Hálendisþjóðgarður og orkuauðlindir þjóðarinnar

Grein eftir Ingibjörgu Ólöfu Ísaksen og Helga Jóhannesson:

Í grein sem umhverfisráðherra skrifar í Vikudag þann 16. janúar sl. fjallar hann um drög að frumvarpi um hálendisþjóðgarð og setur m.a. fram spurninguna „Hvað með virkjanir?“.

Þar kemur ráðherra inn á að virkjanir hafi verið bitbein stjórnmála og samfélagslegrar umræðu og nú sé reynt að sætta þau sjónarmið með því að virða leikreglur laga um vernd- og orkunýtingu, svokallaðar rammaáætlanir. Hér á ráðherrann við rammaáætlun þrjú sem að líkindum mun koma fram á Alþingi á þessum vetri. Í rammaáætlun þrjú er aðeins einn orkunýtingarkostur innan vænts hálendisþjóðgarðs sem er í nýtingarflokki. Um er að ræða orkukostinn Skrokköldu með um 45 MW afl, af orkukostum upp á rúmlega 2000 MW sem voru til umfjöllunar í rammaáætlun þrjú og falla innan marka hálendisþjóðgarðs. Aðrir kostir eru í bið- eða verndarflokki. Það kemur fram í skrifum umhverfisráðherra að eigi að færa verkefni úr biðflokki í nýtingarflokk rammaáætlunar þrjú, verði það gert á forsendum þjóðgarðsins. Því er ekki hægt að búast við miklu, ef einhverju, til viðbótar síðar í nýtingarflokk ef rammaáætlun þrjú verður samþykkt óbreytt. Í verkferli er nú rammaáætlun fjögur og í framtíðinni var, og er gert ráð fyrir, að fleiri áfangar komi fram. Því er enn ekki komin fram nein endanleg sýn á hversu stór orkuauðlind Íslendinga er á hálendinu en vafalítið er það orkuríkasta svæði landsins

Það er í hæsta máta einföldun að tala um virkjanir sem hlutlægan og sérstæðan hlut. Virkjun er bara birtingarmynd þess að þjóðfélagið er að nýta orkuauðlind í efnahagslegu samhengi, til að að þjóna þörfum heimila og atvinnulífs í landinu. Í stóru myndinni, fyrir okkur Íslendinga, snýst málið um það hvort breyta eigi landnotkun hálendisins þannig að lokað verði fyrir aðgengi þjóðarinnar að orkuauðlindum sínum um alla framtíð. Það er einnig í hæsta máta óeðlilegt og óráðlegt að lokað sé á mögulega orkunýtingu á hálendi Íslands áður en lokið er gerð orku- og orkuöryggisstefnu fyrir Ísland. Ljóst er að þörfin fyrir orku fer vaxandi eftir því sem samfélagið stækkar, auk þess sem huga þarf að nægu framboði af innlendri grænni orku fyrir orkuskiptin sem stefnt er að. Við sem störfum í orku- og veitugeiranum teljum okkur skylt að draga ofangreinda staðreynd fram. Við erum ekki að virkja virkjananna vegna, heldur vegna þeirra samfélagslegu og efnahagslegu áhrifa sem nýting orkuauðlinda skapar fyrir þjóðarbúið. Enda hefur hagnýting okkar endurnýjanlegu orkuauðlinda lagt grunninn að lífsgæðum og verðmætasköpun í landinu síðustu hundrað árin. Það koma kynslóðir á eftir okkur sem þurfa og vilja hafa tækifæri til að nýta landið á sinn hátt m.a. af efnahagslegum ástæðum. Þá er rétt að minna á það framlag sem orkuauðlindir í vatnsafli og jarðvarma skapa til hnattrænna loftlagsmála.

