30. nóvember 2022 Hugum að hitaveitunni: Er alltaf nóg til? Grein eftir Pál Erland, framkvæmdastjóra Samorku: Jarðhitinn er stærsti orkugjafi á Íslandi. Um 60% af allri orku sem notuð er hér á landi er heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu. Það eru alls 43 TWst sem er tvöfalt meiri orka en framleidd er af rafmagni. Á meðan nágrannalönd okkar kynda húsin sín að stórum hluta með innfluttu jarðefnaeldsneyti notum við heita vatnið okkar, sem er stór liður í því hversu langt við erum komin í að vera óháð öðrum þjóðum um orku. Mikilvægi jarðhitans fyrir íslenskt samfélag lá ekki alltaf í augum uppi. Árhundruðum saman grunaði engan hversu mikill auður væri fólginn djúpt í jarðlögum undir landinu. Fyrst um sinn var jarðhitinn nýttur á stöku stað til þvotta og baða en eftir að við byrjuðum að leiða heitt vatn inn í húsin okkar fyrir um 100 árum varð efnahagslegur og samfélagslegur ávinningur fljótt ljós. Á Íslandi njótum þeirra forréttinda að hafa góðan aðgang að heitu vatni sem hitaveitur landsins sjá um að færa okkur. Í dag eru vel yfir 90% húsa á Íslandi hituð með hitaveitu og allir þekkja lífsgæðin sem fylgja því að fara í góða sturtu, í heitt bað eða skella sér í sund. Nú vitum við einnig hversu mikill ávinningurinn fyrir loftslagið er. Vegna nýtingu jarðhita til húshitunar höfum við komið í veg fyrir árlega losun 20 milljón tonna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið, sem er rúmlega fjórfalt það sem Ísland losar í dag. Það er ekki sjálfgefið að búa að slíkri auðlind og geta nýtt hana. Það var mikið frumkvöðlastarf á sínum tíma og krafðist mikillar framsýni. Það krefst ekki síður mikillar vinnu að viðhalda þeim mikla árangri og ávinningi sem hitaveitan hefur fært okkur. Því þó að orkuskiptum í húshitun sé formlega lokið, þá þarf að viðhalda þeim í takt við vöxt samfélagsins. Gert er ráð fyrir að íbúum á Íslandi hafi fjölgað um 22% árið 2050 miðað við árið 2021 samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar og verði yfir 450.000. Hæsta spá Hagstofunnar gerir svo ráð fyrir að aukningin frá 2021 verði um 70% til ársins 2070 og verði þá rúmlega 625.000. Þessi aukni mannfjöldi mun kalla á samsvarandi aukningu í notkun heits vatns. Samkvæmt jarðhitaspá Orkustofnunar hefur meðalnotkun heimila aukist jafnt og þétt síðustu ár, þrátt fyrir miklar framfarir í einangrun húsa og aukinnar notkunar gólfhita. Hlutur atvinnulífs í eftirspurn eftir jarðvarma mun einnig aukast töluvert miðað við spá Orkustofnunar. Til dæmis er gert ráð fyrir talsverðri fjölgun baðlóna og ylstranda og að eftirspurn vegna fiskeldis muni þrefaldast. Spáin gerir ráð fyrir að þarfir atvinnulífsins taki fram úr jarðvarmanotkun heimila þegar fram líða stundir. Gangi þetta eftir er hætta á að hitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru í rannsókn. Hitaveiturnar neyðist því til að leita sífellt lengra að nýjum vinnslusvæðum með tilheyrandi kostnaði fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Auk þess er jarðhitaauðlindin viðkvæm og jarðhitasvæði sem henta til nýtingar eru ekki óþrjótandi. Það tekur ár og stundum áratugi að finna heppileg svæði til nýtingar, bora rannsóknarholur og rannsaka hver afkastageta svæðisins er. Eins og staðan er í dag eiga hitaveiturnar fullt í fangi með að anna núverandi heitavatnsnotkun og við blasir að til skerðinga getur komið í kuldaköstum þegar borholur hafa ekki undan. Hitaveiturnar starfa í þágu viðskiptavina sinna og er því umhugað að nýta þær auðlindir og fjármuni sem þeim hefur verið treyst fyrir á sem bestan hátt. Við getum öll tekið þátt í því að fara vel með heita vatnið og þar með lágmarka umhverfisáhrif og kostnað. Ennfremur þurfa stjórnvöld að styðja við jarðhitaleit um allt land svo við getum haldið áfram að njóta þeirra forréttinda sem heita vatnið okkar er. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 17. nóvember 2022.
