14. október 2014 Nýir sæstrengir sagðir munu auka verðmætasköpun í Noregi Norska orkumálaráðuneytið hefur gefið flutningsfyrirtækinu Statnett leyfi til að leggja tvo nýja sæstrengi til raforkuflutnings, annars vegar til Þýskalands og hins vegar til Bretlands. Um er að ræða strengi með 1.400 megavatta flutningsgetu og yrði strengurinn til Bretlands sá lengsti sinnar tegundar, um 800 km að lengd. Ráðgert er að hann verði tekinn í notkun árið 2020, en strengurinn til Þýskalands árið 2018. Að sögn Olufs Ulseth framkvæmdastjóra Energi Norge – samtaka norskra orkufyrirtækja – mun stóraukin flutningsgeta til annarra Evrópulanda hafa í för með sér aukna verðmætasköpun fyrir Noreg, þar sem hægt verði að flytja inn vind- og sólarorku þegar hennar nýtur við á lágum verðum í öðrum Evrópuríkjum, en nýta sveigjanleika vatnsaflsins til að flytja orkuna út þegar sólar eða vinds nýtur ekki við og verðin því hærri á umræddum mörkuðum. Þá muni þessar nýju tengingar auka orkuöryggi Noregs, þar sem raforkan gegnir m.a. lykilhlutverki í húshitun. Loks bendir hann á að aukin strengvæðing muni stuðla að auknum hlut grænna orkugjafa í orkunotkun Evrópulanda og þar með að minni brennslu jarðefnaeldsneyta á borð við olíu, gas og kol, og þannig draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þær þjóðir sem helst búi að vind- og sólarorku, auk brennslu jarðefnaeldsneyta, muni flytja inn raforku úr norsku vatnsafli þegar vinds eða sólar nýtur ekki við. Sjá nánar á vef Energi Norge.