Áhugaverð erindi á Vísindadegi OR

Hinn árlegi Vísindadagur OR samstæðunnar verður haldinn á Pí daginn 14. mars  á Nauthóli, Nauthólsvegi 106. Kynnt verða áhugaverð rannsóknarverkefni sem unnin eru af starfsfólki Orkuveitunnar, Veitna, ON, GR eða samstarfsaðilum.

Þemu Vísindadagsins í ár eru þrjú; Það sem enginn sér, Framtíðin og 2°C. Erindin snúast meðal annars um:
• loftslagsmál og heilsu
• kolefnisspor og orkuskipti í samgöngum
• bætta auðlindanýtingu
• vatns- og fráveitu
• snjalla framtíð

Skoða má ítarlega dagskrá á vef OR.

Vísindadagur OR er öllum opinn en skráningar er óskað. Boðið verður upp á morgunhressingu fyrir fund og léttan hádegisverð.

Ársskýrsla Landsvirkjunar komin út

Ársskýrsla Landsvirkjunar 2016 er komin út.

Í ár eru árs- og umhverfisskýrslur fyrirtækisins í fyrsta sinn sameinaðar og þar með birtist grænt bókhald fyrirtækisins nú í ársskýrslunni, ásamt annarri ítarlegri umfjöllun um umhverfismál. Með ársskýrslunni er leitast við að auðvelda almenningi að kynna sér fyrirtækið; afkomu þess, umhverfisvöktun og aðra starfsemi.

Þetta er fjórða árið í röð sem ársskýrslan kemur eingöngu út á rafrænu formi, en skýrslurnar hafa fengið fjölda tilnefninga og verðlaun fyrir hönnun hér á landi og erlendis. Slóðin á skýrsluna er slóðin er arsskyrsla2016.landsvirkjun.is.

Sem fyrri ár eru í skýrslunni fjölmörg myndbönd, til dæmis um framkvæmdir við Þeistareyki og Búrfellsvirkjun, virkjunarkosti og auðlindir. Þá má einnig lesa ávarp forstjóra og stjórnarformanns.

 

Kuðungurinn – tilnefningar óskast

Úthlutunarnefnd á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins óskar eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnun, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári, er þess verðug að hljóta umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn fyrir árið 2016.

Óskað er eftir því að stutt greinargerð fylgi með tilnefningunni. Fyrirtæki og stofnanir geta hvort heldur tilnefnt sig sjálf eða verið tilnefnd af öðrum.

Tillögur skulu berast umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eigi síðar en föstudaginn 17. mars nk. merktar „Kuðungurinn“ á netfangið postur@uar.is eða með pósti á heimilisfang ráðuneytisins, Skuggasund 1, 101 Reykjavík.

Kuðungurinn er viðurkenning á framlagi fyrirtækja og stofnana til umhverfismála sem veitt er árlega. Umhverfisráðuneytið veitti Kuðunginn fyrst árið 1995, þá fyrir starf á árinu 1994. Nánari upplýsingar um Kuðunginn má sjá á heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Viðskiptavinir ON ánægðastir

Starfsfólk ON fagnar niðurstöðu Ánægjuvogarinnar

Orka náttúrunnar hlaut í dag viðurkenningu sem það raforkusölufyrirtæki í landinu sem býr við mesta ánægju viðskiptavina sinna.

Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON tók við viðurkenningarskjali þessa efnis þegar niðurstaða Íslensku ánægjuvogarinnar 2016 voru kynntar. Bjarni Már sagði við það tækifæri að fyrirtækið legði sérstaka áherslu á gagnlega upplýsingagjöf í öllum samskiptum við viðskiptavini og tiltók þá nýjung að nú geta rafbílaeigendur sótt sér upplýsingar um stöðu hraðhleðslustöðva ON í gegnum smáforrit fyrir farsíma.

Markmið Íslensku ánægjuvogarinnar er að gera samræmdar og óháðar mælingar á ánægju viðskiptavina og gera niðurstöðurnar opinberar. Mælingar eru einnig gerðar á nokkrum öðrum þáttum sem hafa áhrif á ánægjuna, svo sem ímynd, mati viðskiptavina á gæðum og tryggð viðskiptavina við viðkomandi fyrirtæki.

ON og áður Orkuveita Reykjavíkur hafa tekið þátt í Íslensku ánægjuvoginni um árabil. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækin lenda í fyrsta sæti í þessari keppni um ánægðustu viðskiptavinina.