28. nóvember 2022 Matarkista Íslands í sókn Podcast: Play in new window | Download (Duration: 35:15 — 48.3MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More Tækifæri til matvælaframleiðslu allt árið um kring á Suðurlandi eru fjölmörg. Til staðar er græn orka, gott ræktarland og staðgóð þekking í þágu nýsköpunar á þessu sviði. Til þess að virkja þessi tækifæri þarf bara að kveikja hugmyndirnar! Og það er einmitt aðalhlutverk Sveins Aðalsteinssonar, framkvæmdastjóra Orkídeu, sem er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi á vegum Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Sveinn Aðalsteinsson er viðmælandi þáttarins.
18. nóvember 2022 Hitaveitur komnar í hámarks afkastagetu Eftirspurn eftir heitu vatni hefur aukist mjög mikið á skömmum tíma. Staðan er nú orðin þannig að núverandi vinnslusvæði eru komin í hámarks afkastagetu og það er því stór áskorun fyrir hitaveitur að anna þessari eftirspurn. Þá blasir við að hún eigi enn eftir að aukast mikið samkvæmt jarðvarmaspá Orkustofnunar til ársins 2060. Jarðhitaleit, leyfisveitingar og rannsóknir taka langan tíma og því engin lausn í sjónmáli. Komið geti til skerðinga á heitu vatni á köldustu dögum ársins. Um þetta var fjallað á opnum fundi Samorku fimmtudaginn 17. nóvember undir yfirskriftinni Hugum að hitaveitunni: Er alltaf nóg til? Fulltrúar þriggja hitaveitna kynntu stöðuna eins og hún er í dag og hvernig aukin eftirspurn hefur haft áhrif á starfsemi þeirra. Þá kynnti Orkustofnun jarðvarmaspána og nýja orkunýtnitilskipun Evrópusambandsins. Að lokum var hvatt til vitunarvakningar meðal almennings um að fara vel með heita vatnið og sóa því ekki að óþörfu. Upptöku af fundinum má sjá neðst í færslunni. Hér má sjá svipmyndir frá fundinum í Hörpu. Ljósmyndir: BIG
18. nóvember 2022 Piss, kúkur, klósettpappír og allt hitt Podcast: Play in new window | Download (Duration: 42:12 — 45.1MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More Fráveitan veitir þjónustu sem enginn getur verið án en fæstir leiða hugann að í amstri dagsins. Hún er mikilvægt heilbrigðis- og hreinlætismál í heiminum öllum. Fráveitan flytur frárennsli og skólp heimila og fyrirtækja, og regnvatn frá götum og lóðum í sjó með viðkomu í hreinsistöð. Það er mörg horn að líta, til dæmis að bregðast við þéttingu byggðar og hvar fráveitan á að vera, loftslagsbreytingar og að fá fólk til að hætta að nota klósettið eins og ruslafötu. Viðmælendur þáttarins eru Fjóla Jóhannesdóttir og Hlöðver Stefán Þorgeirsson, sérfræðingar í fráveitu hjá Veitum og ræða um þessi verkefni sem þau fást við daglega. 19. nóvember er alþjóðlegur dagur klósettsins. Af því tilefni bjóða Veitur í sögugöngu um fráveitu í miðborginni þriðjudaginn 22. nóvember kl. 17. Nánari upplýsingar um gönguna má sjá á Facebook.
27. október 2022 Frumkvöðlaflugeldasýning á Norðurlandi Podcast: Play in new window | Download (Duration: 41:39 — 48.4MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More Eimur er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur og Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Markmið verkefnisins er að bæta nýtingu orkuauðlinda og auka nýsköpun í orkumálum á Norðausturlandi. Í þætti dagsins ætlum við að heyra meira um Eim, hvað þau eru að fást við og ekki síst kynnast framkvæmdastjóranum betur, Sesselju Ingibjörgu Barðdal Reynisdóttur, sem segir að frumkvöðlar séu eins og rakettur, saman geti þeir myndað fallega flugeldasýningu. Lífæðar landsins er hlaðvarp Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. Í þættinum verður fjallað um orku- og veitumál frá hinum ýmsu hliðum.
24. október 2022 Óskað eftir erindum á NORDIWA 2023 Óskað er eftir tillögum að erindum fyrir norrænu fráveituráðstefnuna sem haldin verður í Gautaborg í Svíþjóð dagana 5. -7. september 2023. Ráðstefnan er stærsti viðburður í fráveitumálum á Norðurlöndunum þar sem koma saman; sérfræðingar og framkvæmdastjórar fráveitna, háskólasamfélagið og rannsakendur ásamt helstu ráðgjöfum á sviði fráveitu og fleiri sem hafa áhuga og þekkingu á innviðum veitna. NORDIWA er nú haldin í 18. sinn og að skipulagingu koma samtök rekstraraðila fráveitna á Norðurlöndunum, þar á meðal Samorka. Skilafrestur fyrir tillögur að erindi er til 27. janúar 2023. Allar nánari upplýsingar um ráðstefnuna, helstu umfjöllunarefni og hvernig eigi að senda inn tillögur eru að finna á heimasíðu ráðstefnunnar.