Annað er að umræðan um hálendisþjóðgarð hefur ekki náð að þróast og er keyrð fram í flýti. Það er þekkt erlendis að þjóðgarðar eru flokkaðir í svæði þar sem mismikil friðun á sér stað, allt eftir verðmætamati þeirrar náttúru sem friða á og þörfum viðkomandi þjóða fyrir atvinnustarfsemi og hagnýtingu auðlinda á þeim svæðum. Í fyrstu umræðum um þjóðgarð var þess alltaf getið að svo myndi einnig verða innan vænts þjóðgarðs en eins og fram kemur í grein ráðherrans er hér verið að draga línu í sandinn gegn mögulegri framtíðarnýtingu orkuauðlinda. Hér er um veigamikla stefnubreytingu í landnotkun að ræða því hátt í 70% af raforkuframleiðslu þjóðarinnar í dag eru upprunnin innan marka fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs. Ekki er rétt að draga þá mynd upp að þetta sé barátta á milli þeirra sem vilja friða, eða breyta landnotkun hálendisins, og þeirra sem vilja virkja. Það er of mikil einföldun því öll viljum við náttúrunni hið besta. Það er réttmætt og eðlilegt, þegar svo mikið er í húfi sem hér, að benda löggjafanum á ofangreint svo þingmenn taki ákvörðun um breytta landnotkun hálendisins með „opin augu“ og með framtíðarkynslóðir Íslendinga í huga.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. febrúar. 

Orkuveita Reykjavíkur Menntafyrirtæki ársins

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í dag fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Orkuveita Reykjavíkur er Menntafyrirtæki ársins og Samkaup Menntasproti ársins. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhentu verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu í dag.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Ásdís Eir Símonardóttir mannauðssérfræðingur hjá OR, Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Orkuveita Reykjavíkur rekur mikilvæga innviði samfélagsins í orkuframleiðslu og veitustarfsemi. Fyrirtækið sér þremur af hverjum fjórum Íslendingum fyrir rafmagni, heitu og köldu vatni ásamt því að annast fráveitu og gagnaflutning. Rík og löng hefð er fyrir gróskumiklu fræðslu- og símenntunarstarfi í fyrirtækinu til að mæta áskorunum nýrrar tækni og breytingum á störfum.

„Reynslan hér hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögunum er sú að fræðsla og stöðug þekkingarleit eru lykilþættir í því að fyrirtækin laði að sér framúrskarandi starfsfólk og haldi í það. Sífellt hraðari breytingar í þeim samfélögum sem við þjónum kalla á nýjar lausnir og nýsköpun og framþróun þjónustunnar er grundvöllur þess að fyrirtækið standist tímans tönn, sé sjálfbært. Starfsfólkið og stöðug þróun þekkingar þess er því ein af forsendum þess að reka sjálfbært fyrirtæki. Skipulegt fræðslustarf er þar nauðsyn,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.

Menntasproti ársins 2020

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa, Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsvið Samkaupa og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Samkaup hlýtur Menntasprota atvinnulífsins árið 2020. Mikil áskorun er fólgin í rekstri 60 verslana með tæplega 1.300 starfsmenn um land allt undir fjölmörgum vörumerkjum og þjónustuleiðum. Yfirstjórn Samkaupa tók ákvörðun um að sérstök áhersla á fræðslu- og menntamál væri einn lykilþátta góðs rekstrar. Sett eru fram skýr markmið þar sem áhersla er lögð á hæfni og færni starfsfólks á öllum sviðum rekstrarins. Leiðarljósið er starfsánægja, jákvætt viðhorf og gott orðspor jafnt fyrir nýtt starfs¬fólk og viðskiptavini félagsins.

„Samkaup leggja ríka áherslu á að styðja starfsfólk sitt til áframhaldandi starfsþróunar og er eitt af megin markmiðum fyrirtækisins að starfmenn Samkaupa fái tækifæri til að stunda nám samhliða vinnu sem opnar tækifæri til frekari starfsþróunar innan fyrirtækisins sem og utan þess,“ segir Gunnur Líf Gunnardóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa.