Orka náttúrunnar, sem er eitt af þremur dótturfyrirtækjum Orkuveitu Reykjavíkur, selur rafmagn um allt land. Rafmagnið er framleitt, ásamt heitu vatni fyrir höfuðborgarsvæðið, í virkjunum ON á Nesjavöllum og Hellisheiði. ON tók til starfa 1. janúar 2014 og er því nýorðið 3ja ára gamalt.

Landsnet og Landsvirkjun gera nýjan samning um reiðuafl

Landsnet og Landsvirkjun hafa gert samning um kaup og sölu á reiðuafli. Um er að ræða 40 MW af alls 100 MW reiðuafli sem Landsvirkjun hefur selt Landsneti á undanförnum árum. Nýi samningurinn tekur við af eldri samningi sem gerður var árið 2005.

Reiðuafl er afl sem notað er til þess að stýra tíðni flutningskerfisins með því að bregðast á fljótvirkan og sjálfvirkan hátt við sveiflum í notkun og framleiðslu raforku, en ómögulegt er að sjá nákvæmlega fyrir slíkar sveiflur.

Reiðuaflssamningar milli fyrirtækjanna eru þrír. Sá sem nú er endurnýjaður felur í sér 30 MW afl frá stöðvum á Þjórsársvæði og 10 MW afl frá Blöndustöð. Hinir samningarnir eru 30 MW hvor, frá Fljótsdalsstöð og Þjórsársvæði.

Tilgangur samningsins er að tryggja þennan lögboðna hluta kerfisþjónustu Landsnets sem er nauðsynlegur til þess að halda uppi gæðum rafmagns um land allt.

Breyttar aðstæður og þrengri aflstaða

Nýting íslenska raforkuvinnslukerfisins eykst stöðugt og eftirspurn eftir orku er meiri en framboð. Verð í hinum nýja samningi tekur mið af nýgerðum samningum Landsvirkjunar við sölufyrirtæki raforku og byggir m.a. á áætluðum kostnaði við fjárfestingu í auknu afli í raforkukerfinu við núverandi aðstæður.

Landsnet mun birta reiðuaflssamninginn á heimasíðu sinni.

Ný bók um jarðhitalöggjöf

Lögmannsstofan BBA hefur gefið út handbókina „Geothermal Transparency Guide“. Í bókinni er veitt yfirsýn yfir helstu atriði jarðhitalöggjafar er varða rannsóknir, nýtingu og framleiðslu á raforku með jarðhita í 16 löndum, þ.m.t. á Íslandi. Löndin sem fjallað er um í bókinni eiga það sammerkt að nýta jarðhita til raforkuvinnslu nú þegar eða hafa möguleika og áhuga á slíkri nýtingu.

Markmið útgáfunnar er að auka gagnsæi og þekkingu á lagaumhverfi umræddra ríkja hvað varðar aðgang að auðlindum og önnur réttindi og skyldur aðila, bæði opinberra aðila og einkaaðila. Við vinnslu bókarinnar fékk BBA til liðs við sig  lögfræðistofur í hverju ríki fyrir sig til að geta lýst regluverki jarðvarma í hverjum stað.

Handbókin er án endurgjalds og má finna á heimasíðu BBA og einnig eftir óskum á bókarformi. Nánari upplýsingar beinist til ritstjóra bókarinnar, Hörpu Pétursdóttur, í netfangið harpa@bba.is.

160 sólarorkulampar til Afríku

givewatts_2Samorka mun koma 160 sólarorkulömpum til Kendu Bay í Kenýa, Afríku í samstarfi við GIVEWATTS og skipta þar með út heilsuspillandi steinolíulömpum fyrir endurnýjanlegan orkugjafa.

Ráðist var í verkefni í tilefni af degi rafmagnsins sem haldinn var hátíðlegur mánudaginn 23. janúar. Tilgangurinn með deginum er að vekja athygli á mikilvægi rafmagns í samfélaginu, í leik og starfi og þeim hreina endurnýjanlega orkugjafa sem Íslendingar hafa aðgang að á hverjum degi, ólíkt mörgum öðrum þjóðum. SAMORKA biðlaði til almennings um að vekja athygli á verkefninu með því að merkja mynd með #sendustraum á samfélagsmiðlum.

dagur-rafmagnsins-logo

Um það bil 800 manns í bænum Kendu Bay munu því njóta góðs af degi rafmagnsins á Íslandi, þar sem að meðaltali fimm einstaklingar njóta góðs af hverjum lampa. Sólarorkulampi gefur næga birtu til að halda áfram daglegu amstri eftir að sólin er sest án þess að heimilisfólk hafi áhyggjur af heilsufari eða fjárhag. Að auki gefur hann næga orku svo hægt sé að hlaða farsíma.

