9. október 2024 Auglýst eftir umsóknum um styrki til fráveituframkvæmda Opnað hefur verið á ný fyrir umsóknir sveitarfélaga um styrki til fráveituframkvæmda. Umsóknarfrestur vegna styrkjanna er til og með 30. nóvember 2024. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Styrkhæfar fráveituframkvæmdir eru framkvæmdir við safnkerfi fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir. Einnig framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts en rannsóknir hafa sýnt að megnið af örplastsmengun berst til sjávar með ofanvatni. Meðal skilyrða fyrir að fráveituframkvæmd teljist styrkhæf er að kostnaður hafi fallið til eftir 1. janúar 2020. Umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins. Nánari upplýsingar má finna á vef Stjórnarráðsins.