Góður árangur í fjármögnun hjá Landsneti

landsnet

Landsnet hefur gefið út óveðtryggð skuldabréf að fjárhæð 200 milljónir bandaríkjadollara (22,9 milljarðar króna). Fjármögnunin er liður í því að tryggja félaginu fjármagn á hagstæðum kjörum til lengri tíma, breyta samsetningu lána og draga úr gengisáhættu.

Bréfin eru að stærstum hluta með gjalddaga eftir tíu til tólf ár og bera að meðaltali 4,56% fasta vexti. Þau voru seld til alþjóðlegra fagfjárfesta í lokuðu útboði og munu ekki verða skráð í Kauphöll.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir þessa fyrstu erlendu skuldabréfaútgáfu Landsnets vera stórt skref og það sé ánægjulegt hvað fjárfestar sýndu félaginu mikið traust

„Skuldabréfaútgáfan skilar okkur hagstæðari kjörum auk þess sem dregið er úr gengisáhættu en félagið tók upp dollar sem uppgjörsmynt í ársbyrjun. Þá er lánstíminn lengri en almennt hefur tíðkast í erlendum lántökum síðustu árin. Við erum fyrsta orkufyrirtækið á landinu til að fara þessa leið í fjármögnun og er ánægjulegt hvað kjörin sem okkur bjóðast eru hagstæð og móttökurnar góðar. Það er árangur mikillar og góðrar kynningar á bæði félaginu og Íslandi.“

Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Landsnets.

 

Orkusalan gefur fyrsta Græna ljósið

Magnús Kristjánsson, forstjóri Orkusölunnar, afhendir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, Græna ljósið.
Magnús Kristjánsson, forstjóri Orkusölunnar, afhendir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, Græna ljósið.

WOW air hlaut á dögunum viðurkenninguna Grænt ljós frá Orkusölunni fyrst allra fyrirtækja. Með viðurkenningunni er staðfest að öll raforkusala til WOW air er að fullu vottuð endurnýjanleg með upprunaábyrgðum samkvæmt alþjóðlegum staðli.

„Græn vottun getur skipt máli í viðskiptaumhverfinu og því felur ljósið í sér tækifæri fyrir viðskiptavini okkar til að aðgreina sig á markaðnum,“ segir Magnús Kristjánsson, forstjóri Orkusölunnar. „Með því að gefa Grænt ljós viljum við koma til móts við umhverfið. Það gerum við með því að hjálpa okkar viðskiptavinum við að auka samkeppnishæfni sína — um leið og þau styðja við vinnslu endurnýjanlegrar orku. Það er auðvitað eitthvað sem er okkur öllum í hag“.

Nánari upplýsingar um Grænt ljós má sjá á heimasíðu Orkusölunnar.

Kerfi upprunaábyrgða (stundum kallað græn skírteini) gerir kaupendum raforku í Evrópu kleift að styðja við vinnslu á endurnýjanlegri orku, óháð notkuninni. Ísland er hluti af innri markaði ESB í gegnum EES-samninginn og þar með hluti af þessu kerfi, sem ætlað er að sporna gegn auknum gróðurhúsaáhrifum í krafti aukins hvata til orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Nánari upplýsingar um upprunaábyrgðir raforku.

Páll Erland ráðinn framkvæmdastjóri Samorku

Páll Erland er nýr framkvæmdastjóri Samorku
Páll Erland er nýr framkvæmdastjóri Samorku

 

Páll Erland hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja.

Páll hefur starfað í orku- og veitufyrirtækjum frá árinu 2001. Páll var meðal annars framkvæmdastjóri veitureksturs Orkuveitu Reykjavíkur í sjö ár og framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar frá því orkufyrirtækið var stofnað árið 2014. Þá hefur hann einnig setið í stjórn HS Veitna. Páll er með MBA frá Rockford University í Bandaríkjunum og BS í viðskiptafræði frá sama skóla.

Páll hefur störf í ársbyrjun 2017. Hann tekur við starfinu af Gústaf Adolf Skúlasyni sem sagði starfi sínu lausu í október en gegnir því áfram þar til Páll tekur til starfa. Gústaf verður samtökunum jafnframt áfram innan handar fyrst um sinn.