„Við hjá Samkaupum erum mjög stolt af þessum verðlaunum enda höfum við lagt mikla vinnu í skipulagða og markvissa fræðslu innan fyrirtækisins. Það er mikið verk að stuðla að þekkingaröflun fyrir allt okkar fólk og að fá verðlaun fyrir vel unnin störf skiptir okkur miklu máli.“

„Meginþungi í okkar stefnu til framtíðar er að vera með forskot í samkeppni á grundvelli mannauðs og fyrirtækjamenningar sem birtist í þekkingu og að byggja upp hæfni starfsfólks sem endurspeglar þá ímynd sem byggð er upp í öllum vörumerkjum Samkaupa“ segir Gunnur Líf.

Menntadagurinn er árlegur viðburður en að þessu sinni var fjallað um sköpun í ýmsum myndum. Að deginum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

OR aðili að Nasdaq Sustainable Bond Network

Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið veitt aðild að hinu alþjóðlega Nasdaq Sustainable Bond Network (NSBN), sem er sameiginlegur vettvangur útgefenda grænna og samfélagslega ábyrgra skuldabréfa á Nasdaq verðbréfamörkuðunum víða um heim.

OR er fyrst íslenskra útgefenda til að fá slíka aðild.

Markmið NSBN er að veita fjárfestum greiðan aðgang að upplýsingum um útgefendur grænna og á annan hátt samfélaglega ábyrgra skuldabréfa þannig að þeir geti sannreynt að um slíka útgáfu sé að ræða. Eftirspurn eftir slíkum skuldabréfum fer ört vaxandi og því mikilvægt að fjárfestar geti borið saman hina ýmsu útgefendur slíkra bréfa, hverjir hafi vottað útgáfuna, þau verkefni sem skuldabréfaútgáfan fjármagnar og framgang þeirra verkefna.

Markmið OR með aðildinni er að gera græn skuldabréf fyrirtækisins aðgengilegri fyrir erlenda fjárfesta, breikka þannig kaupendahópinn og á endanum fá betri lánakjör. Svo gæti farið svo að Orkuveita Reykjavíkur myndi eingöngu gefa út græn skuldabréf í framtíðinni, enda teljast nánast öll fjárfestingarverkefni OR og dótturfyrirtækjanna umhverfisvæn.

 

Framvarðasveit í fárviðri á degi rafmagnsins

Hin ótrúlega atburðarás sem fór í gang í óveðrinu mikla sem gekk yfir landið í desember 2019 og afleiðingar þess voru til umfjöllunar á opnum fundi Samorku í morgun undir yfirskriftinni Framvarðasveit í fárviðri. Á fundinum var farið yfir hvað gerðist, til hvaða aðgerða var gripið til og sýndar myndir frá erfiðum aðstæðum sem vinnuflokkar frá orku- og veitufyrirtækjunum þurftu að vinna við til að koma rafmagni aftur á.

Fundurinn var haldinn á degi rafmagnsins, sem haldinn er hátíðlegur á Norðurlöndum þann 23. janúar ár hvert, en tilgangur hans er að minna á mikilvægi rafmagns í lífi okkar og starfi. Óhætt er að segja að óveðurshrinan hafi rækilega minnt Íslendinga á hversu samofið rafmagnið er okkar daglega lífi og vakið upp spurningar um ástand raforkuinnviðanna.

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, tilkynnti meðal annars um 230 milljóna aukningu til úrbóta í dreifikerfinu fyrir norðan.

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK

 

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets
Malín Frid, línumaður hjá Veitum ásamt samstarfsmönnum sínum

 

Upptökur af fundinum má nálgast hér fyrir neðan.

Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku og fundarstjóri fundarins, bauð gesti velkomna og kynnti þau verkefni sem Samorka hefur áður stutt við í tilefni dags rafmagnsins; sólarorkulampa til Afríku.

