11. maí 2020 Átakið Íslenskt gjörið svo vel hafið Opna birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 9. maí Sameiginlegt kynningarátak stjórnvalda og atvinnulífs undir yfirskriftinni Íslenskt gjörið svo vel hófst um helgina með birtingu á opnuauglýsingum í helgarblöðunum, þeim fylgja auglýsingar í útvarpi, vefmiðlum og á samfélagsmiðlum. Kynningarátakinu er ætlað að verja störf og auka verðmætasköpun og miðar að því að hvetja landsmenn, almenning og fyrirtæki til viðskipta við innlend fyrirtæki á fjölbreyttum sviðum, við val á framleiðslu, vörum og þjónustu. Lögð er áhersla á mikilvægi þeirrar keðjuverkunar og hringrásar sem verður til við val á m.a. innlendri framleiðslu- og þjónustustarfsemi sem stuðlar að því að atvinnustarfsemi helst gangandi, störf eru varin, efnahagslegur stöðugleiki eykst og verðmætasköpun er aukin. Að átakinu standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samorka og Bændasamtök Íslands. Átakið er liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda gegn COVID-19 en með átakinu verður unnið gegn efnahagslegum samdrætti vegna heimsfaraldursins með það fyrir augum að lágmarka áhrifiná atvinnulíf, til skemmri og lengri tíma. Upphaf átaksins er fjármagnað af atvinnulífinu en stjórnvöld munu leggja 100 milljónir til átaksins og verður efnt til útboðs sem nú er í undirbúningi.