiði við Hellisheiðarvirkjun. Líkt og greint var frá í júní í fyrra þarf að efla gufuöflun til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni í Hellisheiðarvirkjun. Afráðið var að nýta borholur sem þegar höfðu verið boraðar við Hverahlíð. Sjá nánar á vef Orkuveitu Reykjavíkur.
Til að heiðra minningu breska jarðfræðingsins George P.L. Walkers og vekja áhuga á jarðfræði Austurlands, mun Breiðdalssetur standa fyrir málþingi um jarðfræði Austurlands helgina 30.-31. ágúst 2014. Markmið málþingsins er að kynna fyrir almenningi sem og fræðimönnum núverandi rannsóknir á jarðlagastafla Austurlands og hagnýtingu hennar í dag (t.d. jarðhitaleit og jarðgangnagerð). Sjá nánar á vef Breiðdalsseturs
Dagana 27.-29. ágúst stendur Orkustofnun fyrir norrænni ráðstefnu í Hörpu um orkustjórnun, þar sem m.a. verður fjallað um varmadælur, orku í byggingum, mismunandi orkugjafa í hitaveitum, hitaveitur á Norðurlöndum, í Ungverjalandi o.fl. Ráðstefnan fer fram á ensku. Sjá nánar hér á vef Orkustofnunar.
9. Norræna vatnsveituráðstefnan fór fram í Helsinki þann 2.-4. júní síðastliðinn. Sigurjón Norberg Kjærnested framkvæmdastjóri veitusviðs Samorku sótti ráðstefnuna fyrir hönd Samorku, ásamt því að sitja í skipulagsnefnd fyrir ráðstefnuna.
Erindin frá ráðstefnunni má nálgast hér:
Ráðstefnunni var skipt upp í eftirfarandi málstofur:
- Management
- Microbial quality
- Microbiological risk analysis
- NOM and membranes
- Water Safety Plans
- Safety of water supply
- Treatment
- Distribution
Vel var mætt á ráðstefnuna (yfir 200 manns) og henni gerður góður rómur meðal þátttakenda.
Í lok ráðstefnunnar bauð Sigurjón, fyrir hönd Samorku, þátttakendum að sækja Ísland heim þegar ráðstefnan verður haldin á okkar vegum árið 2016.
Tilraunarekstur lofthreinsistöðvar við Hellisheiðarvirkjun er hafinn, eftir nokkurra vikna gangsetningarprófanir. Þar með er niðurdæling brennisteinsvetnis frá virkjuninni hafin. Gert er ráð fyrir að stöðin hreinsi 15-20% af brennisteinsvetninu og þar með minnka líkur á því að styrkur þess í andrúmslofti fari yfir mörk í byggð. Sjá nánar á vef Orkuveitu Reykjavíkur.