Dagur rafmagnsins: Opnun fundar – Lovísa Arnadóttir from Samorka on Vimeo.

 

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, fór vel yfir atburðarás óveðursdagsins í máli og myndum. Hann sagði meðal annars frá því að 60 möstur, yfir hundrað staurar og um 50 þverslár brotnuðu og að hátt í hundrað manns hafi komið á verkefnum tengdum veðrinu.

Að standa í storminum – Gudmundur Ingi Ásmundsson from Samorka on Vimeo.

Glærur Guðmundar:

Að standa í storminum

 

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, fór einnig yfir atburðarásina frá sjónarhóli dreifikerfisins og tilkynnti um 230 milljóna aukningu fjármagns til endurbóta á dreifikerfinu fyrir norðan.

Vegna galla í Powerpoint sýningu Tryggva á fundinum skekkjast einhver kort, hér má sækja kynninguna á pdf með réttri framsetningu:

Þegar raforkukerfið brestur – Erindi TÞH á Opnum fundi Samorku 23. janúar 2020 – Lokaskjal

Þegar raforkukerfið brestur – Tryggvi Þór Haraldsson from Samorka on Vimeo.

 

Malín Frid er ekki staðalímynd iðnaðarmannsins. Hún er hins vegar handhafi titilsins Harðasti iðnaðarmaður landsins, eftir árlega kosningu á visir.is, og ein þeirra línumanna sem stóðu vaktina í óveðrinu fyrir norðan.

Sögur úr loftlínunni – Malín Frid from Samorka on Vimeo.

Glærur Malínar:

Sögur úr loftlínunni

 

Að lokum sagði Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, frá vinnu starfshóps stjórnvalda um úrbætur á innviðum en í mörg horn þarf að líta þar.

Starfshópur stjórnvalda um úrbætur á innviðum – Benedikt Árnason from Samorka on Vimeo.

Glærur Benedikts:

Benedikt – kynning á opnum fundi Samorku 23. janúar 2020

Nýir framkvæmdastjórar hjá HS Orku

HS Orka hefur ráðið tvo nýja framkvæmdastjóra til starfa.

Sunna Björg Helgadóttir hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri tæknisviðs HS Orku og hefur störf hjá fyrirtækinu í byrjun febrúar.

Sunna er með meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og B.Sc. gráðu í efna- og vélaverkfræði.
Víðtæk reynsla Sunnu mun nýtast fyrirtækinu í þeim fjölmörgu verkefnum sem eru framundan. Hún hóf sinn starfsferil hjá ISAL og starfaði þar samtals í 14 ár, síðast sem framkvæmdastjóri rafgreiningar frá 2013 – 2015. Þá tók hún við starfi framkvæmdastjóra tæknisviðs hjá Alvotech frá 2015- 2018 og nú síðast starfaði hún sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Codex á Íslandi.

 

 

Björk Þórarinsdóttir hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála- og þjónustu og tekur við starfi í lok janúar.

Björk er með Cand. Oecon. af stjórnunarsviði frá Háskóla íslands og próf í verðbréfamiðlun frá Háskólanum í Reykjavík.
Í dag rekur Björk ráðgjafafyrirtæki á sviði viðskiptaþróunar, stefnumótunar og fjármálaráðgjafar. Áður starfaði hún m.a. hjá Arion banka (áður Kaupþing) á skrifstofu bankastjóra og sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs. Hún starfaði sem fjármálastjóri erlendis í alþjóðlegum fyrirtækjum í tæp 10 ár og hefur talsverða reynslu af setu í ýmsum stjórnum og ráðum.