 

Landsvirkjun og Advania gera rafmagnssamning

Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar handsala nýjan rafmagnssamning fyrirtækjanna.
Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar handsala nýjan rafmagnssamning fyrirtækjanna.

Landsvirkjun og Advania hafa undirritað samning um afhendingu á rafmagni til gagnavers Advania á Fitjum. Samningurinn gerir Advania kleift að halda áfram að tryggja vöxt gagnaversreksturs fyrirtækisins og hefst afhending samkvæmt samningi fyrir árslok 2016.

Orkan verður afhent úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar fagnar komu Advania í hóp viðskiptavina fyrirtækisins og segir Ísland bjóða kjöraðstæður fyrir rekstur gagnavera, segir á vef Landsvirkjunar.

 

Jákvæð niðurstaða fyrir HS Orku

hsorkalogo

HS Orku hf. hefur borist jákvæð niðurstaða í gerðardómsmálinu sem varðaði gildi orkusölusamnings milli HS Orku hf. og Norðuráls Helguvíkur ehf. Þetta kemur fram á heimasíðu HS Orku í dag.

Gerðardómurinn komst að þeirri niðurstöðu að orkusölusamningurinn væri sökum tiltekinna kringumstæðna ekki lengur í gildi. Ennfremur var það niðurstaða gerðardómsins að lok samningsins væru ekki af völdum HS Orku og öllum gagnkröfum Norðuráls Helguvíkur ehf. í málinu var hafnað.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku hf., sagði af þessu tilefni: „Við erum ánægð að þetta langvinna mál sé nú að baki. Þessi niðurstaða mun gera okkur kleift að leita nýrra samningstækifæra á Íslandi án takmarkana eftir því sem ný orka verður til reiðu.“

Ísland trónir á toppnum

Ísland stendur sig best allra þjóða þegar kemur að hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í rafmagnsframleiðslu, samkvæmt nýjum tölum frá Alþjóða orkumálastofnuninni (IEA). Hér á landi er hlutfallið 99,99% og er mun hærra en í öðrum Evrópulöndum, að Noregi frátöldum þar sem hlutfallið er tæp 98%.

 

Að sama skapi skipar Ísland neðsta sætið þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis (olíu, kola og gass) við rafmagnsframleiðslu er borið saman. Þar er hlutfallið 0,01%, hérlendis, en hjá rétt um helmingi samanburðarlanda er hlutfallið um og yfir 50%.

 

Á heimsvísu snýst baráttan gegn losun gróðurhúsalofttegunda einkum að því að minnka losun frá orkuframleiðslu og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Þessar nýju tölur staðfesta sterka stöðu Íslands.

Eins og sjá má standa Eistland, Pólland og Holland frammi fyrir verðugu verkefni þegar kemur að því að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í rafmagnsframleiðslu, en hlutfall kola, gass og olíu er þar í kringum 90%.

Góð rekstrarniðurstaða OR

or

Hagnaður OR eftir fyrstu níu mánuði ársins nemur 9,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu í dag.

Nettóskuldir OR hafa lækkað um 17,8 milljarða frá áramótum. Þar af hefur styrking krónunnar skilað 3,8 milljörðum til lækkunar skulda og færist til tekna.

Í gær tilkynntu Veitur um gjaldskrárbreytingar sem verða um áramót. Veitur er dótturfyrirtæki OR sem sér um rekstur hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og rafveitu víða á sunnan- og vestanverðu landinu. Sparnaður í rekstrinum gerir fyrirtækinu kleift að lækka gjaldskrá rafmagnsdreifingar um 5,8%. Rafveita Veitna þjónar Reykjavík, Akranesi, Mosfellsbæ, Kópavogi og meirihluta Garðabæjar. Gjaldskrá vatnsveitnanna lækkar um allt að 11,2% en miklar fjárfestingar í fráveitum og hitaveitum leyfa ekki lækkun á þeim gjaldskrám.

 

Óskað eftir tilnefningum til Menntaverðlauna atvinnulífsins

Marel fékk Menntaverðlaun atvinnulífsins árið 2015
Marel fékk Menntaverðlaun atvinnulífsins árið 2015

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 2. febrúar 2017. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála fyrir 12. desember nk.

Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum, menntafyrirtæki og menntasproti ársins 2017, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Frekari upplýsingar um viðmið, verðlaunin og mat dómnefndar má finna á vef SA.

Tilnefningar sendist í tölvupósti á sa@sa.is – eigi síðar en mánudaginn 12. desember nk. Ekki er tekið við tilnefningum eða gögnum eftir þann tíma.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Alþjóðlegi klósettdagurinn

Klósettdagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur 19. nóvember ár hvert á vegum UN Water frá árinu 2013. Honum er ætlað að minna á að ekki búa allir við þann lúxus að hafa salerni á heimili sínu, sem hefur gríðarleg áhrif á lífsgæði og lífslíkur fólks um allan heim.

Salerni er mikilvægur þáttur í sterku hagkerfi. Þau bæta heilsu almennings, öryggi og sjálfsvirðingu, ekki síst fyrir stúlkur og konur. UN Water hefur það að markmiði að allir jarðarbúar hafi aðgang að salerni fyrir árið 2030. Á vef Sameinuðu þjóðanna um klósettdaginn koma fram athyglisverðar staðreyndir:

  • Talið er að 2,4 milljarðar jarðarbúa búi við ófullnægjandi salernisaðstæður
  • Einn af hverjum tíu jarðarbúa neyðist til að ganga örna sinna utandyra
  • 315.000 börn deyja árlega vegna niðurgangs og vökvataps sem rekja má til óhreins vatns og ófullnægjandi hreinlætis
  • Tapað vinnuframlag vegna veikinda, sem koma mætti í veg fyrir með betra hreinlæti, kosta margar þjóðir allt að 5% af  landsframleiðslu

En einnig gefur dagurinn tilefni til þess að minna á að klósett og klósettferðir er ekki feimnismál, eins og oft vill verða!

Í ár vilja íslenskar fráveitur minna á það faglega starf sem unnið er til að allir geti notað klósettið áhyggjulaust og um leið minna á að ekki má henda hverju sem er í það.
Veitur hafa látið framleiða nýja skemmtilega herferð, Blautþurrkan er martröð í pípunum, þar sem minnt er á að blautþurrkum á að henda í ruslið, ekki í klósettið. Sjá má sjónvarpsauglýsinguna hér fyrir  neðan:

Þá ræddi Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri hjá Veitum, málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Blautþurrkur leysast ekki auðveldlega upp og geta valdið tjóni ef þeim er hent í klósettið. Rör geta stíflast á heimilum með tilheyrandi vatnstjóni og kostnaði við viðgerðir og hreinsibúnaður í fráveitukerfinu vinnur ekki á þessum þurrkum og fer illa í glímunni við þær.

Við bendum sérstaklega á að þó sumir framleiðendur taki fram á umbúðunum að blautþurrkurnar þeirra megi fara í klósettið þá er það ekki rétt.

Þetta á að sjálfsögðu við um fleiri hreinlætisvörur:

Blautþurrkur
Bleiur
Dömubindi
Túrtappa

Í ruslið með þetta allt – það er hundleiðinlegt að fást við afleiðingarnar ef það ratar í klósettið.

Göngum vel um klósettið okkar – það er mikilvægur þáttur af okkar daglega lífi.

Lesa má frekari upplýsingar á heimasíðu Alþjóðlega klósettdagsins.

Bjarni Már Júlíusson ráðinn framkvæmdastjóri ON

Bjarni Már Júlíusson er nýr framkvæmdastjóri ON
Bjarni Már Júlíusson er nýr framkvæmdastjóri ON

Stjórn Orku náttúrunnar (ON) hefur gengið frá ráðningu Bjarna Más Júlíussonar í starf framkvæmdastjóra.

Bjarni Már hefur verið forstöðumaður tækniþróunar ON frá því fyrirtækið tók til starfa í ársbyrjun 2014. Hann tekur við starfi framkvæmdastjóra frá og með deginum í dag, 14. nóvember 2016.

Nánari upplýsingar um ráðninguna má sjá á vef ON.