7. febrúar 2008 Álið framúr sjávarafurðum í útflutningsverðmæti Samkvæmt útreikningum Greiningardeildar Kaupþings má búast við að útflutningsverðmæti áls aukist úr rúmum 80 milljörðum króna í um 135 milljarða á þessu ári og verði komið í um 140 milljarða á árinu 2009. Á sama tíma mun útflutningsverðmæti áls í fyrsta skipti fara fram úr útflutningi á sjávarafurðum á þessu ári, samkvæmt spá greiningardeildarinnar. Fram kemur í nýrri hagspá hennar að í kjölfar þess að þorskaflaheimildir voru skornar niður um 33% í fyrrasumar dragi úr vægi sjávarútvegs í útflutningi – sem mun koma að fullu fram á næstu árum en áætlað verðmæti niðurskurðarins er á bilinu15 -20 milljarðar á ári. Framkvæmdir í Helguvík nái hámarki á næsta áriEnnfremur segir í hagspánni að hagvöxtur næstu ára muni verða drifinn áfram af viðsnúningi í utanríkisviðskiptum, þar sem álútflutningur aukist og innflutningur dragist saman í takt við minnkandi útgjöld þjóðarinnar. Þá gerir spáin ráð fyrir að samdrætti í fjárfestingu atvinnuveganna á þessu ári þar sem stóriðjuframkvæmdum sé að mestu lokið, hins vegar muni mælast vöxtur í fjárfestingu að nýju árið 2009 sem helgist eingöngu af Helguvíkurverkefninu, en gert sé ráð fyrir að þær framkvæmdir hefjist í ár og nái hámarki á næsta ári. Loks segir í hagspá greiningardeildar Kaupþings að umræða um byggingu álvers á Bakka við Húsavík muni verða háværari þegar líði undir lok núverandi hagsveiflu og fleiri merki um niðurskurð taki að berast. Sjá hagspá greiningardeildar Kaupþings.