 

 

HS Orka er leiðandi í nýtingu jarðvarma á Íslandi og rekur tvö orkuver í Svartsengi og á Reykanesi. Þá verður fyrsta vatnsaflsvirkjun fyrirtækisins í Tungufljóti gangsett á næstu dögum. Fyrirtækið hyggur á stækkun Reykjanesvirkjunar og Svartsengisvirkjunar með betri nýtingu á þeirri gufu sem nú þegar er nýtt til orkuframleiðslu og án þess að auka upptekt. Þá hefur Auðlindagarðurinn vakið athygli bæða heima og erlendis fyrir fullnýtingu á þeim affalsstraumum sem falla til við vinnslu fyrirtæksins. Fyrirtækið hefur verið í efsta sæti í mælingu á ánægju viðskiptavina á raforkumarkaði í 14 skipti á síðustu 16 árum. Á árinu 2019 hlaut fyrirtækið jafnlaunavottun og í framkvæmdarstjórn sitja nú 3 konur og 4 karlar.

Orkusalan kolefnisjafnar eigin raforkuvinnslu

Reynir Kristinsson stjórnarformaður Kolviðs ásamt Magnúsi Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Orkusölunnar.

Orkusalan skrifaði í dag undir staðfestingu þess að fyrirtækið kolefnisjafni nú eigin raforkuvinnslu. Kolefnisspor raforkunnar með tilliti til bindingar er því ekkert. Orkusalan er fyrsta fyrirtækið sem nær þessu markmiði hér á landi. Allur rekstur sem hlýst af starfsemi fyrirtækisins er einnig kolefnisjafnaður.

Vinnsla á rafmagni veldur mismikilli losun, en öll raforka Orkusölunnar kemur frá vatnsaflsvirkjunum sem eru með losun í lágmarki miðað við aðrar vinnsluaðferðir. Orkusalan og EFLA verkfræðistofa hafa haldið utan um alla losun sem viðkemur starfsemi fyrirtækisins og hefur hún frá upphafi verið kolefnisjöfnuð með eigin skógrækt. Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar, segir að ákveðið hafi verið að fara skrefinu lengra og jafna alla losun sem hlýst af vinnslu raforkunnar.

Skógur Orkusölunnar bindur alla losun sem hlýst af rekstri fyrirtækisins og vel rúmlega það og er umframbindingin nýtt til að jafna hluta af eigin raforkuvinnslu og hefur sú losun sem eftir stendur verið jöfnuð í samstarfi við Kolvið.

„Við ætlum okkur að halda áfram að rækta skóginn á næstu árum og auka nýtingu skógræktarsvæðisins. Svæðið er einnig nýtt til útivistar allan ársins hring með þeirri fjölbreytni og skjóli sem skógurinn gefur. Eins munum við halda áfram að kolefnisjafna alla losun gróðurhúsalofttegunda sem verður vegna reksturs fyrirtækisins og vinnslu raforkunnar árlega“ segir Magnús Kristjánsson jafnframt í fréttatilkynningu frá Orkusölunni.

Nánari upplýsingar um kolefnisjöfnun Orkusölunnar má finna á heimasíðu fyrirtækisins.

Bryndís Ísfold nýr forstöðumaður hjá Orkuveitu Reykjavíkur

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Samskipta og samfélags hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Einingin er ný og hlutverk hennar er að sjá um samskipta- og markaðsmál hjá samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur. Auk móðurfélagsins tilheyra henni dótturfyrirtækin Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur og CarbFix.

Bryndís er með BA gráðu í stjórnmálafræði og BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Þá lauk hún meistaragráðu í herferðastjórnun frá Fordham University í New York. Síðustu tvö árin hefur hún starfað sem ráðgjafi og við stjórnendaþjálfun hjá ráðgjafafyrirtækinu Aton.JL, meðal annars fyrir fyrirtæki innan samstæðu OR. Þá er hún aðjúnkt við Háskólann á Bifröst og kennir nemendum í Miðlun og almannatengslum við skólann.

