Aðalfundur Samorku ályktar um reglubyrði, eignarhaldsumræðuna, jarðstrengi, vanskil ríkissjóðs o.fl.


Ályktun aðalfundar Samorku
15. febrúar 2008

Skilvirkt og stöðugt regluumhverfi

Allur atvinnurekstur þarf á skýru en jafnframt einföldu og skilvirku laga- og regluumhverfi að halda. Orku- og veitufyrirtæki eru þar engin undantekning. Mikil umræða hefur lengi staðið um ýmiss konar breytingar, jafnvel grundvallarbreytingar, á regluumhverfi þessara fyrirtækja. Árum saman hefur reglubyrði þeirra aukist jafnt og þétt og til eru dæmi þess að ein og sama framkvæmdin hafi verið oftar en tuttugu sinnum til umfjöllunar hjá sömu umsagnaraðilunum. Samorka leggur áherslu á mikilvægi þess að orku- og veitufyrirtæki búi við stöðugt, einfalt og skilvirkt regluumhverfi. Ekki er beðið um neina afslætti af þeim umhverfis- og öryggiskröfum sem fyrirtækin sæta, heldur um að skoðaðar verði leiðir til einföldunar þessa regluumhverfis og reynt að ná niðurstöðu til lengri tíma um æskilegt regluverk. Orku- og veitufyrirtækin lýsa sig að sjálfsögðu reiðubúin til samstarfs vegna hvers kyns breytinga á þessu sviði og raunar nauðsynlegt að aðkoma þeirra sé tryggð þegar fjallað er um breytingar á starfsumhverfi þeirra.

Einblínt um of á eignarhaldið
Aðalfundur Samorku telur að umræða um málefni orku- og veitufyrirtækja snúist oft óþarflega mikið um eignarhald á auðlindum og veitukerfum. Hægt er að stýra starfsemi allra orku- og veitufyrirtækja mjög nákvæmlega í krafti laga og reglna án tillits til eignarhaldsins. Í þessu sambandi má nefna að líklega er ekkert fyrirtæki að hagnast á dreifingu raforku vegna lagarammans og skiptir þá ekki máli hvort fyrirtækið er í opinberri eða einkaeign. Ætla verður að ríki og sveitarfélög geri af sjálfsdáðum nauðsynlegar ráðstafanir í orku- og veitumálum án þess að sett séu lög sem beinlínis banna einkaaðilum að starfa á þessum sviðum.

Dráttur á greiðslum ríkissjóðs vegna stofnstyrkja til hitaveitna
Samkvæmt lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar (nr. 78/2002 með síðari breytingum) er heimilt að greiða styrki til hitaveitna sem aukið hafa við dreifikerfi sitt til að geta tengt íbúðarhús sem notið hafa niðurgreiðslu á raf- eða olíuhitun. Þessi þátttaka ríkissjóðs hefur aukið verulega útbreiðslu hitaveitu á rafhitasvæðum og er þannig til langs tíma allra hagur. Undanfarin ár hefur ríkissjóður hins vegar dregið greiðslur og stefnir að óbreyttu í að sú upphæð verði samtals um 150 milljónir króna í árslok 2008. Samorka skorar á stjórnvöld að taka þetta mál til skoðunar, enda eru þessar framkvæmdir – sem áætlað var að ríkissjóður myndi styrkja – farnar að íþyngja rekstri hitaveitna verulega.

Raunlækkun á verði raforku og heits vatns
Undanfarin ár hefur verð á bæði heitu vatni og raforku farið lækkandi um land allt, a.m.k. að teknu tilliti til verðlagsþróunar almennt, ef frá eru skilin áhrif kerfisbreytinga sem raforkulög frá árinu 2003 höfðu í för með sér. Líkt og fram kemur í nýlegri skýrslu iðnaðarráðherra um raforkumálefni er verð á raforku til almennra notenda lægra hérlendis en í helstu samanburðarlöndum, og mun lægra en meðalverðið innan Evrópusambandsins. Þetta er ekki sjálfsögð niðurstaða í svo dreifbýlu landi og erfiðu yfirferðar. Eina af ástæðum þessa glæsta árangurs er að finna í raforkusölu til stóriðju. Góð arðsemi hefur verið af raforkusölu til stóriðju og hafa þessi viðskipti bætt hag viðkomandi orkufyrirtækja.

Loftlínur, jarðstrengir og öflugra flutningskerfi
Mikil umræða hefur farið fram um jarðstrengi og loftlínur til flutnings og dreifingar á raforku. Fyrir flutningsminni mannvirki er kostnaður strengja sambærilegur við loftlínur. Á undanförnum árum hafa orkufyrirtækin nýtt sér þetta við uppbyggingu og endurnýjun kerfanna og valið jarðstrengi í stað loftlína. Miðað við þessa þróun er líklegt að hlutfall strengja vaxi mjög í framtíðinni eftir því sem kostnaður vegna þeirra lækkar. Hins vegar er kostnaður við flutningsmeiri jarðstrengi ennþá mikill, jafnvel margfalt meiri en kostnaður við loftlínur, auk þess sem afhendingaröryggið er minna. Þá geta framkvæmdir við lagningu jarðstrengja kallað á mun meira jarðrask en framkvæmdir við loftlínur, sem að auki hafa að stóru leyti afturkræf umhverfisáhrif. Hvergi í heiminum hefur verið farið út á þá braut að leggja flutningskerfi alfarið í jörð, enda viðbúið að slík framkvæmd hefði í för með sér verulega hækkun raforkuverðs. Víða um land er hins vegar brýn þörf á eflingu flutningskerfisins og ljóst að efling kerfisins er forgangsatriði, umfram margfalt dýrari framkvæmdir við færslu á loftlínum í jörð.

Rík að endurnýjanlegri orku – nýtum hana á okkar forsendum
Íslendingar eru svo lánsamir að hafa aðgang að miklum vatnsauðlindum – hreinu drykkjarvatni, kröftugu vatnsafli og kraumandi jarðhita. Okkur hefur tekist að nýta þessar auðlindir skynsamlega og nú þegar Evrópusambandið setur sér markmið um meira en tvöföldun á hlut endurnýjanlegrar orku upp í 20% erum við Íslendingar óðum að nálgast 80% hlut. Ísland er í einstakri stöðu að þessu leyti og Samorka fagnar því hvernig íslensk orkufyrirtæki eru að hasla sér völl í verkefnum á þessu sviði um heim allan, á grundvelli þeirrar ríku þekkingar sem hér hefur þróast um áratugaskeið í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Afar mikilvægt er að íslenskar endurnýjanlegar orkulindir njóti áfram sömu viðurkenningar og þær fengu við gerð Kyoto-bókunarinnar við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og leggur Samorka áherslu á að íslensk stjórnvöld tryggi að svonefnt íslenskt ákvæði eða sambærilegt verði áfram við lýði. Þessi stefna er í samræmi við markmið loftslagssamningsins og er hluti af lausninni á sviði loftslagsmála. Ísland hlýtur áfram að vilja hafa fullt forræði yfir nýtingu eigin orkuauðlinda.