Hægt verður að fylgjast með framvindu verkefnsins í nafni SAMORKU á heimasíðu GIVEWATTS þegar fram líða stundir.

GIVEWATTS eru samtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni (non-profit organization) og sérhæfa sig í heimilistækjum sem ganga fyrir endurnýjanlegri orku. Í lok árs 2016 hafði GIVEWATTS dreift rúmlega 25 þúsund lömpum til heimila og skóla í Kenýa og Tansaníu.

Hægt er að skoða þær myndir sem merktar voru #sendustraum á Instagram. Til gamans má einnig benda á aðrar merkingar sem notaðar eru á Norðurlöndunum á degi rafmagnsins, eins og #Elensdag í Svíþjóð og #Sähkönpäivä í Finnlandi, en dagur rafmagnsins hefur haldinn um nokkurra ára skeið í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi.

Hálf milljón fyrir besta orkutengda verkefnið

16395795_10154024672722260_128439244_nAtvinnu- og nýsköpunarhelgin verður haldin á Akureyri helgina 3.- 5. febrúar. Verkefnið er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og atvinnulífins og snýst um að virkja fólk til athafna. Markmiðið er að fá alla áhugasama, 18 ára og eldri, til að vinna saman að nýjum og gömlum hugmyndum sem gætu endað sem fyrirtaks viðskiptaáætlun eða atvinnutækifæri. Verðlaun verða svo veitt í nokkrum flokkum.

Verðlaun fyrir bestu hugmyndina eru 1 milljón króna, en þar að auki ætlar Eimur að veita sérstök verðlaun fyrir besta orkutengda verkefnið að upphæð 500 þúsund.

Þátttaka er ókeypis en nauðsynlegt er að skrá sig til leiks.

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag, dagskrá og skipuleggjendur má sjá á heimasíðu Atvinnu- og nýsköpunarhelgarinnar.

Orkusalan aðalbakhjarl Vetrarhátíðar 2017

orkusalan-vetrarhatid
Magnús Kristjánsson, frkvstj. Orkusölunnar, og Áshildur Bragadóttir, forstöðukona Höfuðborgarstofu, undirrita samstarfssamninginn.

Orkusalan verður aðalbakhjarl Vetrarhátíðar í Reykjavík í ár, en samstarfssamningur fyrirtækisins og Höfuðborgarstofu var undirritaður á dögunum.

Vetrarhátíð í Reykjavík verður haldin í 16. sinn dagana 2. – 5. febrúar. Megintilgangur Vetrarhátíðar er að skemmta fólki á höfuðborgarsvæðinu og gefa því tækifæri til að njóta ókeypis viðburða á sviði menningar, lista, íþrótta og útiveru í eigin sveitarfélagi og/eða heimsækja nágranna sína í nærliggjandi sveitarfélagi.

Norðurljósalitirnir, grænn og fjólublár eru einkennislitir Vetrarhátíðar og verða á þriðja tug bygginga á höfuðborgarsvæðinu upplýstar auk ljóslistaverka á þekktum byggingum á höfuðborgarsvæðinu.

Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar, segir samninginn gera fyrirtækinu kleift að styðja við menningarlífið á höfuðborgarsvæðinu þar sem ljós og myrkur spili lykilhlutverk en einnig eigi hátíðin vel við hlutverk Orkusölunnar um að koma höfuðborgarbúum í stuð!

HS Orka bakhjarl Kvenna í orkumálum

Frá undirritun samningsins í Eldvörpum
Frá undirritun samningsins í Eldvörpum

HS Orka verður bakhjarl samtakanna Konur í orkumálum, en skrifað var undir samninginn á dögunum. Samningurinn er til tveggja ára.

Haft er eftir Ásgeiri Margeirssyni, forstjóra HS Orku á heimasíðu fyrirtækisins, að það sé nauðsynlegt  að auka hlut kvenna í orkugeiranum og að HS Orka sé stolt af því að vera bakhjarl þessa mikilvæga félags. Jafnframt segist hann bjartsýnn á að fleiri konur sæki í orkuiðnaðinn á komandi árum.

Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu HS Orku.