Bryndís Ísfold bjó og starfaði í Bandaríkjunum í fimm ár þar sem hún vann sem ráðgjafi fyrir frambjóðendur og félagasamtök, meðal annars á sviðum umhverfismála og mannréttindamála. Áður en hún fluttist utan starfaði hún hér á landi við almannatengsl og blaðamennsku. Bryndís var varaborgarfulltrúi og sat í ýmsum ráðum og nefndum hjá Reykjavíkurborg til ársins 2009 og gegndi starfi framkvæmdastjóra Já Ísland í rúm tvö ár.

Þriðju orkuskiptin: Í þágu okkar allra

Grein eftir Ingvar Frey Ingvarsson, hagfræðing Samorku:

Þriðju orkuskiptin: Í þágu okkar allra

Árangur af Parísarsamningnum er fyrst og fremst háður þeim aðgerðum sem aðildarríki hans grípa til í því skyni að standa við skuldbindingar sínar. Ljóst er að áætlanir ríkjanna þurfa að vera metnaðarfullar og aðgerðirnar skjótvirkar. Ríkisstjórn Íslands hefur sett sér það afar metnaðarfulla markmið að Ísland verði í fararbroddi á sviði loftslagsmála. Ein af megináherslum stjórnvalda að undanförnu er hröð orkuskipti í samgöngum, þar sem m.a. er stefnt að því að auka hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldneytis í samgöngum á landi í 10% árið 2020 og 40% árið 2030. Til að þau geti orðið að veruleika á æskilegum hraða er nauðsynlegt að tryggja gott samstarf hins opinbera, fyrirtækja og almennings í landinu. Rafvæðing samgöngukerfisins yrði þriðju umfangsmiklu orkuskiptin sem Íslendingar ganga í gegnum. Fyrri orkuskipti tengdust rafvæðingu húsa, heimila og atvinnustarfsemi með hagnýtingu vatnsaflsins og síðar þegar jarðhiti leysti kol, olíu og aðra kolefnisbundna orkugjafa sem aðalform húshitunar.
Árið 1973 var Ísland komið hálfa leið að hita heimili lands með jarðhita. Þá nutu um 43% þjóðarinnar (80–90 þúsund manns) hitunar með jarðhita. Hlutdeild olíuhitunar var ríflega 50% af hituninni en rafhitun þjónaði hinum. Þetta sama ár hækkaði heimsmarkaðsverð á hráolíu um 70% á stuttum tíma þegar olíukreppan skall á. Til að draga úr áhrifum olíuverðshækkana á rekstur heimila hóf ríkisvaldið að greiða þeim sem notuðu olíu til hitunar íbúðarhúsnæðis svokallaða olíustyrki. Á sama tíma var einnig mótuð orkustefna þar sem áhersla var lögð á að draga úr innflutningi á olíu en auka þess í stað hlutdeild innlendra orkugjafa, vatnsafls og jarðvarma. Stefnan kom m.a. fram í átaki í jarðhitaleit og byggingu nýrra hitaveitna víða um land. Þjóðhagslegur ávinningur af notkun jarðhita til húshitunar í stað olíu er gríðarlega mikill og á sinn þátt í þeirri velmegun sem ríkir í landinu. Efnahagslegur ávinningur Íslands af nýtingu jarðhita í stað olíu til húshitunar árið 2018 var 91,5 milljarðar eða 3,5% af landsframleiðslu, skv. nýútgefnum tölum Orkustofnunar.

Efnahagslegur ávinningur af notkun jarðhita til húshitunar er ótvíræður en jákvæð áhrif í umhverfislegu tilliti eru jafnframt umtalsverð. Bæði jarðhiti og vatnsorka teljast til endurnýjanlegra orkugjafa, andstætt jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi sem eru óendurnýjanlegar eða takmarkaðar auðlindir. Þá telur Orkustofnun að með notkun endurnýjanlegra orkugjafa til húshitunar og framleiðslu rafmagns komumst við hjá því að losa um 20 milljónir tonna af CO2 árið 2018 miðað við að nota jarðefnaeldsneyti. Til samanburðar þurfum við að minnka útblástur um 1 milljón tonna CO2 fyrir árið 2030 til að ná markmiðum Parísarsamningsins. Í þessu samhengi má einnig benda á að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2017 nam tæplega 4,8 milljónum tonna CO2 ígilda (án losunar frá LULUCF ) skv. Losunarbókhaldi Íslands 2019.