18. október 2022 Orkuskipti.is opnuð Samtök iðnaðarins, Landsvirkjun, Samorka og Efla opnuðu í dag nýjan upplýsingavef https://orkuskipti.is/ á opnum fundi í Kaldalóni í Hörpu. Á vefnum eru aðgengilegar upplýsingar um orkunotkun, orkuskipti og efnahagslegan ávinning Íslands af orkuskiptum. Ný greining Eflu um efnahagsleg áhrif orkuskipta var einnig kynnt á fundinum. Efnahagsleg áhrif orkuskipta-HelstuNiðurstöðurDownload Helstu punktar: Markmið stjórnvalda er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Orkuskipti eru nauðsynleg til að ná þessum markmiðum og stuðla um leið að auknu orkuöryggi og orkusjálfstæði Íslands. Orkuskipti ganga út á að hætta að nota óendurnýjanlega orkugjafa eins og olíu og nota þess í stað endurnýjanlega orkugjafa eins og vatn, jarðvarma, vind og sól. Ísland notar um milljón tonn af olíu árlega sem kostar um 100 milljarða króna sem jafngildir verðmæti alls afla úr sjó við Ísland í 6 mánuði. Af innfluttri olíu skiptist notkunin í 52% fyrir flugvélar, 26% fyrir skip, 15% fyrir stærri ökutæki og 7% fyrir bíla. Jarðhitinn er helsti orkugjafi Íslands. Um 60% af frumorkunotkuninni er heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu. Um 25% frumorkunotkunar er raforka sem ýmist er unnin úr vatnsafli eða jarðhita. 15% frumorkunotkunar er olía. Skipting orkunotkunar Íslands án húshitunar er 60% raforka og 40% olía. Ísland telst nettó innflytjandi á orku þar sem orkuframleiðsla hér á landi dugar ekki fyrir orkunotkun. Efnahagslegur ávinningur Íslands af orkuskiptum fram til ársins 2060 getur numið 1.400 milljörðum króna sem samsvarar fjármögnun heilbrigðiskerfisins í nær 5 ár. Heildarumfang fjárfestinga í raforkukerfinu vegna orkuskipta er talið vera um 800 milljarðar króna sem samsvarar byggingu 10 nýrra Landspítala. Orkuskiptin munu draga verulega úr losun Íslands eða sem nemur 88 milljónum tonna CO2 ígilda. Verðmæti þess eru um 500 milljarðar króna. Myndir/BIG.
16. október 2022 Páll Erland frá Samorku til HS Veitna Páll Erland hefur verið ráðinn forstjóri HS Veitna og hefur störf á nýju ári 2023. Hann tekur við forstjórastöðunni af Júlíusi Jónssyni, sem lætur nú af störfum eftir 40 ára starf fyrir HS Veitur. Páll hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Samorku frá ársbyrjun 2017. Áður en hann kom til starfa hjá samtökunum var hann framkvæmdastjóri Veitna hjá Orkuveitu Reykjavíkur í sjö ár og framkvæmdastjóri virkjana og sölusviðs og síðar Orku náttúrunnar í fimm ár. Staða framkvæmdastjóra Samorku verður auglýst innan skamms.
14. október 2022 Nýr upplýsingavefur opnaður á þriðjudag Samtök iðnaðarins, Landsvirkjun, Samorka og Efla hafa tekið höndum saman um að opna nýjan upplýsingavef um orkunotkun Íslands, orkuskipti og áhrif þeirra í Kaldalóni í Hörpu þriðjudaginn 18. október kl. 14-15.30. Yfirskrift fundarins er Orkuskipti – hvað þarf til að ná fullum orkuskiptum og hver gæti efnahagslegur ávinningur Íslands verið? Á fundinum verður vefurinn opnaður og ný greining um efnahagslegan ávinning Íslands af orkuskiptum kynnt. Þátttakendur í dagskrá: Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherraSigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SIHörður Arnarson, forstjóri LandsvirkjunarSigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SIHaukur Ásberg Hilmarsson, hagfræðingur í orkumálaráðgjöf hjá EfluPáll Erland, framkvæmdastjóri SamorkuLovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku Á fundinum verður vefurinn opnaður og kynnt ný greining um efnahagslegan ávinning Íslands af orkuskiptum. Skráningar er óskað á si.is.