Orku- og veitufyrirtæki, í samstarfi við sveitarfélög og stjórnvöld hafa hingað til leitt orkuskipti á Íslandi og þau verða áfram leiðandi nú þegar þriðju orkuskiptin blasa við. Orkan sem heimili og fyrirtæki nota á Íslandi er framleidd með umhverfisvænum hætti og þar erum við í fararbroddi á heimsvísu. Þrátt fyrir að hafa náð miklum árangri í að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir hreina orku eru Íslendingar enn í einstakri stöðu til að skipta út innfluttu jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda, hagkvæma og hreina orkugjafa á flestum sviðum samfélagsins. Mikilvægt er að nýta það tækifæri en svara þarf þeirri spurningu hvaðan sú orka eigi að koma.

Rafbílavæðingin er raunhæfur og nærtækur kostur þegar að markmiðum Parísarsamkomulagsins kemur. Í skýrslu um Þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar sem unnin var af Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík kemur fram greining á áhrifum þess að umbreyta bílaflota landsmanna yfir í hreinorkubifreiðar, en þar kemur meðal annars fram að til þess þarf bæði umfangsmiklar aðgerðir og kerfislegar breytingar, t.d. í formi greiðslna fyrir úreldingu eldri mengandi bifreiða, eflingu almenningssamgangna og aðgerða sem stuðla að breyttum ferðavenjum.

Til lengri tíma litið er aukin hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa (rafmagn, metan, vetni o.fl.) afar mikilvæg í baráttu við lofslagsvandann, en þar mun rafbílavæðing skipta miklu í efnahagslegu tilliti og hagkvæmni fyrir þjóðina. Því til viðbótar skila orkuskipti í samgöngum í heild umtalsverðum árangri þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og skaðlegra efna. Líklegt er að rafbílavæðing hafi einnig önnur óbein jákvæð áhrif sem snerta aukið orkuöryggi. Ætla má að þau áhrif verði jákvæðari eftir því sem rafbílavæðing eykst. Þegar allir þessir þættir eru teknir saman er ljóst að áhrif rafbílavæðingar eru ótvírætt þjóðhagslega jákvæð, líkt og hitaveituvæðingin var á sínum tíma. Aukinn hlutur rafmagns í orkuskiptum, gerir einnig auknar kröfur um uppbyggingu orkuinnviða. Til þess að svo megi verða þurfa innviðir á sviði orkuflutnings að að vera nægjanlega öflugir til að standast óveður, aukinn raforkuflutning og aðgang að aukinni orku á sem flestum stöðum á landinu til að tryggja það öryggi.
Við höfum reynslu af orkuskiptum og vitum að þau eru bæði þjóðhagslega og umhverfislega hagkvæm. Við sem þjóð ættum því að beita öllum tiltækum ráðum í að ýta undir hröð orkuskipti og ná þar með mikilvægum áfanga í skuldbindingum okkar samkvæmt Parísarsáttmálanum.

 

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 19. desember 2019

Ný skýrsla staðfestir takmörkun jarðstrengja

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið birtu í gær í samráðsgátt stjórnvalda skýrslu dr. Hjartar Jóhannssonar um mat á möguleikum þess að nýta jarðstrengi við uppbyggingu flutningskerfis raforku. Ráðuneytin kölluðu eftir þessari úttekt í samræmi við þingsályktun 26/148, frá júní 2018, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Helstu niðurstöður í skýrslunni eru samhljóða niðurstöðum sem Landsnet hefur birt um sömu mál. Skýrslan staðfestir að jarðstrengir á hærri spennu (132 kV og 220 kV) í flutningskerfinu eru takmörkuð auðlind.

Í skýrslu dr. Hjartar segir orðrétt:

“Út frá samanburði þeirra niðurstaðna sem kynntar eru í þessum kafla og niðurstaðna annarra sambærilegra greiningarverkefna, þar sem lengdatakmarkanir jarðstrengskafla innan íslenska flutningskerfisins eru greindar, má sjá að góður samhljómur er á milli niðurstaðnanna. Rennir það frekari stoðum undir áreiðanleika fyrri greininga og þessarar greiningar hvað varðar lengdatakmarkanir háspenntra jarðstrengja”.

Meginniðurstaða verkefnisins eru þær að takmarkanir á lengd jarðstrengja á hæstu spennustigum flutningskerfisins leiðir það af sér að notkun svo stuttra jarðstrengskafla muni ekki hafa veruleg áhrif á afhendingaröryggi, raforkuverð, umhverfiskostnað eða byggðaþróun.

Skýrslu dr. Hjartar má sjá í heild sinni hér: Jardstrengir

Hlúum að innviðunum okkar

Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku

Hlúum að innviðunum okkar

Enn og aftur höfum við verið minnt á hvað orkuinnviðirnir okkar eru mikilvægir heilsu, öryggi og lífsviðurværi fólks.

Aftakaveður gekk yfir landið í vikunni og þrátt fyrir umfangsmikinn undirbúning og viðbúnað þeirra sem stuðla að öryggi og velferð landsmanna varð víðtækt og fordæmalaust rafmagnsleysi með tilheyrandi tjóni og óþægindum.

Starfsfólk veitufyrirtækjanna, ásamt björgunarsveitum, lögreglu, slökkviliði og fleirum, hefur unnið sleitulaust að því undanfarna sólarhringa að koma rafmagni og hita aftur á í þeim landshlutum sem verst urðu úti. Aðstæður hafa verið erfiðar og reynt hefur á samstarf, þekkingarmiðlun og fagmennsku allra aðila sem að málinu hafa komið. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, vill þakka starfsfólki veitufyrirtækjanna og öðrum viðbragðsaðilum sem hafa lagt sig fram við að koma samfélaginu í samt horf en því verkefni er hvergi nærri lokið, þar sem nokkurn tíma mun taka að gera að fullu við skemmdir af völdum veðurofsans.

Góðir innviðir eru undirstaða samfélagsins. Við megum hins vegar aldrei taka þeim sem sjálfsögðum hlut. Hlúa þarf að þeim; endurnýja þegar við á og styrkja þá, svo allir geti notið sömu lífsgæða og tækifæra og draga úr líkum á samsvarandi tjóni sem varð nú. Það þarf einnig að horfa til framtíðar þegar kemur að innviðauppbyggingu svo hægt verði að mæta þörfum samfélagsins í öllum landshlutum.

Orku- og veitugeirinn byggir á öflugu starfsfólki, því kerfin okkar virka ekki bara af sjálfu sér. Að baki er vel menntað fagfólk sem vinnur að mikilvægum samfélagslegum verkefnum á hverjum degi. Enn og aftur minnir það okkur á hversu brýnt er að hlúa vel að iðn- og tæknimenntun í landinu, svo hægt verði um ókomna framtíð að sinna þessum grunnstoðum samfélagsins.

Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að til standi að stofna starfshóp um raforkuinnviði og fagnar Samorka því. Nú reynir á að orkuinnviðir fái þann framgang í skipulags- og leyfisveitingamálum sem til þarf svo þau standi að minnsta kosti ekki í vegi fyrir því að innviðirnir séu á hverjum tíma eins og best verður á kosið fyrir samfélagið.

Aðsend grein eftir Pál Erland, framkvæmdastjóra Samorku.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is laugardaginn 14. desember.